Guðmundur Ólafur Garðarsson fæddist 17. mars 1959. Hann lést 12. mars sl. Útför Guðmundar fór fram 23. mars 2014.

Kæri vinur. Það var í kringum 1980 að leiðir okkar lágu saman þegar ég kom inn í fjölskylduna þína, en í janúar 1983 stofnaði fjölskyldan saman Garðar Guðmundsson ehf. Nú var komin önnur kynslóð sem tók við keflinu og ungir sem aldnir höfðu sitt hlutverk. Þar gekkst þú fram sem sannur fyrirliði með þinni ósérhlífni og dugnaði sem allir báru virðingu fyrir. Þar varst þú sérstakur leiðtogi þeirra yngri þegar við sem hópur í sameiningu tókum að okkur og kenndum réttu handtökin inn í skóla lífsins. Það má segja að þú hafir í þínu hlutverki alltaf verið í fyrirliðatreyjunni sem var nr. 2 þegar þú varst í fótboltanum hjá Leiftri. Eiginleiki góðra leiðtoga er að safna til sín góðu fólki og saman stigum við ölduna í 24 ár. Okkar vinna var mjög náin, þú varst stýrimaður og síðan skipstjóri með mér. Ekki man ég eftir nokkru sem við gátum ekki leyst í sameiningu; þótt mikið gangi stundum á til sjós gátum við báðir skilið sáttir. Eitt lærði ég þó fljótt að það þýddi ekkert að segja þér að hlutirnir væru um það bil svona, það fannst þér nú ekki merkilegar upplýsingar, allt þurfti að vera 100% og ekkert minna. Enginn kemst í gegnum langa sjóferð án mótlætis, því fékk Guðmundur og fjölskyldan að kynnast, sérstaklega þegar móðir hans, sem var ankerið í fjölskyldunni, féll frá 57 ára gömul. Okkar markmið eru að gefast ekki upp þótt á móti blási og öldur lífsins oft óþarflegar háar. Góðviðrisdagarnir voru þó miklu fleiri sem við áttum saman til sjós og lands. Til sjós man ég sérstaklega eftir björtum sumarnóttum á loðnuveiðum, þá sérstaklega þegar við vorum fljótari að fylla en hin skipin. Það líkaði Guðmundi nú vel enda mikill keppnismaður, það var alltaf verið að keppa og reyna að setja met í öllu mögulegu. En lífið er ekki tóm veraldleg vinna, við vorum búnir að fara saman í margar góðar ferðir, bæði með áhöfninni okkar og ekki síst afmælisferðir systkina þinna, en þær ferðir verða dýrmætar í minningunni. Við erum lánsöm með samheldnina í okkar hóp. Guðmundur var sannur og trúr sinni heimabyggð og óskaði Ólafsfirði alls þess besta, þar lagðist hann þungt á árar bænum sínum til heilla. Nú hefur fyrirliðinn Guðmundur Ólafur Garðarsson verið kallaður frá okkur til annarra verka og eftir sitjum við með ótal spurningar en lítið um svör. En eftir sitja þó allar fallegu minningarnar. Hann tekur ekki á móti fleiri lömbum á þessari jörð en hobbýbóndinn var honum mikils virði og allur sá góði hópur sem þar starfar. Kæri vinur, af mörgu er að taka og margs að minnast, efst í mínum huga er fyrst og fremst þakklæti fyrir að hafa hitt og starfað með eins heilum manni og þér. Það liggur fyrir okkur öllum þessi hinsta ferð og vonandi verð ég svo heppinn að hitta fyrirliðann aftur og við reynum að setja saman einhver met. Góðu verki er lokið á þessari jörð.

Guð blessi minningu þína.

Maron Björnsson.

Er það satt og rétt? Er það drengilegt?

Ég spyr mig þessara spurninga þegar kærum félaga, Guðmundi Garðarssyni, er kippt út fyrirvaralaust. Maður á besta aldri með fulla starfsorku og fullur eldmóðs að byggja upp hér í litla bæjarfélaginu okkar. Getur sá sem öllu ræður útskýrt það? Eitt get ég sagt, að þessi útafskipting var röng og hörmuleg.

