Afmæli Ólöf Huld Helgadótti er fædd 26. mars árið 1974.
Afmæli Ólöf Huld Helgadótti er fædd 26. mars árið 1974.
Fertugsafmælisdagurinn verður nokkuð hefðbundinn hjá Ólöfu Huld Helgadóttur. Dagurinn byrjar í vinnunni hjá Vistor þar sem Ólöf Huld starfar sem lyfjafræðingur en síðdeginu mun hún eyða í faðmi fjölskyldunnar.

Fertugsafmælisdagurinn verður nokkuð hefðbundinn hjá Ólöfu Huld Helgadóttur. Dagurinn byrjar í vinnunni hjá Vistor þar sem Ólöf Huld starfar sem lyfjafræðingur en síðdeginu mun hún eyða í faðmi fjölskyldunnar. „Við förum út að borða um kvöldið með börnunum og gerum eitthvað smáræði í tilefni dagsins,“ segir Ólöf Huld en hún á þrjú börn, 2 ára, 8 ára og 10 ára, með maka sínum Halldóri K. Júlíussyni. Þá er ekki sagan öll því Ólöf Huld gengur með fjórða barnið sem von er á í heiminn í ágúst.

Stórafmæli hafa ekki verið tilefni til veisluhalda hjá Ólöfu Huld hingað til. „ Ég hélt upp á 25 ára og 35 ára afmælin, ætli það verði ekki bara 45 ára næst. Mér finnst voða gaman að eiga afmæli en ég er ekkert upptekin af því.“

Aldurinn leggst vel í afmælisbarnið sem fagnar því að fá að eldast. „Það hljómar reyndar ekki nógu vel á íslensku að vera kominn á fimmtugsaldurinn þegar maður er orðinn fertugur, betra upp á enskuna að vera in my forties,“ segir Ólöf Huld og hlær.

Svo skemmtilega vill til að besta vinkona hennar varð fertug í gær. „Mömmur okkar kynntust á fæðingardeildinni og vegir okkar hafa legið saman síðan. Við hittumst oft fyrsta árið en síðan fluttu foreldrar hennar annað og þá slitnaði samgangurinn. Svo hittumst við aftur þegar við vorum 8 ára en þá vorum við báðar að læra á fiðlu hjá sama fiðlukennaranum, það er alltaf eitthvað sem tengir okkur. Við höfum reyndar aldrei haldið upp á afmæli saman en eigum kannski eftir að gera það,“ segir Ólöf Huld. ingveldur@mbl.is