Krafla Fyrsta holan í djúpborunarverkefninu, IDDP1, í blæstri, en holan er mjög kraftmikil.
Krafla Fyrsta holan í djúpborunarverkefninu, IDDP1, í blæstri, en holan er mjög kraftmikil. — Ljósmynd/Kristján Einarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Kvikuholan við Kröflu, sem boruð var árið 2009, markar ákveðin tímamót í rannsóknum á nýtingu jarðhita.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Kvikuholan við Kröflu, sem boruð var árið 2009, markar ákveðin tímamót í rannsóknum á nýtingu jarðhita. Verkefnið hefur vakið athygli í hinum alþjóðlega heimi jarðvísinda og í janúar var sérstök útgáfa vísindatímaritsins Geothermics helguð borholunni, en komið var niður á bergkviku á um 2.100 metra dýpi. „Árangur af borun og rannsóknum þessum er vægast sagt magnaður og gæti í náinni framtíð leitt til byltingar í orkunýtingu á háhitasvæðum heimsins,“ skrifar Guðmundur Ómar Friðleifsson, yfirjarðfræðingur hjá HS Orku, á heimasíðunni (http://www.iddp.is), en hann hefur verið talsmaður verkefnisins.

Landsvirkjun er eigandi holunnar, en einnig taka Orkuveita Reykjavíkur, HS Orka, og Orkustofnun þátt í verkefninu og Alcoa og Statoil voru einnig þátttakendur þegar borað var við Kröflu. Guðmundur segir að nú sé komið að nýjum kafla í verkefninu, tilrauna- og rannsóknaþætti sé nánast lokið í Kröflu. Holan er þó ekki nothæf sem stendur, en hugsanlega má gera við hana, eða bora nýja holu með svipuðum hætti og taka í nýtingu sýnist Landsvirkjun svo.

Hann vonast til að í lok þessa árs eða byrjun þess næsta verði byrjað á borun annarrar djúpholu í verkefninu og þá á Reykjanesi. Stjórn HS Orku hafi þó ekki tekið endanlega ákvörðun.

Markar þáttaskil

Guðmundur segir að verkefnið marki þáttaskil á margan hátt og á heimasíðunni spyr hann í hverju hinn góði árangur felist og svarar því sjálfur: „Í fyrsta lagi, þá tókst að bora niður í bráðna bergkviku og ráða við það, þrátt fyrir nokkra erfiðleika. Í öðru lagi að brjóta upp funheitt berg næst kvikunni og skapa með því mikla vatnslekt og ná sambandi við kaldara jarðhitaumhverfi ofan við. Í þriðja lagi tókst að koma fyrir stálröri niður undir botn og steypa hluta þess fastan.

Í fjórða lagi að láta holuna blása yfirhitaðri, skraufþurri háþrýstigufu í marga mánuði, yfir 450°C heitri, og slá heimsmet í hita með þessari heitustu vinnsluholu í heimi og einni af þeim öflugustu. Samkvæmt mælingu var afl holunar allt að 36 megavött rafafls, en til samanburðar er uppsett afl Kröfluvirkjunar um 60 megavött.

Í fimmta lagi tókst að sýna fram á að unnt væri að ráða við erfiða efnasamsetningu gufu úr IDDP-1 með einföldum mótvægisaðgerðum. Í sjötta lagi að sýna fram á að gufuna mætti taka beint inn á núverandi virkjun í Kröflu, og var Landsvirkjun að undirbúa slíka aðgerð rétt áður en loka þurfti holunni vegna bilunar í holuloka.

Í sjöunda og síðasta lagi og þá ekki síst, hefur tekist að sýna fram á með borun og tilraunum á holu IDDP-1, að nýtanlegt háorku-háhitakerfi má búa til með þessum hætti,“ skrifar Guðmundur Ómar.

Vökvi fór í allt að 452 gráður

Guðmundur Ómar rekur tengsl jarðhitakerfa á mismunandi dýpi, svokallaðra EGS-jarðhitakerfa, sem eru búin til með því að dæla köldu vatni niður í þurr og heit jarðlög á 4-5 kílómetra dýpi þar sem vatnið hitnar og er tekið upp aftur sem heitt vatn eða gufa úr nálægum borholum.

„Á undanförum áratugum hefur miklum fjármunum verið varið í slíkar tilraunir vítt og breitt um heiminn (Evrópu, Ástralíu, BNA, Japan) með misgóðum árangri og til þessa yfirleitt lélegum árangri hver svo sem framtíðin verður. Með IDDP-verkefninu í Kröflu tókst hins vegar að búa til slíkt EGS-kerfi og er það fyrsta kerfið í heiminum sem sækir hitann nánast beint í bráðna bergkviku.

Á heimsvísu er það auðvitað stórmerkilegt. Þétta heita bergið ofan við kvikuna brotnaði upp við kælingu meðan á borun stóð og náði sambandi við háhitavökva ofan við. Síðan var ferlinu snúið við, IDDP-holunni hleypt í blástur og við það myndaðist lágþrýstisvæði umhverfis holubotninn sem dró til sín jarðhitavökva að ofan. Á leið sinni niður yfirhitnaði sá vökvi um a.m.k. 100 stig, allt upp í 452 gráður.“