Við Gummi höfum átt samleið á mörgum sviðum, í skátunum, á skíðunum, í fótboltanum, í veðdeild Blíðfara og í Rótarýklúbbi Ólafsfjarðar. Á öllum þessum sviðum var Gummi einstakur, enda mikill félagsmálamaður, duglegur, traustur, samviskusamur og heiðarlegur félagi. Gummi var góður íþróttamaður og mikill keppnismaður, hann spilaði með Leiftri þegar velgengni þess var að hefjast og hann var einnig fyrirliði Leifturs í mörg ár. Ég gleymi því ekki og finnst í raun segja margt um karakter Gumma, þegar Leiftur komst í fyrsta skipti í sögunni upp í úrvalsdeildina árið 1987. Þá fór þjálfarinn að spá í liðið sem hann sá fyrir sér og Gummi var spurningarmerki í þeim pælingum. Gummi vissi af þessum pælingum þjálfarans og sagði við mig: „Steini, ég skal sýna mig og sanna, æfi meira og ég skal verða í Leiftursliðinu þegar við spilum í úrvalsdeildinni.“ Auðvitað stóð hann við það, varnarjaxlinn, spilaði nánast alla leikina á árinu 1988 í treyju nr 2.

Gummi var mikill Rótarýmaður. Hann varð forseti klúbbsins í fyrra og leysti það með stakri prýði eins og allt sem hann tók sér fyrir hendur. Hans varður sárt saknað á þeim vettvangi eins og svo mörgum.

Elsku hjartans Þura, Garðar, Gunna, Halldór og stórfjölskylda, ykkar missir er mikill og mikill harmur að missa elskulegan eiginmann, föður og vin sem reyndist öllum vel. Megi góður Guð veita ykkur styrk á þessum erfiðu tímum. Við skulum muna allar góðu stundirnar sem Gummi veitti okkur.

Kæri félagi, þú varst gegnheill bæði að utan sem innan, við hefðum viljað njóta krafta þinna lengur.

Kveð með kjörorðum okkar Rótarýfélaga: Er það satt? Er það drengilegt? Eykur það velvild og vinarhug? Er það öllum til góðs?

Þorsteinn Þorvaldsson.

Vinátta er eitt af því fallegasta sem þú getur eignast

og eitt af því besta sem þú getur notið.

Vinur er lifandi fjársjóður og ef þú átt einn slíkan

þá átt þú eina verðmætustu gjöf lífsins.

Elsku Gummi, þú varst okkur dýrmætur vinur og frábær félagi í öllu sem við tókum okkur fyrir hendur. Við minnumst allra góðu stundanna sem við áttum saman, t.d. í fjárhúsinu, og mikið þurftum við að spjalla hér fyrir utan hjá okkur þegar þú varst að keyra mig heim eftir góða ferð á kleifarnar. Einnig fórum við í skemmtilega kindaleiðangra austur í Öxarfjörð og inn í fljót að ógleymdum öllum göngum, réttum, þorrablótum og sauðburði þar sem ýmislegt gekk á og þú varst ávallt aðalmaðurinn. Fyrir tveimur árum stofnuðum við ásamt Árna fyrirtækið Knoll og áttum við margar góðar stundir saman í þeirri vinnu. Þín verður sárt saknað í þeim verkefnum sem bíða okkar því þú hefur alltaf verið ósérhlífinn, ábyrgur og skynsamur í allri okkar samvinnu. Við minnumst þín með hlýhug og söknuði, kæri vinur.

Elsku Þura, Garðar, Gunna, Halldór og aðrir aðstandendur, megi kærleikur almættisins umvefja ykkur og vernda á þessum erfiða tíma.

Ykkar einlægir vinir,

Óli og Snjólaug.

Þann 23. mars sl. var borinn til grafar öðlingurinn Guðmundur Ólafur Garðarsson. Ég var ekki hár í loftinu, einungis 7 ára gamall, þegar Þura systir kom heim með þennan tannstóra mann og kynnti hann fyrir fjölskyldunni. Síðan eru liðin mörg ár og Gummi varð mér hinn besti vinur og bróðir. Ein fyrsta minning mín um Gumma er þegar ég lá úti í skafli, hafði brotið fótinn við mína fyrstu skíðaiðkun. Þá tókst þú mig í fangið, hélst á mér inn í hús og hlúðir að mér. Það er einmitt lýsandi fyrir þann mann sem þú hafðir að geyma, alltaf fyrstur til að aðstoða og settir þarfir annarra í forgang. Þegar þið hjónin hófuð búskap í Bræðraborg þá dvaldi ég mikið hjá ykkur, passa þurfti dimmraddaða frumburðinn ykkar, og þá var gott að fá popp hjá meistaranum því ekki voru mínar tilraunir til poppgerðar alveg hættulausar. Árin liðu og með hverju árinu urðum við meiri og betri vinir. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að æfa með þér fótbolta með meistaraflokki Leifturs þín síðustu tímabil og öðrum eins keppnismanni hef ég ekki kynnst. Þú barst virðingu fyrir öllum í kringum þig og allt sem þú tókst þér fyrir hendur var gert óaðfinnanlega.

