Ríflega fimm þúsund Íslendingar höfðu í gær sótt rafmyntina auroracoin sem byrjað var að gefa á miðnætti í fyrrinótt.

Ríflega fimm þúsund Íslendingar höfðu í gær sótt rafmyntina auroracoin sem byrjað var að gefa á miðnætti í fyrrinótt. Hver og einn landsmaður getur sótt um 31,8 einingar af myntinni á heimasíðu hennar, en nauðsynlegt er að auðkenna sig með annaðhvort símanúmeri eða Facebook-aðgangi. Miðað við markaðsvirði myntarinnar í gær var virði eininganna sem úthlutað er hverjum og einum um 40 þúsund íslenskar krónur. Ekki er vitað hver stendur á bak við verkefnið, en Baldur Friggjar Óðinsson er skráður fyrir fréttatilkynningum um myntina. Enginn með því nafni er skráður í þjóðskrá, en þarna er sjálfsagt verið að vitna til norrænu ásatrúarinnar. Þá er heimasíða myntarinnar skráð í Panama, en erfitt getur verið að rekja hver raunverulegur eigandi er á síðum sem eru skráðar þar.

Seðlabankinn, FME og aðrar opinberar stofnanir hafa varað við miðlinum og kölluðu hann sýndarfé í tilkynningu sem send var út um daginn. Sagði þar m.a. að verðgildi myntarinnar væri ótryggt frá einum tíma til annars og að notkuninni fylgdi mikil áhætta. Myntin hefur vakið mikla athygli erlendra miðla og hefur m.a. verið fjallað um hana á vef Forbes og Guardian.