[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HANDBOLTI Ívar Benediktsson iben@mbl.is „Frakkar eru með eitt allra besta landslið í heiminum í dag.

HANDBOLTI

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Frakkar eru með eitt allra besta landslið í heiminum í dag. Við verðum að njóta þess að leika við svo sterkan andstæðing, reyna að gera okkar besta og ná stigum eða stigi,“ segir Karen Knútsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, um viðureign íslenska og franska landsliðsins í handknattleik kvenna í Laugardalshöll í kvöld. Flautað verður til leiks klukkan 19.30 en leikurinn er liður í undankeppni Evrópumeistaramótsins sem haldið verður í sameiginlegri umsjón Króata og Ungverja í desember.

Auk franska og íslenska landsliðsins eru í riðlinum landslið Slóvaka og Finna. Sem stendur er íslenska landsliðið í þriðja sæti eftir sigur á Finnum og eins marks tap fyrir Slóvökum á útivelli í haust sem leið. Íslenska landsliðið mætir Frökkum á nýjan leik í Limoges á laugardag en riðlakeppninni lýkur í vor þegar Finnar verða sóttir heim og Slóvakar koma hingað til lands í júní.

Allt þarf að ganga upp

„Frakkar eru með gríðarlega gott lið og segja má að í liðinu séu tveir góðir leikmenn um hverja stöðu. Þar af leiðandi er ljóst að allt verður að ganga upp hjá okkur í leiknum annað kvöld [í kvöld] svo við getum náð í stig,“ segir Karen sem leikur í kvöld sinn 63 A-landsleik. Aðeins tveir leikmenn íslenska landsliðsins í kvöld hafa leikið oftar með íslenska landsliðinu, Arna Sif Pálsdóttir, 97, og Íris Björk Símonardóttir sem hefur leikið einum leik fleira.

Talsverð endurnýjun hefur átt sér stað á íslenska landsliðinu á síðustu mánuðum. Ekki hefur sú endurnýjun öll komið til af góðu einu. Margir leikmenn eru fjarri góðu gamni vegna meiðsla og hafa sumir þurft að hætta handknattleiksiðkun af þeim völdum, t.d. Rakel Dögg Bragadóttir. Þá er Stella Sigurðardóttir úr leik um ófyrirséðan tíma vegna höfuðmeiðsla sem eru af svipuðum toga og þau sem bundu enda feril Rakelar Daggar.

Rut Arnfjörð Jónsdóttir er einnig úr leik vegna axlarmeiðsla og markverðirnir Florentina Stanciu og Guðný Jenný Ásmundsdóttir eru einnig frá keppni. Þá er Ásta Birna Gunnarsdóttir frá vegna slitins krossbands. Einnig má nefna Hönnu Guðrúnu Stefánsdóttur og Þorgerði Önnu Atladóttur sem eru meiddar.

Þrátt fyrir að höggvin hafi verið skörð í hópinn hjá íslenska landsliðinu þá segir Karen að stemningin sé góð í landsliðshópnum. „Allt er mögulegt þegar við stöndum saman og berjumst hver fyrir aðra,“ segir Karen sem tekur við fyrirliðstöðunni af frænku sinni Stellu Sigurðardóttur.

„Ég skoraðist ekki undan að hlaupa í skarðið fyrir Stellu í þessum tveimur leikjum,“ segir Karen Knútsdóttir.

Hávaxnar og sterkar

„Franska landsliðið er mjög sterkt. Leikmenn eru hávaxnir og líkamlega sterkir og liðið er með frábærar skyttur,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson landsliðsþjálfari en nánar er rætt við hann á mbl.is/sport.
Undankeppni EM- riðill 2
» Flautað verður til leiks Íslands og Frakklands í Laugardalshöll kl. 19.30 í kvöld.
» Frakkar eru efstir í riðlinum með fjögur stig. Ísland og Slóvakía hafa tvö stig hvor þjóð en Finnar eru án stiga.
» Undankeppninni lýkur í júní og að henni lokinni fara tvö efstu liðin í lokakeppnina sem fram fer í desember.