Stjarnan Allison Pineau er í hópi þeirra bestu í heiminum.
Stjarnan Allison Pineau er í hópi þeirra bestu í heiminum.
Kvennalandslið Frakka í handknattleik hefur lengi verið eitt það allra besta í heiminum. Það hlaut silfurverðlaun á heimsmeistaramótinu 2009 og aftur 2011 en féll hinsvegar nokkuð óvænt úr keppni í átta liða úrslitum á HM í Serbíu í desember sl.

Kvennalandslið Frakka í handknattleik hefur lengi verið eitt það allra besta í heiminum. Það hlaut silfurverðlaun á heimsmeistaramótinu 2009 og aftur 2011 en féll hinsvegar nokkuð óvænt úr keppni í átta liða úrslitum á HM í Serbíu í desember sl. fyrir Póllandi. Fram að þeim leik hafði franska landsliðið leikið sex leiki í mótinu og unnið alla.

Eins og hjá karlaliði Frakka þá er valinn leikmaður í hverju rúmi hjá kvennaliðinu. Allison Pineau hefur þó verið sú stjarna sem lengst hefur skinið í franska liðinu en hún var m.a. valin besta handknattleikskona heims fyrir fimm árum síðan.

Þjálfari franska landsliðsins er Alain Portes sem lengi lék með franska landsliðinu og var m.a. í bronsliðinu á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992 þegar Frakkar lögðu Íslendinga í leiknum um þriðja sætið. Portes tók við þjálfun landsliðsins á síðasta ári af Olivier Krumbholz sem hafði þjálfað landsliðið í tæp 18 ár.

Svipar til karlaliðs Frakka

Leikmenn franska landsliðsins eru hávaxnir. Þeir eru með góðar skyttur, sterka línumenn og fljóta hornamenn og svipar um margt til leikstíls karlalandsliðsins franska. Varnarleikurinn er að grunni til 6/0 vörn en þó ekki þannig að leikmenn bíði eftir andstæðingnum aftur á sex metrum heldur er gott skipulag og talsverð harka.

Franska landsliðið lék síðast við það íslenska hér á landi í undankeppni EM í maí 2010. Þá unnu Frakkar með þriggja marka mun, 27:24, í hörkuleik. Fjórir leikmenn íslenska landsliðsins nú tóku þátt í þeim leik, Íris Björk Símonardóttir, markvörður, Karen Knútsdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir og Sunna Jónsdóttir. iben@mbl.is