Guðrún Pálína Gísladóttir fæddist í Reykjavík 24. ágúst 1937. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 19. febrúar 2014.

Foreldrar hennar voru Jóhanna Bjarnadóttir, látin, og Gísli Gíslason, látinn. Guðrún átti tvö systkini, þau Elínu Þórdísi og Kjartan, sem bæði eru látin.

Eftirlifandi eiginmaður Guðrúnar er Eyþór Sölvi Jónsson en þau gengu í hjónaband árið 1970. Guðrún og Eyþór eignuðust fjögur börn en þau eru: 1) Kjartan, f. 1961. Synir hans eru Eyþór Ásbjörn, Franz Viktor, Hlynur Örn, Guðbjörn Jóhann og Þórarinn Ágúst. 2) Kolbrún, f. 1964. Eiginmaður hennar er Þór Hjálmar Ingólfsson. Þeirra dætur eru: Svandís Unnur og Heiðdís Mjöll. 3) Hanna María, f. 1966. Eiginmaður hennar er Hilmar Björgvinsson. Þeirra börn eru: Kristófer Gísli, Björgvin Fannar og Katrín María. 4) Svanur Þór, f. 1969. Dóttir hans er Guðrún Þórey. Langömmubörnin eru orðin tvö, þau Kristinn Már Eyþórsson og Aldís Elfa Franzdóttir.

Útför Guðrúnar hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Elsku mamma. Nú hefur þú verið kölluð burt frá okkur og eftir sitjum við með tóm í hjörtum okkar. Við söknum þín öll svo sárt, þú sem hafðir svo stórt hjarta og vildir allt fyrir alla gera. Alltaf þótti barnabörnunum gott að fara til Guðrúnar ömmu því þú gafst svo mikið af þér. Við minnumst með hlýhug ferðalaganna yndislegu sem þið pabbi fóruð í með fjölskyldum okkar síðustu árin. Hringinn kringum landið, á Snæfellsnesið og Vestfirðina. Þetta voru ómetanlegar stundir.

Engan óraði fyrir þessum vágesti sem barði að dyrum á haustmánuðum. Þið pabbi voruð nýlega flutt og komin á gamlar slóðir í Breiðholtinu, rétt hjá Huldu frænku. Við vorum búin að ákveða að nú skyldum við halda jólin saman eins og þig hafði langað til, að hafa öll börnin þín hjá þér. Þegar til kom varstu orðin of lasin til að vera með okkur á aðfangadagskvöld. Pabbi var sem klettur við hlið þér og hjúkraði þér með okkar hjálp heima eins lengi og unnt var. Þegar þú vildir fara inn á líknardeild varstu orðin mjög lasburða og þar andaðist þú í faðmi pabba og barnanna þinna.

Nú verðum við að skipuleggja næstu ferð án þín, elsku mamma, því þú ert lögð af stað í annað ferðalag. Við söknum þess að geta ekki lyft símanum daglega til að heyra röddina þína. Við minnumst með hlýju faðmlagsins þíns og kossa í hvert sinn er við kvöddumst. Megir þú hvíla í friði.

Hún var einstök perla.

Afar fágæt perla,

skreytt fegurstu gimsteinum

sem glitraði á

og gerðu líf samferðamanna hennar

innihaldsríkara og fegurra.

Fáar perlur eru svo ríkulega búnar,

gæddar svo mörgum af dýrmætustu

gjöfum Guðs.

Hún hafði ásjónu engils

sem frá stafaði ilmur

umhyggju og vináttu,

ástar og kærleika.

Hún var farvegur kærleika Guðs,

kærleika sem ekki krafðist endurgjalds.

Hún var vitnisburður

um bestu gjafir Guðs,

trúna, vonina, kærleikann og lífið.

Blessuð sé minning einstakrar perlu.

(Sigurbjörn Þorkelsson.)

Elsku hjartans ástin okkar, þú ert ljósið okkar.

Kolbrún og Hanna.