E itt af því sem átti að hræða Pútín út úr Krím var að neita honum um stól á fundi 8 helstu iðnríkja heims, sem heita nú 7 helstu iðnríki heims. En óneitanlega er sérkennilegt hvernig þessi fundur er samsettur. Þar mæta ekki 7 leiðtogar heldur 9.

E itt af því sem átti að hræða Pútín út úr Krím var að neita honum um stól á fundi 8 helstu iðnríkja heims, sem heita nú 7 helstu iðnríki heims.

En óneitanlega er sérkennilegt hvernig þessi fundur er samsettur. Þar mæta ekki 7 leiðtogar heldur 9. Þar af eru 6 frá Evrópusambandinu, einn frá Japan og einn frá Kanada og einn frá Bandaríkjunum.

Nær væri að kalla þennan klúbb „fund toppa ESB ásamt 3 aðkomumönnum. Kanada, með sína 32 milljónir íbúa, er ríki í fremstu röð og aðdáunarvert fyrir margt. Það er annað landmesta ríki veraldar á eftir hinu útskúfaða Rússlandi. En af hverju er Kanada þarna en ekki Kína eða Skandinavía?

Enginn veit af hverju ákveðið var að búrókrati frá ESB skyldi mæta til viðbótar við Frakka, Breta, Þjóðverja og Ítali. En þó að enginn viti það vita allir af hverju ESB-búrókratarnir enduðu með því að fá tvo stóla við borðið. Það var vegna þess að þeir gátu ekki komið sér saman um hvor ætti að mæta. Og fyrst að G-8 endaði í þess háttar rugli, af hverju fær Obama ekki að hafa með sér ríkisstjórann í Kaliforníu, sem er mun öflugri efnahagsheild en t.d. Ítalía og Kanada? Að auki er Kalifornía þegar komin á hausinn, sem Ítalía á eftir, svo „reynsluheimur“ hennar væri áhugaverður á svona fundum.

En svo má spyrja: Hafa þessir G-8 fundir (G-7) nokkru sinni skipt máli? Svarið við þeirri spurningu skiptir svo sem litlu máli, eins og það skiptir litlu máli fyrir Rússa að fá ekki að vera með á þessari pólitískt lömuðu samkundu.