Hólmfríður Bára Magnúsdóttir var fædd í Nýlendu við Hvalsnes í Miðneshreppi 12. maí 1929. Hún lést á Landspítalanum 19. mars síðastliðinn.

Foreldrar hennar voru Magnús Bjarni Hákonarson, bóndi í Nýlendu, f. 12.6. 1890, d. 11.10. 1964, og kona hans Guðrún Hansína Steingrímsdóttir, f. 13.2. 1891, d. 15.12. 1987. Systkini Hólmfríðar Báru eru: 1) Steinunn Guðný, f. 1917, d. 1997, eiginmaður hennar var Skúli Kristján Halldórsson, d. 2004, 2) Ólafur Hákon, f. 1919, d. 2010, eiginkona hans var Svala Sigurðardóttir, d. 2007. 3) Björg Magnea, f. 1921, d. 1980, eiginmaður hennar var Ólafur Guðmundsson, d. 1981. 4) Einar Marinó, f. 1924, eiginkona hans er Helga Aðalsteinsdóttir. 5) Gunnar Reynir, f. 1925, d. 2012, eiginkona hans er Sigurlaug Zophaniasdóttir. 6) Tómasína Sólveig, f. 1932, sambýlismaður hennar var Jóakim Snæbjörnsson, d. 2007. Hólmfríður Bára Magnúsdóttir giftist Brynjari Péturssyni 24. maí 1952. Fyrir hjónaband eignaðist Hólmfríður Bára dóttur, Guðrúnu Magneu Hafsteinsdóttur, f. 1948, gift Jóhannesi Kr. Jónssyni. Fyrir átti Brynjarr son, Unnar f. 1950, d. 1981. Börn Hólmfríðar Báru og Brynjars eru: 1) Borghildur, f. 1952, gift Karli Lúðvíkssyni. 2) Pétur, f. 1958, giftur Björk Garðarsdóttur. 3) Ingibjörg, f. 1964, gift Halli Þorsteinssyni. 4) Magnús, f. 1967, giftur Ólöfu Björgu Kristjánsdóttur. Hólmfríður Bára og Brynjarr hófu búskap í Nýlendu. Síðar byggðu þau fjölskyldu sinni hús að Hlíðargötu 20 í Sandgerði. Þangað fluttu þau árið 1963 og hafa síðan búið þar alla tíð. Barnabörnin eru 14 talsins, barnabarnabörn 22 og þau eiga eitt barnabarnabarnabarn. Auk húsmóðurstarfa vann hún við fiskvinnslu í Garði og Sandgerði, hjá Pósti og síma og í félagslegri heimilisþjónustu hjá Sandgerðisbæ, þar til hún lauk störfum fyrir aldurs sakir.

Útför Hólmfríðar Báru fer fram frá Safnaðarheimilinu í Sandgerði í dag, 26. mars 2014, kl. 13.

Þá er lokið rúmlega þriggja áratuga samferð minnar og tengdamóður minnar Hólmfríðar Báru Magnúsdóttur, eða Báru eins og hún var jafnan kölluð, en hún lést miðvikudaginn 19. mars s.l.

Sú samferð hófst fljótlega eftir að ég kynntist yngstu dóttur hennar, Ingibjörgu, og eiginmanninum, Brynjari Pétursyni. Voru fyrstu kynnin við eldhúsborðið á Hlíðargötu 20 í Sandgerði, hvar annarsstaðar, þegar Ingibjörg bauð mér í hádegismat til mömmu þegar við vorum að vinna í Miðnesi hf. um haustið 1982. Bára var eins margar konur af hennar kynslóð, einstaklega gestrisin. Ófá eru þau skiptin sem ég og Ingibjörg ásamt dætrum og síðar dótturdætrum, höfum heimsótt þau hjónin á Hlíðargötunni og þá venjulegast í sunnudagssteik og var þá undantekningarlaust viðgjörningur allur hinn besti. Bára vann öll sín verk í hljóði og án kvaða, naut þess að vera í samvistum með fjölskyldunni sem henni var ákaflega annt um og bar velferð allra fyrir brjósti. Við Bára náðum ákaflega vel saman enda bæði komin af alþýðufólki og höfðum því álíka lífsskoðanir.

Margs er að minnast frá allnokkrum ferðalögum sem við fórum saman innanlands sem og út fyrir landsteinanna. Sú síðasta sem við fórum saman á erlenda grundu var farin árið 2006, sérlega róleg og ljúf ferð. Minningarnar munu lifa og verða okkur sem eftir lifum til gleði og uppörvunar nú á þessum erfiðu tímum.

Ég votta öllum ættingjum og afkomendum mína dýpstu samúð.

Hallur Þorsteinsson.

Kveðjustundin er runnin upp. Í dag munum við systkinin fylgja ömmu Báru til hinstu hvílu. Minningarnar hrannast upp því við vorum lánsöm og vörðum mörgum góðum stundum með ömmu. Ferðirnar með ömmu og afa í Húsafell eru okkur minnisstæðar. Amma naut þess að fara í sundlaugina og fór einnig með okkur í gönguferðir í skóginum. Kvöldgöngurnar voru líka í miklu uppáhaldi því þær enduðu oft í sjoppunni.

Ferðirnar með ömmu og afa til Akureyrar og Egilsstaða eru einnig hlaðnar minningum enda ömmu alltaf efst í huga að fara um sveitir og leyfa okkur að njóta og sjá sem mest. Eftir að fjölskyldan eignaðist frístundahús á Flórída var farið í eftirminnileg frí með ömmu og afa í sólina. Amma Bára naut sín vel úti við sundlaug í 25-30 stiga hita og ófáar voru ferðirnar sem við pabbi keyrðum ömmu í verslunarmiðstöðvar sem hún hafði gaman af.

Það var alltaf gott að heimsækja ömmu Báru og afa Brynjar á Hlíðargötuna í Sandgerði, fá kaffi og kökur og matarboðin hjá ömmu einkenndust af miklum veitingum þar sem auðvelt var að borða yfir sig. Árvissa jóladagsboðið hennar ömmu var engu líkt, þá mættu allir afkomendur hennar og fengu heitt súkkulaði sem amma töfraði fram. Borðin svignuðu undan kræsingum og síðasti jóladagur var þar engin undantekning. Ég er stoltur af því að hafa, allt frá því ég lærði að skrifa, fengið að skipuleggja þetta boð með ömmu.

Það voru forréttindi að eiga hana ömmu Báru að sem alltaf hafði tíma fyrir okkur og vildi hag okkar sem mestan.

Elsku afi Brynjarr, missir þinn er mikill en við munum halda áfram að heimsækja þig og heiðra minningu ömmu.

Eiður Már og Hólmfríður Bára.