Alcoa Fjarðaál Álverið greiðir milljarða í opinber gjöld á ári.
Alcoa Fjarðaál Álverið greiðir milljarða í opinber gjöld á ári. — Morgunblaðið/ÞÖK
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Alcoa Fjarðaál flutti út vörur fyrir um 95 milljarða króna í fyrra og urðu þar af eftir um 33 milljarðar í landinu, m.a.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Alcoa Fjarðaál flutti út vörur fyrir um 95 milljarða króna í fyrra og urðu þar af eftir um 33 milljarðar í landinu, m.a. í formi opinberra gjalda, launa, innkaupa frá innlendum birgjum á vöru og þjónustu og samfélagsstyrkja til hinna ýmsu verkefna. Flutti álverið því út vörur fyrir 260 milljónir á dag.

Þetta kemur fram í nýjum lykiltölum Alcoa Fjarðaáls um reksturinn í fyrra. Segir þar einnig að Fjarðaál hafi greitt um 5,1 milljarð króna í laun og launatengd gjöld í fyrra. Árslaun hjá Fjarðaáli voru að meðaltali 8,3 milljónir króna.

13 milljarðar í fjárfestingar

Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu hafa greiðslur vegna kaupa á aðföngum innanlands til síðustu áramóta numið um 193 milljörðum króna frá því að fyrirtækið hóf starfsemi hér á landi 2007.

Alls skipti álverið við um 200 birgja í fyrra en síðan álframleiðsla hófst þar hefur Fjarðaál varið rúmlega 13 milljörðum króna til fjárfestinga vegna starfseminnar, þar af rúmum milljarði í fyrra. Þá greiddi Fjarðaál um 1,5 milljarða króna í opinber gjöld til ríkisins og sveitarfélagsins Fjarðabyggðar í fyrra. Jafnframt greiddi starfsfólk Fjarðaáls um 1,4 milljarða í tekjuskatt og útsvar til ríkis og sveitarfélaga í fyrra.

Alls störfuðu um 470 manns hjá Alcoa Fjarðaáli í fyrra og voru konur um 22% starfsmanna, eða rúmlega 100 konur á móti 370 körlum.

Um 92% starfsmanna í álverinu eru íslenskir ríkisborgarar. Auk starfsmanna Fjarðaáls vinna um 460 manns á vegum annarra fyrirtækja í álverinu eða á álverssvæðinu.