Fornleifafræðingur Birgitta Wallace rannsakaði mikið minjar um búsetu norrænna manna í L'Anse aux Meadows. Hún heldur fyrirlestur í dag.
Fornleifafræðingur Birgitta Wallace rannsakaði mikið minjar um búsetu norrænna manna í L'Anse aux Meadows. Hún heldur fyrirlestur í dag. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Minjar um búsetu norrænna manna í L'Anse aux Meadows í Nýfundnalandi, Vínlandi, benda til þess að þeir hafi haft þar fremur skamma viðdvöl, skemmri en 25 ár, að sögn Birgittu Wallace, þekkts fornleifafræðings í Kanada og Bandaríkjunum. Hún starfaði m.a. með Anne Stine og Helge Ingstad og fleirum að fornleifauppgreftri í L'Anse aux Meadows. Þar fundust minjar sem staðfestu búsetu norrænna manna á þessum slóðum í kringum árið 1000.

Birgitta kvaðst hafa hitt Anne Stine Ingstad á ráðstefnu í Svíþjóð 1964. Úr varð að Birgitta fór sama ár og starfaði við fornleifarannsóknirnar. Síðar starfaði Birgitta þar á vegum Parks Canada. Hún stjórnaði einnig uppbyggingu Víkingasafnsins sem er í L'Anse aux Meadows. Birgitta hefur ritað fjölda greina um fornleifarannsóknina í L'Anse aux Meadows og sögu víkinga í Norður-Ameríku. L'Anse aux Meadows er á heimsminjaskrá UNESCO.

Íslensk byggingarlist

Þarna fundust húsatóftir. „Þetta var mjög íslensk byggingarlist,“ sagði Birgitte um tóftirnar. „Hún gæti ekki verið neitt annað, ekki norsk, ekki dönsk hvað þá skosk. Hún er sannarlega íslensk frá þessum tíma.“ Húsunum er þó raðað á annan hátt en tíðkaðist hér. Ekki fundust nein útihús fyrir skepnur sem bendir til að norrænu mennirnir hafi ekki tekið með sér búsmala.

Við fornleifauppgröftinn fannst m.a. snælda, verkfæri sem ekki þekktist á meðal frumbyggja Ameríku á þeim tíma. Einnig fundust ummerki um járnvinnslu sem norrænir menn kunnu en frumbyggjarnir ekki. Þetta voru mikilvægar vísbendingar.

Sænski fornleifafræðingurinn Bengt Schönbäck hélt fornleifauppgreftrinum áfram og sagði Birgitta að rannsóknir hans hefðu reynst mjög mikilvægar við að staðfesta búsetu norrænna manna þarna.

Birgitta sagði að mikið hefði fundist af trémunum sem höfðu varðveist vel í mýri. Þeir bentu til að þarna hefði verið stunduð trésmíði. Einnig fundust dýrabein, einkum úr selum og hvölum, sem benda til þess að íbúarnir hafi veitt dýr af þessum tegundum sér til matar.

Hún sagði að fornleifarannsóknir sem gerðar hefðu verið bæði hér á landi og í Grænlandi undanfarin ár vörpuðu nýju ljósi á fornleifarannsóknina í L'Anse aux Meadows. Birgitta nefndi t.d. að þegar norrænir menn fundu Vínland hefði líklega verið aðeins 400-500 norrænir menn í Grænlandi. Húsin í L'Anse aux Meadows gátu rúmað 70-90 manns. Leiðangurinn þangað krafðist því mikils og var umfangsmikill.

Fyrirlestrar um Vínland

Birgitta heldur í dag fyrirlestur á vegum Þjóðræknisfélags Íslendinga og Þjóðminjasafns Íslands um landnám norrænna manna á Vínlandi. Þar mun hún m.a. fjalla um heimildir sem styðja frásagnir Eiríkssögu rauða og Grænlendingabókar um búsetu norrænna manna á Vínlandi fyrir rúmlega þúsund árum og um ferðalög þeirra um austurströnd Norður-Ameríku. Fyrirlesturinn heldur hún í sal Þjóðminjasafns Íslands. Hann hefst klukkan 12.00 og er öllum opinn.

Þá mun Birgitta einnig flytja erindi um rannsóknir sínar í Auðunarstofu á Hólum í Hjaltadal föstudaginn 28. mars klukkan 18.00 og í Háskólanum á Akureyri sunnudaginn 30. mars klukkan 14.00.