Heildarfjárhæð skulda á bak við hverja greiðsluaðlögunarumsókn hefur lækkað úr um 33,5 milljónum króna að meðaltali árið 2010 niður í um 15 milljónir kr. það sem af er árinu.

Heildarfjárhæð skulda á bak við hverja greiðsluaðlögunarumsókn hefur lækkað úr um 33,5 milljónum króna að meðaltali árið 2010 niður í um 15 milljónir kr. það sem af er árinu. Það helgast af því að fleiri á leigumarkaði sækja um aðlögun en færri fasteignaeigendur. Þetta segir Svanborg Sigmarsdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Umboðsmanni skuldara. Hún segir að meðalgreiðslugeta einstaklinga, eftir að búið er að gera ráð fyrir framfærsluskostnaði, hafi lækkað úr 81 þúsund krónum árið 2010 niður í um 17.500 þúsund krónur árið 2013.

Þeim sem leita til embættisins í hverjum mánuði hefur fækkað jafnt og þétt. Þannig sóttu 366 um greiðsluaðlögun, ráðgjöf eða leituðu til umboðsmanns vegna annarra erinda, árið 2010, en 168 hafa gert það að meðaltali fyrstu tvo mánuði ársins. Þar af hafa 73 sótt um greiðsluaðlögun. „Þeim málum hefur fjölgað sem hægt hefur verið að leysa með ráðgjöf en á móti hefur greiðsluaðlögunarmálum fækkað,“ segir Svanborg. Fimmtíu og einn greiðsluaðlögunarsamningur var gerður í síðasta mánuði. Alls hafa verið gerðir 2.190 samningar en 698 manns verið synjað um þá frá því úrræðið var kynnt til sögunnar árið 2010. Enn eru 149 greiðsluaðlögunarmál til vinnslu hjá embættinu og 649 mál til vinnslu hjá umsjónarmanni.

vidar@mbl.is