[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BAKSVIÐ Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Samfylkingin er stærsti stjórnmálaflokkurinn í Reykjavík samkvæmt nýrri skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið.

BAKSVIÐ

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Samfylkingin er stærsti stjórnmálaflokkurinn í Reykjavík samkvæmt nýrri skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið. Fengi flokkurinn fimm fulltrúa kjörna ef kosið væri nú til borgarstjórnar. Meirihlutinn heldur velli. Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi og fær aðeins fjóra borgarfulltrúa. Framsóknarflokkurinn og nýtt framboð Dögunar eru úti í kuldanum og komast vart á blað.

Sveifla til Samfylkingar

Könnunin sýnir verulega fylgissveiflu til Samfylkingarinnar. Stuðningur við flokkinn mælist nú 28%. Í síðustu könnun var fylgið 23,5% og í kosningunum árið 2010 fékk flokkurinn 19,1% atkvæða og þrjá menn kjörna. Nú fengi Samfylkingin fimm borgarfulltrúa sem fyrr segir.

Björt framtíð, arftaki Besta flokksins í borgarstjórn, er næststærsti flokkurinn með 24,8% fylgi. Munurinn á henni og Sjálfstæðisflokknum sem mælist með 24,4% fylgi er þó innan skekkjumarka. Björt framtíð fengi samkvæmt þessu fjóra borgarfulltrúa kjörna. Besti flokkurinn hefur hins vegar sex fulltrúa í borgarstjórn. Miðað við síðustu könnun hefur Björt framtíð bætt við sig fylgi, en í febrúar mældist fylgi hennar í Reykjavík 21%.

Tap Sjálfstæðisflokksins

Sjálfstæðisflokkurinn er með 24,4% fylgi í könnuninni og fengi fjóra borgarfulltrúa. Það er talsvert minna fylgi en í síðustu könnun Félagsvísindastofnunar þegar flokkurinn mældist með 28,4%. Í borgarstjórnarkosningunum árið 2010 fékk flokkurinn 33,6% atkvæða og fimm menn kjörna.

Fylgi Pírata og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er mjög svipað. Fylgi Pírata mælist 9,1% sem dugir fyrir einum borgarfulltrúa. Fylgi VG er 8,6% sem einnig dugir fyrir borgarfulltrúa. Fylgi beggja flokknna hefur minnkað frá síðustu könnun í febrúar. Þá mældust Píratar með 11,7% og VG með 9,1%.

Framsókn og Dögun úti

Önnur framboð komast vart á blað. Fylgi Dögunar, sem nýlega tilkynnti um framboð, er 2,8%. Fylgi Framsóknarflokksins er 2% en var 2,9% í febrúar. 0,3% segjast vilja kjósa annan flokk.

Enginn svarenda nefnir Alþýðufylkinguna, en þess ber að geta að framboð hennar var ekki tilkynnt áður en könnuninni var lokið.

Svarhlutfall 60%

Könnun Félagsvísindastofnunar var gerð dagana 17. til 23. mars. Spurt var: Ef borgarstjórnarkosningar væru haldnar á morgun, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?

Tvær leiðir voru notaðar til að ná til kjósenda. Annars vegar var hringt í 404 manna tilviljunarúrtak úr kjörskrá meðal fólks á aldrinum 18 ára og eldri. Hins vegar var send netkönnun til 1.596 manna úrtaks úr netpanel Félagsvísindastofnunar. Alls fengust 1.154 svör frá svarendum á aldrinum 18 til 90 ára og var svarhlutfallið 60%. Vigtaður svarendafjöldi var sömuleiðis 1.154.

Þetta eru svipaðar heimtur og verið hafa í fyrri könnunum Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið í Reykjavík.

Ungir styðja Samfylkinguna

Þegar rýnt er í könnunina og skoðað hvernig þættir eins kyn, aldur, menntun og tekjur hafa áhrif á svör þátttakenda sjást nokkrar breytingar frá fyrri könnunum. Einna merkilegast má þykja að ungir kjósendur á aldrinum 18 til 29 ára ætla nú flestir að kjósa Samfylkinguna (25%). Píratar sem áður höfðu 27% fylgi í þessum aldurshópi hafa nú aðeins stuðning 11%. Þá hefur fylgi Sjálfstæðisflokksins meðal ungu kjósendanna einnig minnkað, fer úr 19% í 17%. Sem fyrr er Sjálfstæðisflokkurinn sterkastur meðal elstu kjósendanna, 60 ára og eldri, en þar er fylgið 38%.

