Vonbrigði Slóvenar fagna marki en vonbrigði Íslendinganna leyna sér ekki.
Vonbrigði Slóvenar fagna marki en vonbrigði Íslendinganna leyna sér ekki. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Laugardal Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is Það er þétt leikið á heimsmeistaramótinu í íshokkíi kvenna, en keppni í 2. deild fer fram í Laugardalnum nú í vikunni.

Í Laugardal

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

Það er þétt leikið á heimsmeistaramótinu í íshokkíi kvenna, en keppni í 2. deild fer fram í Laugardalnum nú í vikunni. Eftir góðan sigur á Tyrkjum á mánudag þurftu íslensku stelpurnar að sætta sig við þriggja marka tap fyrir Slóveníu í gærkvöld, 5:2, en fyrir mótið var slóvenska liðið talið það sterkasta. Það þýðir hins vegar ekkert annað en að taka jákvæða punkta úr leiknum þrátt fyrir ósigur, en þeir eru fjölmargir.

Íslenska liðið fékk raunar draumabyrjun því Linda Sveinsdóttir kom því yfir strax á þriðju mínútu. Mark í andlitið einungis tveimur mínútum síðar slökkti þó í gleðinni en kveikti hins vegar í baráttunni og það var aðalsmerki liðsins í leiknum. Þrátt fyrir að fá á sig fimm mörk það sem eftir var gafst liðið aldrei upp og Guðrún Marín Viðarsdóttir minnkaði muninn í blálokin. Mark sem ætti sannarlega að gera mikið fyrir andlega þáttinn sem er ekki síður mikilvægur í þessu öllu saman.

Eins og áður sagði var slóvenska liðið talið það sterkasta í deildinni og það kom greinilega í ljós ef miðað er við það tyrkneska frá því á mánudag. Það var hins vegar engan bilbug að finna á íslensku stelpunum fyrir leikinn né heldur í leiknum sjálfum. Það verður ekki af þeim tekið að þrátt fyrir að stíft hafi verið legið á þeim í vörninni héldu þær alltaf áfram og hentu sér fyrir öll skot í 60 mínútur. Karitas Halldórsdóttir var þar að auki frábær í markinu og bjargaði oft ótrúlega.

Engin með hendur í skauti

Stelpurnar fá kærkominn hvíldardag í dag og hafa því góðan tíma til undirbúnings, en næsti leikur er strax á morgun gegn Króatíu. Íslenska liðið hefur alla burði til þess að standa sig vel þar en Króatar hafa ógnarsterkt lið og unnu meðal annars Slóveníu í fyrsta leik. Þar á eftir er mótherjinn Spánn sem er ekki síðri andstæðingur. Það þarf því allt að ganga upp og stelpurnar þyrftu einna helst að bæta skotin, því færin eru til staðar. Það gengur heldur ekki nægilega vel að nýta þau „power play“ sem hafa fengist á meðan það hefur verið sterkt vopn hjá andstæðingunum. Vörnin er hins vegar að smella þokkalega og Karitas er mögnuð þar fyrir aftan.

Krafturinn innan íslenska liðsins er gríðarlegur og þær gera þetta allar með bros á vör. Þegar blaðamaður beið þeirra eftir leik var engin með skeifu eða hendur í skauti. Þær hefðu eflaust getað haldið áfram fram á nótt ef því hefði verið að skipta. Þær svíkja því engan með leikgleðinni.