Haukur Óli Þorbjörnsson fæddist 1. janúar 1931. Hann lést 2. mars 2014. Útför Hauks fór fram í kyrrþey, að hans ósk, 12. mars 2014.

Elsku hjartans pabbi og afi.

Mér tregt er um orð til að þakka þér,

hvað þú hefur alla tíð verið mér.

Í munann fram myndir streyma.

Hver einasta minning er björt og blíð,

og bros þitt mun fylgja mér alla tíð,

unz hittumst við aftur heima.

Ó, elsku pabbi, ég enn þá er

aðeins barn, sem vill fylgja þér.

Þú heldur í höndina mína.

Til starfanna gekkstu með glaðri lund,

þú gleymdir ei skyldunum eina stund,

að annast um ástvini þína.

Þú farinn ert þangað á undan inn.

Á eftir komum við, pabbi minn.

Það huggar á harmastundum.

Þótt hjörtun titri af trega og þrá,

við trúum, að þig við hittum þá

í alsælu á grónum grundum.

Þú þreyttur varst orðinn og þrekið

smátt,

um þrautir og baráttu ræddir fátt

og kveiðst ekki komandi degi.

(Hugrún.)

Takk fyrir að hafa alltaf verið til staðar fyrir okkur, yndislegu stundirnar sem við höfum átt með þér og öll ferðalögin með ykkur mömmu og ömmu. Ég veit að Herdís systir, ljósið þitt, hefur tekið á móti þér og umvafið þig. Við munum passa mömmu fyrir þig. Hvíl í friði, elsku pabbi og afi minn, hver minning um þig er dýrmæt perla.

Þorbjörg og Rúnar Ingi.

Sunnudagskvöldið 2. mars kvaddir þú okkur, elsku Haukur. Þau voru þung sporin sem við nafni þinn stigum til þess að koma og kveðja þig í síðasta sinn. Það eru svo ótalmargar minningar sem koma upp í hugann, minningar sem við eigum eftir að rifja upp saman, allt fólkið þitt. Við Haukur og krakkarnir höldum áfram að koma í Skarðshlíðina í kaffi. Það verður erfitt að koma þangað og hitta þig ekki þar. Það veit ég að hún Emelía okkar, litla ljósið þitt eins og þú kallaðir hana, á eftir að sakna þess að fá ekki að knúsa þig eins og hún gerði alltaf og Birkir og Hlynur að spjalla við þig um skólann og áhugamálin sín. Þegar ég kom og spjallaði við þig þegar þú varst á spítalanum kallaðir þú á eftir mér þegar ég var að fara: „Ekki gleyma laugardögunum.“ Ég get lofað þér því, gamli minn, að það gerum við örugglega ekki.

Elsku Sigrún, Siggi, Rúnar, Didda, Raggi og Valli, megi guð gefa ykkur styrk á þessum erfiða tíma. Hún Herdís ykkar hefur svo sannarlega tekið vel á móti honum.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Hvíldu í friði kæri vinur.

Elísabet Árný (Beta).