Sigfús Guðmundsson fæddist 23. janúar 1959. Hann lést 24. febrúar 2014. Útför Sigfúsar fór fram 8. mars 2014.

Sú var tíð er sátum við og undum

sæl og glöð í blóma lífsins þá.

Minningar frá mörgum ævistundum

magnast þó að líði ævina á.

Klökkur er ég kem á fornar slóðir,

kviknar myndin skær í huga mér.

Ég sé í anda, systir, vinur, bróðir,

sælar stundir er við nutum hér.

Munum þegar loft er blandað lævi,

lánið valt og fölva á vanga slær,

að vinátta sem treyst er alla ævi

okkar lífi sannan tilgang ljær.

Því kemur þar að kveðja tímar góðir

hvort sem ævin stutt er eða löng

megi andinn fljúga á fornar slóðir

og fara í hinstu för við þennan söng.

(Ómar Ragnarsson)

Ég sá Fúsa síðast fyrir nokkrum vikum og hugsaði eins og endranær meðan við veifuðum hvort öðru: „Næst gef ég mér tíma og við tölum lengi saman.“ Og svo varð ekkert „næst“. Hann er dáinn, langt fyrir aldur fram og engin eftirsjá breytir því. Minningarnar lifna við og manni finnst sem allt hafi verið í gær, þótt árin telji tugi.

Ég leit upp til Fúsa þegar við vorum unglingar. Hann var ekki hópsál og þorði alltaf að vera hann sjálfur, ég man að hann fermdist ekki og það þótti einstakt. Það var ekki lítils virði að vera boðin á rúntinn í gamla Toyota og fá svo að keyra austur með Víkurhömrum, þótt nokkur ár væru í bílprófið. Fúsi hrósaði hæfileikum mínum í hástert, enda ferðirnar alveg slysalausar.

Á árunum sem í hönd fóru var skemmtanalífið oft stundað meira af kappi en forsjá og hugsað meira um fljótandi nestið en það fasta. Verslunarmannahelgi eina á Klaustri var allt þrotið, bæði fast og fljótandi. Vildi þá ekki svo vel til að Fúsi átti sína ágætu systur, Guggu, búandi þar og bauð okkur nokkrum þangað í morgunkaffið. Þar var sko ekki í kot vísað, við unglingarnir, með táfýlu og gubbulykt eftir úthaldið, borðuðum okkur södd og sæl, og þótti Fúsi með afbrigðum ráðagóður. Í Reykjavík man ég eftir mér með Fúsa og fleirum á leið úr Laugarásbíó, strætó hættur að ganga, við gengum hálfan bæinn en svo var bankað í glugga, burtfluttur Víkari bauð okkur í kaffi og skutlaði okkur heim. Mig rámar líka í að hafa ásamt fleirum étið umtalsvert skarð í kóteletturnar í „afahúsi“ á nýársnótt, þótt þær ættu að vera í matinn að morgni.

Þetta voru dýrðardagar en svo tekur alvara lífsins alltaf við og við þykjumst ekki hafa tíma og fjarlægðin eykst þótt við flytjumst ekkert í burtu. Sem betur fer köstuðum við alltaf kveðju hvort á annað og stundum voru málin tekin fyrir og krufin til mergjar.

Svo fyrir tæpum tveimur árum hitti ég Fúsa við húshorn í Vík. Það var sólskin, eins og alltaf í gamla daga, við gengum um, skoðuðum garðinn hjá honum og svo var farið í bílskúrinn. Og það var eins og við manninn mælt. Við urðum aftur unglingar, rifjuðum upp og hlógum og hlógum að gömlum bröndurum og skruppum í huganum eina ferð „austurmeð“! Þessi stund er mér dýrmæt í dag.

Innilega samhryggist ég fjölskyldu Sigfúsar.

Minningin um góðan dreng lifir!

Ásta Sverrisdóttir.