Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Ný skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið sýnir mikla fylgissveiflu til Samfylkingarinnar í Reykjavík. Er Samfylkingin orðin stærsti stjórnmálaflokkurinn í borginni.

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Ný skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið sýnir mikla fylgissveiflu til Samfylkingarinnar í Reykjavík. Er Samfylkingin orðin stærsti stjórnmálaflokkurinn í borginni. Fengi flokkurinn 28% atkvæða og fimm fulltrúa kjörna ef kosið væri nú til borgarstjórnar. Meirihlutinn í borgarstjórn heldur velli, hefur níu borgarfulltrúa og fengi áfram níu.

Björt framtíð er næststærsti flokkurinn samkvæmt könnuninni, með 24,8% fylgi og fjóra borgarfulltrúa. Það er talsvert minna fylgi en Besti flokkurinn fékk í borgarstjórnarkosningunum fyrir fjórum árum. Tapast tveir borgarfulltrúar.

Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi, fær 24,4% og fjóra borgarfulltrúa, en fékk í kosningunum árið 2010 33,6% atkvæða og fimm menn. Flokkurinn hefur einnig tapað fylgi frá síðustu könnun Félagsvísindastofnunar í febrúar, en þá mældist fylgið 28,4%.

Fylgi Pírata og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er mjög svipað. Fylgi Pírata mælist 9,1% sem dugir fyrir einum borgarfulltrúa. Fylgi VG er 8,6% sem einnig dugir fyrir borgarfulltrúa. Nánast engin breyting er á fylgi þessara flokka frá síðustu könnun.

Nýtt framboð Dögunar og Framsóknarflokkurinn eru úti í kuldanum og komast vart á blað, eru með 2,8% og 2% fylgi.

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, fagnaði niðurstöðum könnunarinnar í samtali við Morgunblaðið í gær. Taldi hann hana sýna að borgarbúar vildu stöðugleika og festu við stjórn borgarinnar.

Könnun Félagsvísindastofnunar var gerð dagana 17. til 23. mars. Var bæði um netkönnun og símakönnun að ræða. Svarhlutfall var 60%.

Skoðanakönnun 16-17