Baldur Þorsteinn Bjarnason fæddist 24. júní 1933. Hann lést 1. mars 2014. Útför Baldurs fór fram 14. mars 2014.

Er nú höggvið enn eitt skarðið í systkinahópinn, en Baldur Þorsteinn Bjarnason, eða Dengsi eins og við þekktum hann best, er nú fallinn frá. Þau systkinin voru sex, Anna sem lést á síðasta ári, Bjarni, Bragi, Bára og yngst er móðir okkar, Alda.

Með þessum fátæklegu orðum viljum við systkinin kasta á þig hinstu kveðju, elsku Dengsi.

Það er ekki annað hægt en að minnast þín með bros á vör og hlýju í hjarta. Endalausar minningar, sögur og skemmtilegar uppákomur koma upp í hugann er við látum hugann reika og hugsum til baka um öll þessi ár.

Áhugi þinn og störf fyrir Knattspyrnufélagið Val sem smituðu svo út frá sér, enda eldmóðurinn mikill, varð til þess að sum okkar fóru fljótt að halda og æfa með félaginu.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið,

og þín er liðin æviönn,

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum

læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

Þín vinartryggð var traust og föst

og tengd því sanna og góða,

og djúpa hjartahlýju og ást

þú hafðir fram að bjóða.

Og hjá þér oft var heillastund,

við hryggð varst aldrei kenndur.

Þú komst með gleðigull í mund

og gafst á báðar hendur.

Svo vinur kæri vertu sæll,

nú vegir skilja að sinni.

Þín geta máttug verndarvöld

á vegferð nýrri þinni.

Með heitu, bljúgu þeli þér

ég þakka kynninguna,

um göfugan og góðan dreng

ég geymi minninguna.

(Höf. ók.)

Sendum Iben og Baldri, systkinum og barnabörnum innilegar samúðarkveðjur.

Linda Hrönn, Bjarni Þór, Hallvarður Hans, Magna Ósk og Ægir Már.