Thomas H. Meister
Thomas H. Meister
Eftir Thomas H. Meister: "Andspænis sögu okkar teljum við Þjóðverjar það vera sérstaka ábyrgð okkar að finna aðrar lausnir en hernaðarlegar."

Morgunblaðið ræddi utanríkisstefnu Þýskalands í leiðara í febrúar síðastliðnum.

Þar sem ný ríkisstjórn í Berlín hefur nú verið við völd í 100 daga er upplagt að fylgja þessu eftir og líta nánar á hlutverk Þýskalands í alþjóðamálum.

Samþætting Evrópu, samstarfið yfir Atlantshaf og virkt hlutverk í að móta friðsamlega skipan heimsmála eru eftir sem áður grundvöllur utanríkisstefnu Þýskalands. Hins vegar dugir ekki að endurtaka gamlar þulur gagnvart ögrandi verkefnum samtímans.

Eftir atburðina í Úkraínu stendur Evrópa andspænis alvarlegustu stöðu sem upp hefur komið frá falli járntjaldsins. Auk þess þarf vitaskuld að takast á við önnur utanríkis- og öryggismál eins og ástandið í Sýrlandi, Íran, Írak, Líbíu, Malí, Mið-Afríkulýðveldinu, Suður-Súdan og Afganistan.

Menning stillingar

Andspænis sögu okkar teljum við Þjóðverjar það vera sérstaka ábyrgð okkar að finna aðrar lausnir en hernaðarlegar. Hervaldi á aðeins að beita þegar allt um þrýtur. En menning stillingar hjá Þjóðverjum þarf ekki að verða menning afskiptaleysis. Þýskaland er of stórt til að vera aðeins með athugasemdir af hliðarlínunni. Þýskaland þarf að vera reiðubúið að axla ábyrgð fyrr og af meiri þunga í utanríkis- og öryggismálum.

Stjórnlist friðar

Willy Brandt, en við fögnuðum aldarafmæli hans á síðasta ári, skilgreindi utanríkisþjónustu einhverju sinni sem „stjórnlist friðar“.

Við vinnum nú að því að endurbæta verkfærakistu utanríkisþjónustu okkar. Frank Walter Steinmeier utanríkisráðherra setti nýlega af stað endurskoðunarvinnu á framtíð utanríkisstefnu Þýskalands sem felst í samtali utanríkisráðuneytisins og mikilvægustu erlendu hagsmunaaðila í utanríkis- og öryggismálum, að meðtöldu hinu borgaralega samfélagi.

Okkur er í mun að setja fram hugmyndir um sameiginlega utanríkis-, öryggis- og varnarmálastefnu fyrir Evrópu. Í þessum anda erum við að velta fyrir okkur hagnýtri aðstoð, einnig af hernaðarlegum toga, í því skyni að koma á jafnvægi í óstöðugum ríkjum Afríku, einkum Malí. Annað áþreifanlegt dæmi um breytt viðhorf þýsku stjórnarinnar er boð okkar að annast förgun afgangsúrgangs úr efnavopnum Sýrlands í þýskum förgunarstöðvum sem eru með þeim nútímalegustu í heimi.

Vandinn að halda í ungu kynslóðina

Svo virðist sem öllum sé ljóst að samstarfið yfir Atlantshafið er ein meginstoðin í utanríkisstefnu okkar. En samstarf lifir ekki aðeins á framhaldi þess einu saman. Eigi okkur að takast að laða yngri kynslóðir að hugsjónum okkar um samstarf yfir Atlantsála verðum við til dæmis að endurhugsa samstarf okkar í hinum stafræna heimi. Á tímum upplýsingaflóðs (e. big data) þurfum við að þróa ný viðmið sem tryggja að grundvallarmannréttindi séu virt.

Með Evrópu sem aðra meginstoð utanríkisstefnu okkar sjáum við einnig vanda við að móta skilning yngri kynslóðarinnar: Ný ríkisstjórn Þýskalands leggur þunga áherslu á að styrkja félagslega samheldni, ýta undir hagvöxt og fjölga atvinnutækifærum. Mesta vandamálið er gríðarlegt atvinnuleysi ungs fólks í mörgum ESB-ríkjum. Þýskaland mun því nýta fáanleg úrræði til að berjast gegn atvinnuleysi ungs fólks, bæði í tvíhliða samstarfi og innan ESB. Okkur ber að taka til hendinni til að tryggja að unga kynslóðin glati ekki tiltrú sinni á samstarf Evrópuríkja.

Höfundur er sendiherra Þýskalands á Íslandi.