Fleiri konur styðja Pírata

Þegar kynjahlutföll eru skoðuð vekur athygli að nú eiga Píratar í Reykjavík mun meira fylgi meðal kvenna en karla, 11% kvenna styðja flokkinn og 6% karla. Þessu hefur verið alveg öfugt farið í síðustu könnunum.

Kynjahlutfallið hjá Sjálfstæðisflokknum er orðið jafnt, en fylgið var áður mun meira meðal karla en kvenna. Það bendir til þess að karlar séu frekar að snúa frá flokknum en konur. Eins og áður eru konur fjölmennari meðal stuðningsmanna Samfylkingarinnar en karlar, 31% á móti 25%.

Fylgistap meðal tekjuhárra

Tekjuhæstu kjósendurnir, fólk með 600 þúsund krónur og meira í mánaðarlaun, eru í verulegum mæli að snúa frá Sjálfstæðisflokknum. Flokkurinn nýtur aðeins 23% fylgis meðal þessara kjósenda en í síðustu könnun var það 40%. Flestir hinna tekjuháu ætla að kjósa Samfylkinguna, 32%. Flestir tekjulægstu kjósendurnir styðja Samfylkinguna, 30%, og síðan Sjálfstæðisflokkinn, 27%.

Í könnuninni var spurt hvaða flokk þátttakendur hefðu kosið í síðustu borgarstjórnarkosningum árið 2010. Sé það borið saman við afstöðu þeirra nú kemur í ljós að 10% þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn ætla að kjósa Bjarta framtíð og 9% Samfylkinguna. Af þeim sem kusu Besta flokkinn ætla 19% að kjósa Samfylkinguna núna. Mikla athygli vekur að 55% þeirra sem segjast hafa kosið VG fyrir fjórum árum segjast núna ætla að kjósa Pírata. 19% þeirra ætla að kjósa Samfylkinguna.

Meirihlutinn traustur í sessi

Ljóst er að verði úrslit borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík í vor í samræmi við niðurstöður hinnar nýju skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar heldur meirihlutinn í borgarstjórn velli. Hann verður með jafn marga borgarfulltrúa og nú, níu af fimmtán. Í síðustu könnun var meirihlutinn hins vegar fallinn, var með sjö borgarfulltrúa.

Breytingin frá kosningunum 2010 felst í því að Samfylkingin fær tvo nýja menn kjörna en Björt framtíð, sem arftaki Besta flokksins, tapar tveimur á móti. Minnihlutinn í borgarstjórn verður áfram með sex fulltrúa, en einn af núverandi fulltrúum Sjálfstæðisflokksins færist til Pírata.

Dagur: „Er afar þakklátur“

• „Sjálfstæðismenn þurfa að gera betur“ „Ég er afar þakklátur fyrir þennan stuðnig við meirihlutann og okkur í Samfylkingunni. Þetta er góð hvatning inn í kosningabaráttuna,“ sagði Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, þegar Morgunblaðið leitaði álits hans á hinni nýju könnun Félagsvísindastofnunar. Könnunin sýndi að hans mati að borgarbúar teldu löngu tímabært að það kæmist á vinnufriður í borginni og festa í stjórn hennar. „Ég held líka að áhersla okkur á húsnæðismálin sé að slá í gegn,“ sagði hann. Dagur kvaðst ekki hafa hugmynd um hvort ESB-málið hefði áhrif, en það gæti vel verið að þeir væru ekki margir sem vildu fá núverandi ríkisstjórn inn í ráðhúsið.

„Ég verð víst að segja það sama og síðast: Við sjálfstæðismenn þurfum að gera betur,“ sagði Halldór Halldórsson, oddviti sjálfstæðismanna, um könnunina. Hann benti á að aðeins hluti af stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar væri kominn fram „Við erum með mjög metnaðarfulla stefnuskrá í undirbúningi sem ég trúi að kjósendum muni falla vel í geð. Við höfum fram að þessu aðeins kynnt einn þátt hennar sem er stefnan í húsnæðismálum.“

Halldór sagðist sannfærður um að kjósendur vildu sjá breytingar í borginni, hér hefði verið vinstri stjórn nær samfellt frá 1994 og borgaryfirvöld fyrir skömmu fengið falleinkunn í könnun á viðhorfi borgarbúa til þjónustu borgarinnar. Halldór sagðist telja að ESB-málið hefði einhver áhrif á fylgistap Sjálfstæðisflokksins, en réði ekki úrslitum. „Við erum að hugsa um borgarmálin í þessum kosningum og látum öðrum eftir að fjalla um landsmálin.“