Háir skattar hafa gefist illa við að lyfta ríkjum upp úr efnahagsvanda

George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, kynnti í síðustu viku nýja fjárhagsáætlun bresku ríkisstjórnarinnar, þá síðustu fyrir þingkosningarnar sem fram fara á næsta ári. Í áætluninni kenndi ýmissa grasa, en það sem vakti einna mesta athygli á eftir róttækum breytingum á lífeyriskerfinu var að fyrirhugað er að lækka skatta myndarlega á láglauna- og millitekjufólk. Bretar fylgja þar í fótspor annarra Evrópuríkja. Sem dæmi má nefna að Hollande Frakklandsforseti, sem áður hafði verið talsmaður hærri skatta, boðaði skattalækkanir í janúar. Renzi, hinn nýi forsætisráðherra Ítalíu, lofaði skattalækkunum við embættistöku og stóð við það loforð fyrr í mánuðinum. Fleiri forystumenn í Evrópu hafa svipuð plön á prjónunum.

Það sem er sameiginlegt með flestum þessara ríkja er að síðustu fimm árin hafa þau reynt að fara hina „íslensku leið“ Jóhönnu og Steingríms út úr kreppunni, með því að hækka skatta verulega, blása út hið opinbera og vonast eftir hagvexti. En slíkan hagvöxt var hvergi að finna við þær aðstæður, enda kolröng leið valin út úr vandanum. Og þegar sýnt þykir að leiðin sem farin hefur verið endar í ógöngum þá er kominn tími til þess að velja aðra.

Eftir allar skattahækkanir ráðherra vinstristjórnarinnar beið eftirmannanna mikið verk við að koma skattheimtunni hér á landi aftur í eðlilegt horf. Þau skref sem hingað til hafa verið stigin hafa verið afar varfærnisleg og brýnt er að brátt verði stigin stærri skref til að losa almenning og fyrirtæki undan lamandi skattaokinu. Í því sambandi hljóta menn að horfa til næstu fjárlaga og annarra væntanlegra frumvarpa ríkisstjórnarinnar, svo sem væntanlegs frumvarps um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu.