Rósa Sigurðardóttir fæddist 19. febrúar 1936. Hún lést 24. febrúar 2014. Útförin fór fram í Seattle, WA. Minningarathöfn var haldin 21. mars 2014.

Kær vinkona mín, Rósa Sigurðardóttir, er látin.

Vinkona frá æskuárunum. Við kynntumst kornungar og urðum strax mjög nánar. Rósa var traust og mjög sterkur persónuleiki og hafði lifandi áhuga á öllu sem var að gerast, bæði á fólki og málefnum.Við áttum ótrúlega skemmtilegar stundir saman og ekki síður eftir að eiginmenn okkar komu til sögunnar, sem líka urðu ágætir vinir.

Eftir að börnin okkar komu í heiminn þá held ég að varla hafi liðið dagur án þess að við værum í sambandi, en svo ákváðu þau að flytja til Seattle í Bandaríkjunum. Ég saknaði minnar kæru vinkonu mikið eftir að hún fór. En vináttan hélt samt áfram og síðustu árin komu þau oft til landsins og þá áttum við ógleymanlegar stundar saman. Við hittumst síðast nú í sumar og áttum góða stund, en þá leyndi sér ekki að heilsa Rósu var farin að gefa sig. Ég þakka þér, elsku vinkona, fyrir öll góðu árin okkar.

Við Birgir sendum Gunnari og fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur. Við erum stödd erlendis og þykir leitt að geta ekki tekið þátt í minningarathöfninni.

Sonja Backman.