Barack Obama
Barack Obama
Kristján Jónsson kjon@mbl.

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Barack Obama Bandaríkjaforseti hyggst leggja fram tillögur um breytingar á lögum sem eiga að þrengja verulega rétt Þjóðaröryggisstofnunar landsins, NSA, til að safna skipulega upplýsingum um símanotkun borgaranna, að sögn New York Times. Gögnin munu þá verða varðveitt hjá símafyrirtækjunum en NSA mun þurfa nýja gerð dómaraúrskurðar til að fá afhent afmörkuð gögn frá þeim.

Efasemdamenn segja að það fari mjög eftir orðalagi nýju laganna hvort um raunverulega breytingu verði að ræða eða bara fegraða mynd af þeim gömlu. Ef til vill ætli Obama sér aðeins að friða gagnrýnendur innanlands. „Lykilspurningarnar eru hvort algerlega verður bundinn endi á allsherjarsöfnunina og eftirlit dómskerfisins verður nægilega öflugt,“ segir Zeke Johnson hjá Bandaríkjadeild mannréttindasamtakanna Amnesty International.

Í væntanlegum tillögum forsetans er sagt að gamla tilhögunin verði enn við lýði í 90 daga. Yfirmenn njósnastofnana hafa sagt að þessi mikla gagnasöfnun, sem miðar að því að greina fjarskipti meintra hryðjuverkamanna, sé nauðsynleg til að tryggja öryggi borgaranna og ríkisins. Ekki sé í reynd verið að hlera boðskipti venjulegra borgara.

En mörgum talsmönnum persónuverndar og mannréttinda hefur ofboðið hve víðtækar heimildir NSA hefur til að safna gögnum og jafnframt hve dómarar hafa verið fúsir til að veita hlerunarheimildir.

Hugsanleg málamiðlun
» Uppljóstranir Edwards Snowdens, fyrrverandi verktaka hjá NSA, hafa sýnt að umfang gagnasöfnunar var mun víðtækara en almennt var talið.
» Washington Post hefur eftir áhrifamiklum þingmanni repúblikana, Mike Rogers, að unnið sé að gerð tillögu um málamiðlun sem menn geti sæst á.