[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sveinn fæddist á Akureyri 26.3. 1944 og ólst þar upp á Eyrinni. Hann var í sveit öll sumur frá fimm ára aldri og þar til hann varð 12 ára, s.s. í Skagafirði, í Dölunum, Borgarfirði og í Þingeyjarsýslu.

Sveinn fæddist á Akureyri 26.3. 1944 og ólst þar upp á Eyrinni. Hann var í sveit öll sumur frá fimm ára aldri og þar til hann varð 12 ára, s.s. í Skagafirði, í Dölunum, Borgarfirði og í Þingeyjarsýslu.

Sveinn var í Barnaskóla Akureyrar og í Gagnfræðaskóla Akureyrar, stundaði nám við Iðnskólann á Akureyri, var á samningi hjá föður sínum frá 16 ára aldri, lauk sveinsprófi í húsasmíði 15.7. 1964 og eignaðist frumburð sinn sama dag.

Sveinn öðlaðist síðan meistararéttindi 1967, var húsasmiður hjá föður sínum en þeir feðgarnir störfuðu saman þar til faðir hans lét af störfum um 1980.

Sveinn hefur hins vegar starfrækt Trésmíðaverkstæði Sveins Heiðars á Akureyri frá 1980. Fyrirtæki hans hefur séð um byggingu fjölda íbúðarhúsa á Akureyri og víðar, ekki síst á raðhúsum og einbýlishúsum. Þá hefur hann byggt fjöldann allan af hlöðum og öðrum útihúsum fyrir sveitabýli, víða á Norður- og Austurlandi. Fyrirtækið sá m.a. um byggingu á u.þ.b. 50 íbúðum á Austfjörðum, ekki síst á Reyðarfirði: „Við höfum alltaf haft nóg að gera sem betur fer. Ég hef verið mjög heppinn með starfsfólk í gegnum tíðina. Ég held það láti nærri að fyrirtækið sé nú búið að reisa nálægt 300 íbúðir, útihús og önnur mannvirki í Eyjafirði og á Austurlandi.

Ég hef sjálfur verið að draga saman seglin á síðustu misserum, ekki síst vegna veikinda konu minnar sem lést í fyrra. Fyrirtæki mitt er þó enn við lýði þó ég hafi dregið þar mjög úr öllum framkvæmdum.

Erlingur Heiðar, sonur minn, stofnaði byggingafyrirtæki fyrir þremur árum og ég hef einkum verið að aðstoða hann nú að undanförnu. Hann er einnig húsasmíðameistari og reyndar einnig byggingafræðingur, svo það má segja að starfið hafi gengið í erfðir.“

Sveinn var formaður Conga--klúbbsins á unglingsárum, sat í stjórn félags iðnnema á Akureyri, í stjórn Trésmíðafélags Akureyrar, Meistarafélags byggingamanna og var formaður Iðnráðs Akureyrar. Hann stofnaði, ásamt fleirum, félagið Úrbótarmenn, sem vinnur að atvinnusköpun, hefur byggt 22 orlofshús í Kjarnaskógi og stefnir að því að byggja þar 12 hús í viðbót. Hann starfaði í Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, er virkur félagi í Sjálfstæðisflokknum, var á framboðslista flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningar, er félagi í Oddfellow-reglunni auk þess sem þau hjónin störfuðu mikið í félagi húsbílaeigenda um skeið.

Fjölskylda

Sveinn kvæntist 7.11. 1964 Erlu Eggerts Oddsdóttur, f. á Akranesi 21.7. 1943, d. 30.4. 2013, ritara. Foreldrar hennar voru Oddur Ólafsson, f. 19.6. 1918, d. 22.9. 1980, klæðskeri og vörubílstjóri á Akranesi, og k.h., Friðmey Jónsdóttir, f. 21.3. 1923, d. 12.10. 2010, húsfreyja.

Börn Sveins og Erlu eru Ragnheiður, f. 15.7. 1964, sjúkraþjálfari á Akureyri en maður hennar er Hrafn Þórðarson húsgagnasmíðameistari og eiga þau þrjú börn; Fríða Björk, f. 21.5. 1966, viðskiptafræðingur í Noregi en maður hennar Jóhann Ómarsson viðskiptafræðingur og forstjóri og eiga þau fjögur börn, tengdadóttur og eitt barnabarn; Oddný, f. 2.4. 1968, d. 11.7. 1969; Lovísa, f. 24.7. 1972, kennari á Akureyri en maður hennar er Heiðar Jónsson sjávarútvegsfræðingur og eiga þau fjögur börn; Erlingur Heiðar, f. 2.2. 1977, húsasmíðameistari og byggingafræðingur á Akureyri en kona hans er Rósa Björg Gísladóttir leikskólakennari og eiga þau þrjú börn.

Systkini Sveins: Sigríður Jónsdóttir, f. 12.8. 1945, fyrrv. starfsmaður á skóladagheimilil, búsett á Akureyri; Sæbjörg Jónsdóttir, f. 1.5. 1949, skrifstofumaður á Akureyri; Karl Jónsson, f. 18.1. 1952, byggingameistari á Akureyri.

Foreldrar Sveins: Jón Gíslason, f. 14.9. 1915, d. 4.10. 2009, byggingameistari á Akureyri, og k.h., Jóhanna Zophusdóttir, f. 23.8. 1913, d. 2.4. 1988, húsfreyja.