Icelandic Group Magnús Bjarnason forstjóri segir að fjárhagsleg afkoma og arðsemi félagsins hafi þróast í rétta átt á liðnu ári en gera þurfi betur.
Icelandic Group Magnús Bjarnason forstjóri segir að fjárhagsleg afkoma og arðsemi félagsins hafi þróast í rétta átt á liðnu ári en gera þurfi betur. — Morgunblaðið/Golli
Icelandic Group skilaði á síðasta ári 2,3 milljóna evra hagnaði eða sem svarar til 370 milljóna króna. Það er töluvert meiri hagnaður en árið á undan, þegar hann nam 338 þúsund evrum eða 50 milljónum króna.

Icelandic Group skilaði á síðasta ári 2,3 milljóna evra hagnaði eða sem svarar til 370 milljóna króna. Það er töluvert meiri hagnaður en árið á undan, þegar hann nam 338 þúsund evrum eða 50 milljónum króna.

Hagnaður Icelandic Group fyrir fjármagnskostnað, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 16,7 milljónum evra eða 2,7 milljörðum króna árið 2013. Það er um 780 milljóna króna bati frá fyrra ári. Alls jókst rekstrarhagnaður fyrir fjármagnskostnað og skatta (EBIT) um 40% á milli ára.

Áherslubreytingar í rekstri

Að sögn Magnúsar Bjarnasonar forstjóra hefur fjárhagsleg afkoma og arðsemi Icelandic Group þróast í rétta átt en gera þarf betur. „Skipulags- og áherslubreytingar á rekstri félagsins undanfarna mánuði höfðu tímabundin neikvæð áhrif á fjárhagslega afkomu síðasta árs en munu skila betri árangri til lengri tíma litið.“

Töluverðar breytingar urðu á rekstri félagsins á síðasta ári, en skrifstofu í Noregi var lokað og þrjú dótturfélög Icelandic í Bretlandi voru sameinuð undir nafni Icelandic Seachill. Einskiptiskostnaður vegna þessara aðgerða nam ríflega 350 milljónum króna. Virðisrýrnun á eignum í Bretlandi vegna breytinga sem koma til framkvæmda á þessu ári leiðir til 290 millljóna króna niðurfærslu eigna. Stefnt er að því að ljúka sameiningu fyrirtækjanna í Bretlandi á árinu 2014, en félagið er nú með 15% markaðshlutdeild í sjávarfangi þar í landi.

Með nafnabreytingu fyrirtækja í Belgíu og Bretlandi starfa nú öll fyrirtæki félagsins undir merkjum Icelandic, sem er ætlað að undirstrika áherslu á samvinnu og samráð fyrirtækjanna víða um heim. Auk þess hefur kynning á vörum undir merkjum The Saucy Fish Co. gengið vel, en vörumerkið var á síðasta ári valið eitt af svölustu vörumerkjum Bretlands af CoolBrands.