Höskuldur Skarphéðinsson fæddist 15. júní 1932. Hann lést 3. mars 2014. Útför Höskuldar fór fram 14. mars 2014.

Höskuldur Skarphéðinsson skipherra lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 3. mars sl. Ég kynntist Höskuldi á heimili foreldra hans, Guðrúnar Hermannsdóttur og Skarphéðins Gíslasonar, á Mánagötu 18 í Reykjavík fyrir réttum 50 árum þegar við Jóhanna systir hans vorum að draga okkur saman. Þau kynni voru frá upphafi góð þó að ekki væru þau ýkja mikil fyrstu árin, enda ekki von þar sem báðir voru sjómenn og oft lengi fjarverandi. Það var svo upp úr því að Höskuldur missti konu sína, Jónínu Óskarsdóttur, í byrjun árs 1969 sem kynni okkar hófust fyrir alvöru. Það varð að samkomulagi að sonur hans Hermann, sem var jafnaldri Skarphéðins sonar okkar, dveldist hjá okkur Jóhönnu um tíma, en Rán dóttir hans dvaldist hjá móðurfólki sínu til vors. Síðan héldu Guðrún og Skarphéðinn heimili fyrir Höskuld og börn hans um nokkra hríð eða þar til hann hóf sambúð með Jóhönnu Kristjónsdóttir blaðamanni. Þau eignuðust eina dóttur, Kolbrá. Eftir að upp úr sambúð þeirra slitnaði var ákveðið að Hermann yrði til heimilis hjá okkur Jóhönnu sem stóð fram á mitt ár 1981 að hann flutti til föður síns í Heiðargerði er hann hóf nám í Verslunarskóla Íslands. Hermann lést af afleiðingum umferðarslyss 1. desember 1981. Það segir sig sjálft að á þessum árum myndaðist mikil vinátta með okkur. Höskuldur lét sér mjög annt um velferð fjölskyldu sinnar allrar og var alltaf boðinn og búinn að veita aðstoð ef einhver þurfti á að halda. Þegar við Jóhanna hófum byggingu húss okkar í Garðabæ, hafði Guðrún móðir þeirra greinst með krabbamein, var þá ákveðið að hún og Skarphéðinn flyttu í íbúð á neðri hæð hússins til að geta notið aðstoðar dóttur sinnar í þeim erfiðleikum. Þá eyddi Höskuldur stórum hluta af sumarleyfi sínu í að aðstoða við bygginguna svo hún gengi hraðar, sama gerðu feður okkar beggja. Þannig að samskipti okkar voru mikil á þessum árum bæði vegna sonarins sem hjá okkur bjó og foreldranna sem bjuggu í sama húsi. Eins og áður sagði var Höskuldur alltaf boðinn og búinn að veita aðstoð ef til hans var leitað, hann var heiðarlegur og traustur maður, hann var prinsippmaður eins og það er kallað, hann hefði trúlega mátt slaka örlítið á prinsippunum stöku sinnum, en þá hefði hann ekki verið hinn eini sanni Höskuldur Skarphéðinsson. Við Jóhanna þökkum þér, bróðir og mágur og synir okkar, Skarphéðinn og Börkur, góðum frænda fyrir samfylgdina og vonum að ef eitthvað tekur við af þessu lífi þá verði það þér mýkra.

Gunnar Pálmason.