Harmur Mótmæli ættingjanna í sendiráði Malasíu í Peking í gær.
Harmur Mótmæli ættingjanna í sendiráði Malasíu í Peking í gær. — AFP
Mörg hundruð reiðir og grátandi vinir og ættingjar farþeganna í malasísku þotunni sem hvarf fyrir skömmu fóru inn í sendiráð Malasíu í Peking í gærmorgun, slógust við öryggisverði og kröfðust svara.

Mörg hundruð reiðir og grátandi vinir og ættingjar farþeganna í malasísku þotunni sem hvarf fyrir skömmu fóru inn í sendiráð Malasíu í Peking í gærmorgun, slógust við öryggisverði og kröfðust svara. Fólkið sagðist ekki hafa fengið að heyra allan sannleikann um hvarf flugvélarinnar og örlög farþeganna.

„Sonur minn, sonur minn, skilið mér syni mínum!“ æpti Wen Wancheng, 63 ára gamall maður í hópnum. Að baki honum veifuðu sumir ættingjanna krepptum hnefa, aðrir drúptu höfði og snöktu. Flugfélagið, Malaysia Airlines, hefur boðið ættingjum farþeganna skaðabætur en margir hafa gagnrýnt að ættingjum skyldi hafa verið sagt með sms-boðum að þotan væri talin af.

Enn er ekki vitað neitt um það hvað olli því að vélin breytti skyndilega um stefnu en hún var á leið til Peking frá Kuala Lumpur í Malasíu með alls 239 manns innanborðs. Engin boð bárust frá flugmönnunum um að eitthvað væri að. Leit að flakinu hefur verið frestað vegna veðurs en talið er víst að þotan hafi brotlent á sunnanverðu Indlandshafi, vestan við Ástralíu.

Talið er að leit að braki verði ekki hafin á ný fyrr en í dag. Mikill vindur var á svæðinu í gær, hellirigning og lágskýjað og var því talið hættulegt að halda áfram. Leitarsvæðið er stórt og afskekkt, þar er mikið hafdýpi. Það minnkar vonir um að hægt verði að finna hinn svonefnda svarta kassa með upplýsingum sem gætu varpað ljósi á atburðinn. kjon@mbl.is