Tvenna Edin Dzeko fagnar öðru marki sínu í gærkvöld í öðrum sigri Man. City á United í vetur. Vonbrigði United-manna leyna sér ekki í baksýn.
Tvenna Edin Dzeko fagnar öðru marki sínu í gærkvöld í öðrum sigri Man. City á United í vetur. Vonbrigði United-manna leyna sér ekki í baksýn. — AFP
Manchester City er enn með bestu stöðuna í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn eftir að liðið valtaði öðru sinni í vetur yfir granna sína í Manchester United í gærkvöld, 3:0.

Manchester City er enn með bestu stöðuna í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn eftir að liðið valtaði öðru sinni í vetur yfir granna sína í Manchester United í gærkvöld, 3:0. United-menn áttu ekki möguleika gegn grimmum bláliðum sem komust yfir á fyrstu mínútu og litu ekki um öxl eftir það. Þetta var sjötta tap United á Old Trafford í deildinni í vetur sem undirstrikar skelfilegan árangur liðsins undir stjórn Davids Moyes á heimavelli.

City er þremur stigum á eftir toppliði Chelsea en er með tvo leiki til góða og bestu markatöluna í deildinni. Liðið á nú fyrir höndum leiki sem gætu ráðið úrslitum í titilbaráttunni, gegn Arsenal á laugardaginn og gegn Liverpool á Anfield eftir rúmlega hálfan mánuð. Leikurinn á laugardaginn er ekki síður mikilvægur fyrir Arsenal sem gerði aðeins 2:2-jafntefli við Swansea í gær og á veika von um að landa meistaratitlinum. Raunar ættu Arsenal-menn frekar að hafa áhyggjur af að missa Meistaradeildarsæti sitt til Everton sem vann Newcastle 3:0 og er nú sex stigum á eftir Arsenal, með leik til góða.

Það stefnir í að ekki verði spilaðir Evrópuleikir á Old Trafford næsta vetur, ekki einu sinni í Evrópudeildinni. Þökk sé því að City varð deildabikarmeistari dugar reyndar 6. sæti til að komast í forkeppni Evrópudeildarinnar, en Tottenham er í því sæti með fimm stiga forskot á United.

Bosníumaðurinn Edin Dzeko þakkaði fyrir byrjunarliðssætið í gær með tveimur mörkum fyrir City og Yaya Touré innsiglaði sigurinn í lokin með sínu 17. marki í úrvalsdeildinni í vetur. Miðjumaðurinn er þriðji markahæstur í deildinni á eftir framherjum Liverpool. sindris@mbl.is