Víkverja brá þegar hann las í Sunnudagsmogganum um hlaupalag Íslendinga. Í grein Gunnþórunnar Jónsdóttur blaðamanns kemur fram að ökklar Íslendinga eru meira og minna skakkir og skældir.

Víkverja brá þegar hann las í Sunnudagsmogganum um hlaupalag Íslendinga. Í grein Gunnþórunnar Jónsdóttur blaðamanns kemur fram að ökklar Íslendinga eru meira og minna skakkir og skældir. Sennilega eru 25% Íslendinga með of mikinn innhalla á ökklanum þegar þeir hlaupa, en 45% með of mikinn úthalla. Ein tala var ekki nefnd í greininni, enda blasir hún við. Samkvæmt þessu eru aðeins 30% Íslendinga með það sem kallast „eðlilegt fótstig“. Þeir, sem stíga rétt til jarðar, eru því minnihlutahópur; það eðlilega svo fátítt að það verður óeðlilegt.

Leikritið Svanir skilja ekki er bráðskemmtilegt. Þar er hjónabandið tekið fyrir með skemmtilegum hætti. Vissulega er broddur í sýningunni. Fjallað er um það hvernig samskipti hjóna geta fest í fari, sem ógerningur virðist að komast upp úr. Ein athugasemd kallar á aðra og samtöl eru endurtekin nánast eins og fólk sé á sjálfstýringu. Aðeins þrír leikarar eru í verkinu. Ólafía Hrönn Jónsdóttir fer á kostum í verkinu, svipir hennar óborganlegir og allt hennar látæði. Margrét Vilhjálmsdóttir er ekki síðri í hlutverki hinnar heftu eiginkonu og Baldur Trausti Hreinsson á kostulega spretti í rullu eiginmannsins. Samleikur þeirra er til fyrirmyndar, sértaklega þegar þau eiga samtöl hálfkláraðra setninga þar sem þau skilja allt, en áhorfandinn getur aðeins klórað sér í hausnum og hlegið. Það er ekki síst að þakka skeleggri leikstjórn Charlotte Böving hvað leikritið gengur snurðulaust. Tímasetningar eru lykilatriði í gamanleik og þarna gengur allt upp.

Útgangspunktur leikritsins er eftirfarandi tölfræði: „Meðalskilnaðaraldur kvenna er 39,2 ár. 37% hjóna sem hafa verið gift í yfir 40 ár eru enn ástfangin og kyssast 7 sinnum í viku og elskast 99 daga á ári.“ Við þetta rifjuðust upp fyrir Víkverja orð vinkonu hans, sem sagði að eini maðurinn sem hefði skilið sig væri presturinn, sem hún fór til þegar hún skildi við manninn sinn.