Bertha Elise Kristiansen fæddist í Grimstad í Noregi hinn 5. desember árið 1979. Hún varð bráðkvödd á heimili sínu 19. febrúar 2014.

Bertha var dóttir hjónanna Asbjorn og Liv Ashild Kristiansen, sem bæði eru á lífi og eru búsett í Grimstad í Noregi. Bertha var elst þriggja systra en systur Berthu eru þær Asta Lena og Ashild Kristiansen.

Bertha var ógift og barnlaus.

Bertha lauk stúdentsprófi frá Dahlske videregoende skole í Grimstad árið 1998. Bertha kom fyrst til Íslands haustið 1999 og vann þá við tamningar á Sveinsstöðum og á Þingeyrum í Húnavatnssýslu. Haustið 2000 hóf hún tveggja ára nám við Hólaskóla. Veturinn 2002 var hún við verknám í Bræðratungu í Biskupstungum en hún útskrifaðist síðar frá Hólaskóla vorið 2002. Eftir námið í Hólaskóla vann Bertha víða við tamningar og þjálfun hesta á Íslandi, meðal annars í Flekkudal í Kjós og á Meðalfelli í Kjós en einnig á höfuðborgarsvæðinu. Síðustu ár sín á Íslandi vann Bertha við verslunarstörf, lengst af hjá Europris á Íslandi. Dvöl Berthu á Íslandi varð lengri en hún ætlaði sér er hún hóf námið í Hólaskóla. Hún fyrirhugaði að dvelja hér við nám og störf í tvö ár en árin urðu tíu. Hún tók ástfóstri við land og þjóð. Bertha flutti heim til Noregs haustið 2009 og starfaði frá þeim tíma sem verslunarstjóri í Europris í Lillesand.

Útför Berthu fór fram í Noregi hinn 7. mars sl.

Mér tregt er um orð til að þakka þér,

hvað þú hefur alla tíð verið mér.

Í munann fram myndir streyma.

Hver einasta minning er björt og blíð,

og bros þitt mun fylgja mér alla tíð,

unz hittumst við aftur heima

Þú gengin ert hugglöð á frelsarans fund

og fagnar með útvaldra skara,

þar gleðin er eilíf, þar grær sérhver und.

Hve gott og sælt við hinn hinsta blund

í útbreiddan faðm Guðs að fara.

Nú kveðja þig vinir með klökkva og þrá

því komin er skilnaðarstundin.

Hve indælt það verður þig aftur að sjá

í alsælu og fögnuði himnum á,

er sofnum vér síðasta blundinn.

(Hugrún)

Liv, Åsbjørn, Åsta og Åshild

vottum við okkar dýpstu samúð.

Þín vinkona,

Elín S. Hallgrímsdóttir.

Bertha dvaldi og starfaði í Flekkudal í Kjós. Þar skilur hún eftir sín spor og minningu – minningu um stúlku, fallega og góðhjartaða konu, sem öllum vildi vel.

Bertha kom fyrst í Flekkudal haustið 2003. Hún byrjaði á því að fást við hrossin í Flekkudal og starfaði þar við tamningar og þjálfun á hrossum í nokkra mánuði. Við fyrstu kynni mynduðust strax sterk tengsl milli ábúenda í Flekkudal og Berthu. Bertha gerði ekki kröfur til annarra en hún gaf af sér vinsemd og hjálpfýsi. Við fráfall Berthu verður til tómleiki og hugsun um – hver sé tilgangurinn – og kannske spurningin um hvort við hittumst aftur.

Bertha átti í raun nokkur heimili og nokkrar fjölskyldur á Íslandi. Þar sem hún dvaldist stofnuðust náin tengsl – kannske ekki fjölskyldutengsl – en mjög náin tengsl.

Í Flekkudal mynduðust mjög náin tengsl. Við, ábúendur í Flekkudal, litum svo á að Bertha væri þar með heimili og ætti þar fjölskyldu.

Eitt sinn sem oftar var verið að smala. Bertha bjó við sykursýkissjúkdóm, sem hún upplýsti vini sína og fjölskyldu kannske ekki nægilega nákvæmt um. Bertha smalaði með Cesar hundinum sínum í Flekkudal. Í hæstu hæðum Esjunnar fær hún sykurfall. Sú stund var erfið. Ég, Guðný í Flekkudal, vissi ekki hvernig taka átti á málum, síminn var batteríslaus, enginn sykur eða önnur meðöl með. Bertha virtist vera í sykursjokki. Cesar, hundurinn hennar Berthu, var við hennar hlið og vék hvergi. Bertha tíndi upp í sig ber og þannig fékk hún sykur, sem hjálpaði henni að komast til byggða.

Móðir mín féll frá veturinn 2006. Hún hafði alið upp dótturson sinn, góðan dreng. Drengurinn átti í fyrstu erfitt með að fóta sig í lífinu. Frændi minn Haraldur fékk að njóta góðmennsku Berthu.

Bertha skynjaði að Haraldur frændi minn sá ekki til sólar með sama hætti og aðrir jafnaldrar hans. Bertha bauðst til að flytja inn til hans, sem hún svo gerði í nokkra mánuði. Hún kenndi honum að hugsa um sig sjálfur, þvo upp – kenndi honum að þvo þvottinn sinn – þrífa í kringum sig. Þetta var ekki auðvelt verkefni.

Frændi minn Haraldur naut samvista og leiðbeininga frá Berthu. Hann býr núna einn og sér um sig sjálfur. Fyrir vináttu og leiðsögn Berthu lauk Haraldur stúdentsprófi og hann stundar nú nám í Háskóla Íslands. Bertha sýndi Haraldi frænda mínum nærgætni, vináttu, ást og skilning. Haddi fór að heimsækja Berthu til Noregs í desember 2009. Hann var í nánum tengslum við Berthu rétt eins og við hin, vinir hennar.

Hér í Flekkudal er hundurinn hennar Berthu, Cesar frá Flekkudal, og hér í Flekkudal er merin hennar Berthu, Gola frá Kýrholti. Við elskuðum Berthu og fjölskyldu hennar og viljum að minning um Berthu fái að lifa í hjörtum okkar sem og í hjörtum fjölskyldu hennar í Noregi.

Kær kveðja úr Flekkudalnum.

Guðný Guðrún Ívarsdóttir.

Elsku Berthan mín, ég trúi því enn ekki að þú sért farin frá okkur svona allt of snemma, ég get ekki trúað því. Ég sit hér með tárin í augunum og veit ekki hvar ég á að byrja. Fullt af fallegum minningum mun ég þó geyma sem lifa með og er ég svo þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér.

Ég minnist brossins og hlátursins þíns sem smitaði alla, hress og skemmtileg og alltaf tilbúin að gera eitthvað. Ég minnist þess hversu sjálfstæð, sterk og rosalega góðhjörtuð þú varst, þú varst alltaf tilbúin ef einhver þurfti á hjálp þinni að halda. Við áttum góðar stundir hvar sem við vorum, hvort sem það var á hestbaki, í vinnunni, heima í kósí eða að versla. Ég mun ávallt minnast þín og þú munt alltaf fylgja mér þangað til við hittumst aftur. Nú kveð ég þig, fallegi engillinn minn, hvíldu í friði, þú munt aldrei gleymast.

Nú þögn er yfir þinni önd

og þrotinn lífsins kraftur

í samvistum á sæluströnd

við sjáumst bráðum aftur.

(Ingvar N. Pálsson)

Þín vinkona,

Íris Sigurjónsdóttir.