Í gegnum tíðina hefur þú reynst mér og okkur fjölskyldunni allri alveg einstaklega vel. Þið Þura voruð okkur ómetanlegur stuðningur á erfiðum tímum hjá okkur og börnin okkar hafa verið svo heppin að hafa þig í kringum sig allt sitt líf. Þú varst einstaklega barngóður enda hændust börnin að þér og alltaf gafst þú þeim tíma. Þau gráta nú horfinn vin. Alltaf gátum við leitað til þín eftir ráðleggingum og aðstoð. Við höfum brallað mikið saman og nú yljum við okkur við ljúfar minningar sem eru okkur dýrmætar.

Elsku Gummi, við þökkum þér fyrir allar góðu stundirnar, sumarbústaðaferðirnar, útilegurnar, utanlandsferðirnar, kaffiboðin og kvöldstundirnar. Þú varst einstakur maður og skarðið sem þú skilur eftir þig verður aldrei fyllt.

Elsku Þura okkar, Garðar, Gunna Beta, Dóri og fjölskyldur. Guð gefi ykkur styrk til að takast á við sorgina. Minningin um góðan dreng lifir í hjörtum okkar allra.

Sturla, Guðrún og börn.

Það var harmþrungin stund er ég gekk inn á heimili vina minna Gunnu og Sigmundar til að fá fregnir af Gumma , sem hafði veikst skyndilega eftir mjaðmaaðgerð og fékk að vita að vinur minn Gummi hefði verið rétt í þessu að deyja.

Engin orð fá lýst þeim harmi er móðursystir mín Guðrún tók um háls mér og sagði mér tíðindin. Við höfðum verið að æfa hjá Leikfélagi Fjallabyggðar leikrit eftir Guðmund bróður og hafði Gummi unnið baki brotnu við leikmyndina og þótti mér nóg um þar sem ég vissi að hann var að fara í liðskipti á mjöðm í annað sinn og er ég sagði Gummi þú átt ekki að vera að gera þetta skríðandi um senuna, en svarið var eins og ég vissi að það mundi verða, “þetta er allt í lagi“ Hann vildi gera sem mest áður en hann færi suður í aðgerðina og á síðustu æfingu kvaddi hann með bros á vor viss um að í framtíðinni væru bjartir tímar.

Guðmundur var gull af manni og allir sem hann þekktu bera vitni um góðan dreng. Vinátta okkar Guðmundar hefur staðið svo lengi sem ég man ég byrjaði að kenna honum í fyrsta bekk grunnskóla og síðar áttum við eftir að eiga ótrúlegan tíma er við urðum skíðafélagar. Í skóla var hann nemandi ,sem við kennarar gátum alltaf treyst á sama hvað var verið að gera.

Árin sem við áttum saman á skíðunum þar sem hann var í því ótrúlega liði sem varð til á Ólafsfirði eftir 1970 en Ólafsfirðingar áttu á árunum 1976 til ´98 nær alla Íslandsmeistara í skíðagöngu og skíðastökki með fáeinum undantekningum. Guðmundur var einn af hetjunum, sem komu heim af hverju Landsmótinu á fætur öðru hlaðnar verðlaunum. Hann varð þrefaldur Íslandsmeistari í göngu í flokki 17- 19 ára 1977 og síðan líka næsta ár í 10 km göngu og var í sigurliði Ólafsfjarðar í boðgöngu karla 1978.

En önnur íþrótt átti eftir að heilla hann. Knattspyrnan var hans líf og yndi enda var hann frábær knattspyrnumaður og var burðarás í liði Leifturs. Svo gerðist hann hobbybóndi og eins og allt annað var það gert með gleði og ábyrgð og þar var hann sem á heimavelli og þau hjónin brostu út í eitt er talað var um fé svo maður tali ekki um sauðburð þar voru þau í essinu sínu.

Hann rak ásamt fjölskyldu sinni útgerðarfyrirtæki, sem var ákaflega happasælt og var hann þar skipstjóri ásamt mági sínum Maroni á loðnuskipinu Guðmundi Ólafi.

Þegar Guðmundur og Þuríður frænka tengdust ástarböndum urðu tengsl okkar enn nánari. Þessi stóra fjölskylda þeirra Sigmundar og Gunnu finnst mér einsdæmi, en samheldni fjölskyldunnar er hreint ótrúleg og veit ég að það á eftir að hjálpa mikið í þeirri sorg sem eftir verður.

Guðmundar Garðarssonar verður sárt saknað úr þessu litla bæjarfélagi þar sem við erum svo tengd hvort öðru, að hver sem hverfur skilur eftir skarð og það verður vissulega stórt skarð sem þessi góði drengur skilur eftir. Elsku Þura börn, barnabörn, Garðar pabbi og systkini, allir ættingjar og Sigmundur og Gunna, við sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur.

Björn Þór og Margrét.