Það var sólskin og heiður himinn og fullt tilefni til bjartsýni þegar Sigmundur Benediktsson orti: Ljós í hjarta léði þjóð, log í þorsins arni. Sólin bjarta gleði glóð gefur vorsins barni.

Það var sólskin og heiður himinn og fullt tilefni til bjartsýni þegar Sigmundur Benediktsson orti:

Ljós í hjarta léði þjóð,

log í þorsins arni.

Sólin bjarta gleði glóð

gefur vorsins barni.

Hann var að glugga í háttatalið og fékk löngun til að gera vísu undir þessum „undur fallega hætti“. Ferskeyttur háttur nr. 32. Víxlhent, frumaukrímað. Fléttubönd. Og hann rifjar upp vísu úr Íslenskum þjóðlögum eftir Staðarhóls-Pál, en lagið lærði hann á Kornsá í Vatnsdal árið 1886:

Get jeg þeygi gert að því,

guðs þó feginn vildi

þó að smeygist þankann í

það, sem eigi skyldi.

Sigurlín Hermannsdóttir skrifar á Boðnarmjöð: „Úkraínumenn gráta glatað landsvæði en hér á landi skemmta menn sér yfir nýfundnum rímorðum.

Svæðið er nú svikið um

svokallaða Krímverja.

Á Boðnarmiði er mikið um

mikilhæfa rímverja.“

Hal Oskarsson er á öðrum nótum:

Ég um sól og sumar bið

og sunnanþey af fjöllum,

til að viðra vonleysið

sem virðist búa í öllum.

Stolin krækiber nefnist bók með úrvali vísna úr vísnaþáttum Dagbjarts Dagbjartssonar sem kom út á haustdögum með skopteikningum Bjarna Þórs Bjarnasonar. Dagbjartur yrkir um uppátækið:

Vísnagerð í verkum dags,

vöku bæði og svefni,

finnst mér vera fyrirtaks

fæðubótarefni.

Og hann bætir við:

Ef ég fer á annað borð

með andagift að bruðla

treð ég hugsun inn í orð

og orðunum í stuðla.

Og loks yrkir Dagbjartur:

Þó ég semji glens og grín

og geymi það á miðum

þá eru andans afrek mín

ekki stór í sniðum

Pétur Blöndal

pebl@mbl.is