Jón Snorri Þorleifsson, fv. formaður Trésmiðafélags Reykjavíkur og framkvæmdastjóri Sambands byggingamanna, lést sl. föstudag, 84 ára að aldri. Jón Snorri fæddist 3.

Jón Snorri Þorleifsson, fv. formaður Trésmiðafélags Reykjavíkur og framkvæmdastjóri Sambands byggingamanna, lést sl. föstudag, 84 ára að aldri.

Jón Snorri fæddist 3. júní 1929 í Haukadal í Dýrafirði, sonur hjónanna Þorleifs Júlíusar Eggertssonar, kennara, og Jóhönnu Bjarneyjar Guðjónsdóttur, húsmóður.

Hann stundaði nám í trésmíði við Iðnskólann í Reykjavík, lauk sveinsprófi 1949 og fékk meistararéttindi 1952.

Jón Snorri var formaður Trésmiðafélags Reykjavíkur í samfellt 18 ár, 1960-1978, en á þeim árum var félagið eitt öflugasta iðnaðarmannafélag landsins. Þá sat hann í miðstjórn Alþýðusambands Íslands 1968-1980. Hann stóð að stofnun Sambands byggingamanna, var framkvæmdastjóri þess frá 1966 til 1980 og sá um samskipti við norræn systursambönd.

Jón Snorri var í stjórn Alþýðubandalagsins í Reykjavík á árunum 1973-1978 og sat í borgarstjórn Reykjavíkur 1967-1971. Þá var hann varaþingmaður Reykvíkinga 1968 til 1974 og sat sex sinnum á Alþingi.

Árið 1987 hóf Jón Snorri störf sem ráðgjafi fyrir alkóhólista á vegum samtakanna Vonar-Veritas. Hann fluttist til Svíþjóðar 1988 og starfaði þar einnig sem ráðgjafi fyrir alkóhólista. Hann dvaldi um tíma í Bandaríkjunum en flutti aftur til Íslands 2002.

Eiginkona Jóns Snorra var Benedikta Sigurrós Sigmundsdóttir. Þau skildu. Þau eignuðust 6 börn og Jón Snorri átti einnig son með Ásu Jóhannesdóttur.