Guðmundur Rúnar Guðmundsson fæddist 22. október 1956. Hann lést 18. febrúar 2014. Útför Rúna fór fram 4. mars 2014.

Rúnar vinur minn er látinn, langt um aldur fram. Vinátta okkar nær aftur til unglingsáranna þegar við vorum báðir við nám í Flensborgarskóla. Tónlistin tengdi okkur saman og líka áhuginn á bókmenntum, ferðalögum, stjórnmálum og svo mörgu öðru. Við höfðum svipaða sýn á lífið og tilveruna, en vorum ekki alltaf sammála og gátum rætt málin án þess að það kastaðist í kekki. Rúnar var bráðvel gefinn og glöggur, hafði skarpa sýn á menn og málefni og var óhræddur við að láta skoðanir sínar í ljós. Hann var hreinskiptinn og traustur vinur.

Við störfuðum saman um skeið við hljómplötuútgáfu og vorum oftast samferða í vinnuna á morgnana. Það þýddi ekkert að ræða málin við Rúnar snemma að morgni dags því hann vaknaði ekki almennilega fyrr en hann hafði kveikt í pípunni sinni og fengið sér fyrsta kaffibollann. Þá komst hann á fullt skrið og allt fór á fullan snúning.

Rúnar átti góðan lífsförunaut, Vilborgu Sverrisdóttur, og þau eignuðust soninn Ragnar, sem er á líku reki og dóttir okkar Rósu. Fjölskylduböndin tengdu okkur enn frekar saman og vináttan efldist eftir því sem árin liðu. Þegar Rúnar og Vilborg störfuðu sem kennarar í Reykholti í Borgarfirði fórum við í heimsókn til þeirra og nutum borgfirskrar náttúru og þess að vera með þeim á þessum söguríka stað.

Eftir að þau hófu framhaldsnám í Danmörku komum við nokkrum sinnum til þeirra á stúdentagarðinn þar sem jafnan var líf og fjör. Við áttum skemmtilegar og gefandi stundir í Kaupmannahöfn, fórum vítt og breitt um borgina við sundin, nutum þess að hlýða á tónlist í Fælled Parken, fórum á tónleika í Montmartre-djassklúbbnum og brölluðum ýmislegt saman.

Rúnar fékk heilablæðingu fyrir tveimur áratugum sem hafði veruleg áhrif á líf hans eftir það. Hann náði sér aldrei að fullu og setti áfallið mark á hann allt til síðasta dags. Eftir endurhæfingu var ekki hægt að sjá það á honum líkamlega hvað hafði komið fyrir, en hann átti í erfiðleikum með að tjá sig. Honum gekk illa að orða hugsanir sínar og gat því ekki lýst skoðunum sínum eins og hann hefði kosið. Þetta var honum þungbært og hann sagði stundum að hann gæti hreinlega ekki tekið þátt í samræðum og dró sig í hlé, eða sat og hlustaði á samræður annarra. Það breytti ekki því að hann átti oft góðar og gefandi stundir með nánum vinum sínum sem vissu hvernig málum var háttað.

Við fórum saman á tónleika núna í byrjun febrúar og áttum góða stund saman. Það hvarflaði ekki að mér að þetta væri í síðasta skipti sem við ættum eftir að hlusta saman á tónlist. Ég kveð góðan vin með söknuði og þakklæti fyrir langa vináttu. Vilborgu, Ragnari, Svanhildi, Rúnari eldri, Ingvari, Valgerði og öðrum ættingjum og vinum sendum við Rósa hugheilar samúðarkveðjur.

Jónatan Garðarsson.

Við komum inn í lífið með alls kyns einstaklinga okkur við hlið sem verða hluti af því fram eftir lífi. Eins og þau séu lykkja í peysu sem prjónuð er og við prjónum sjálf á okkur fram að endalokum.

Rúni var ein af mínum lykkjum og var mér afar kær. Sem stelpa man ég eftir honum vinna allar rökræður af djúpri þekkingu og skilningi á málefnum. Verandi barn við hliðina á samræðunum, hlerandi umræður stóra fólksins í veikri von um að skilja hvað það væri raunverulega að tala um, fannst mér hann alltaf tala réttu máli.

Hægt og rólega skildi ég að mín lífssýn var í takt við hans og Vilborgar. Við vorum skoðanasystkin sem vinstrisinnaðir sósíalistar. Ég leit upp til þeirra fyrir að standa uppi í hárinu á hægrisinnaða fólkinu í föðurfjölskyldu minni þegar þau deildu um samfélagsmálin.

Þar var fleira sem fékk mig til að líta upp til Rúna. Til dæmis þegar ég komst í plötusafnið hans. Sjálf var ég í menntaskóla að reyna mitt besta að verða pönkari. Hann átti gersemarnar, hann átti ófáanlegu sjötommurnar sem ég og vinahópur minn hefði gefið höndina fyrir að eignast. Alltaf var Rúni einhvern veginn aðeins ofar í svalheitaskalanum en flestir aðrir fullorðnir. Hann sýndi mér líka fram á að þótt ég yrði fimmtug gæti ég ennþá haft gaman af allri þeirri tónlist sem heimurinn hefur upp á að bjóða. Líka hálfóþægilegu hljóðgervlatónlistinni. Hann setti stoltur á alls konar tónlistarefni í fjölskylduboðum. Og hann komst alltaf upp með það.

Ég man eftir stórum bangsa og hnetum í skál á Reykholti. Troðfullri lítilli íbúð í Kaupmannahöfn þegar við fjölskyldan fengum að gista hjá Vilborgu, Rúna og Ragnari. Ég man eftir pípu og töffaralegum gallabuxum. Ég man eftir flóknum, djúpum húmor og alúðlegri gestrisni.

Þegar ég kynnti Arnar, eiginmann minn, fyrir Rúna þá smullu þeir vel saman. Þeir gátu setið lengi og spjallað. Arnar náði oftar en ekki að plata Rúna út í sígó í fjölskylduboðum og þar gátu þeir gleymt sér og jafnvel misst af eftirréttinum. Mér þótti ofurvænt um vinskap þeirra.

Ég kveð Rúna með sárum söknuði og vona að hann finni sér stað þar sem hann situr og vinnur rökræður um allt milli himins og jarðar. Þannig sé ég hann alltaf fyrir mér í essinu sínu, takandi fólk í bakaríið með réttlæti að fararbroddi og sínum skemmtilega svarta húmor.

Elsku Vilborg, Ragnar, Svanhildur og Grímur. Hjarta mitt titrar af harmi og ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Fríða Rós Valdimarsdóttir.