— Ljósmynd/Baldur Smári Einarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Lestin á línubátnum Hálfdáni Einarssyni ÍS var kjaftfull af vel ísuðum steinbít þegar komið var til Bolungarvíkur í fyrrakvöld. Alls tæplega 21 tonn og aflinn var nánast eingöngu steinbítur, aðeins um 50 kíló af þorski.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Lestin á línubátnum Hálfdáni Einarssyni ÍS var kjaftfull af vel ísuðum steinbít þegar komið var til Bolungarvíkur í fyrrakvöld. Alls tæplega 21 tonn og aflinn var nánast eingöngu steinbítur, aðeins um 50 kíló af þorski. Steinbíturinn fékkst norður af Hornbjargi og kom nokkuð á óvart því loðna hefur undanfarið mettað fiskinn í og utan við Ísafjarðardjúp svo hann hefur ekki tekið á línuna.

„Þorskurinn hefur verið afvelta eftir loðnuátið, en steinbíturinn er greinilega aðeins að vakna aftur norðan við Horn eftir veisluna undanfarið,“ sagði Guðmundur Einarsson, útgerðarmaður í Bolungarvík, í gær. Skipstjóri í túrnum var Björn Elías Halldórsson, sem sótti í gær á sömu slóðir og um kaffileytið stefndi í svipaðan afla.

Rækjubátur með tonn af loðnu

Guðmundur segir að fiskurinn liggi í loðnunni á Ísafjarðardjúpi og víða á Vestfjarðamiðum. „Hér hefur verið óhemju mikið af loðnu, en hún er að leggjast á botninn og drepast,“ segir Guðmundur.

„Ég veit svo sem ekki hversu mikið er af henni, en hún er búin að vera hér í nokkrar vikur og núna er víða 4-5 metra teppi á botninum. Í Djúpinu koma menn færunum varla niður vegna loðnunnar. Fyrir helgi heyrði ég að rækjubátur hefði fengið hátt í tonn af loðnu í einu hali.“

Loðnunni fylgir mikið fuglalíf og segir Guðmundur að það eigi jafnt við svartfugl og hvítfugl eins og múkka og máfa. „Núna er mikið af svartfugli hér í Djúpkjaftinum og norður um, en svo kemur makríllinn í sumar og þurrkar upp sílistorfurnar. Svartfuglinn sést ekki eftir að makríllinn hefur hreinsað upp allt ætið.“

Átta minni bátar, sem mælast undir 30 tonnum, eru gerðir út á línu frá Bolungarvík. Guðmundur segir að stærri bátarnir hafi komið með um og yfir 25 tonn af þorski í fyrrasumar. Þannig að steinbítstúrinn á mánudaginn slær ekki met, en var vægast sagt kærkominn eftir erfiðan vetur.

„Hér hafa verið ógæftir síðan um miðjan desember og alveg skelfilegt tíðarfar,“ segir Guðmundur. „Svona vetur hefur ekki komið í áratugi. Stóru smábátarnir hafa yfirleitt náð 20-25 túrum í mánuði, en í vetur hafa róðrarnir farið niður í 13 á mánuði. Þetta er búið að vera ömurlegt tíðarfar og ætli við höfum ekki séð til sólar 6-7 sinnum hér fyrir vestan í vetur.“

Fimm milljónir fyrir túrinn

Guðmundur segir ekki á allt kosið þó að vel sé farið að veiðast af steinbít. Á markaði fáist oft 160-200 krónur fyrir kílóið af slægðum steinbít sem sé alltof lítið og markaðurinn sé viðkvæmur berist mikill afli á land. Sveiflurnar séu miklar því verðið geti slegið upp í 6-700 krónur á kíló yfir veturinn þegar lítið er að hafa. Í gær fengust þó 245 krónur fyrir kílóið og gaf túrinn því um fimm milljónir. Guðmundur segir að meðan þorskurinn liggi afvelta og taki ekki línukrókana, sé steinbíturinn neyðarbrauð sem menn verði að sætta sig við.

„Það er hins vegar ýsan sem er stóra vandamálið og hér fyrir vestan er víða skelfilegt ástand. Menn eiga ekki kvóta og það er bara mínus við það að leigja ýsu úr stóra kerfinu fyrir um og yfir 300 krónur kílóið og selja á mörkuðum á sama eða lægra verði. Þegar er búið að segja upp hátt í tíu manns á þremur bátum, aðallega í beitingu, og stefna menn frekar á handfæri í vor.“

Línuívilnun skiptir miklu

Útgerð línubáta undir 30 tonnum er ein af styrkustu stoðunum í atvinnulífinu í Bolungarvík og þar skiptir línuívilnun miklu máli. Samkvæmt reglugerð má við veiðar dagróðrabáta með línu, sem beitt er í landi, landa 20% umfram þann afla í þorski, ýsu og steinbít sem reiknast til aflamarks þeirra, í einstökum róðrum.

„Þessi heimild var sett á til að tryggja atvinnu úti á landi og svo sannarlega hefur ívilnunin sannað gildi sitt hér. Fólki hefur fjölgað og beitingaskúrarnir eru stórir vinnustaðir. Í Bolungarvík myndi fólki einfaldlega fækka mikið ef þetta fyrirkomulag yrði tekið af,“ segir Guðmundur.