Eyrún Ingvaldsdóttir fæddist í Kópavogi 9. nóvember 1967. Hún lést 19. mars á Landspítalanum í Reykjavík.

Eyrún var dóttir hjónanna Ingvalds Rögnvaldssonar, f. 18.3. 1931 og Hafdísar Gústafsdóttur, f. 13.9. 1937. Ásamt Eyrúnu eiga þau Þóru Ingvaldsdóttur, f. 17.2. 1957, kvænt Pétri Kristjánssyni, f. 31.7. 1952, Hauk Ingvaldsson, f. 5.8. 1959, kvæntur Henny Kartika Sary, f. 20.4. 1971, Hörð Ingvaldsson, f. 12.10. 1960, d. 18.12. 2010, eftirlifandi eiginkona hans er Sigrún Hallsdóttir, f. 29.9. 1960 og Barða Ingvaldsson, f. 18.3. 1962, sambýliskona hans er Valgerður Ragnarsdóttir, f. 4.4. 1960. Eyrún giftist 4.5. 2008 Sigurði Scheving Gunnarssyni, f. 22.9. 1966. Foreldrar Sigurðar eru Sigurlína Scheving Elíasdóttir, f. 5.7. 1950 og Jón Haukur Eltonsson, f. 21.5. 1948, d. 9.12. 2009. Börn Eyrúnar og Sigurðar eru: 1) Elfa Scheving Sigurðardóttir, f. 9.5. 1990, sambýlismaður hennar er Ari Karlsson, f. 15.8. 1978. 2) Andri Scheving Sigurðsson, f. 25.10. 1994. Eyrún ólst upp í Kópavogi og bjó alla sína tíð í Kópavogi. Hún útskrifaðist frá Menntaskólanum í Kópavogi árið 1987 og hóf eftir það störf hjá Íslensk-Erlenda verslunarfélaginu og starfaði innan fyrirtækisins sem sameinaðist öðrum fyrirtækjum og endaði undir nafni Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar. Eyrún útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík árið 2008.

Útför Eyrúnar fer fram frá Digraneskirkju í Kópavogi í dag, 26. mars 2014, og hefst kl. 13.

Minningar hrannast upp er ég í dag kveð elskulega tengdadóttur mína.

Hún háði stranga baráttu við illvígan sjúkdóm, en ég vildi trúa til hinstu stundar að hún hefði betur. Ekki fer allt eins og við óskum í þessu lífi.

Mín fyrstu kynni af Eyrúnu voru er hún kom sem unglingur inn á heimili okkar Nonna með Sigurði, elsta syni okkar.

Aldrei hefur fallið skuggi á þessi kynni okkar, heldur verið gagnkvæm virðing og væntumþykja. Ekki var annað hægt en að láta sér lynda við Eyrúnu svo ljúfa og þægilega konu sem hún var. Bjuggum við saman um tíma og bar aldrei skugga á. Eyrún var sérlega bóngóð og er mér í fersku minni hversu sterk og hjálpleg hún var þegar Nonni lést. Fjölskyldan var einstaklega samhent og eiga þau þakkir skildar fyrir hversu vel þau hafa stutt mig á erfiðum tímum en það var ekki síst Eyrún sem sýndi mér ást og umhyggju.

Eyrún var mér sem dóttir en kynni okkar hafa náð yfir 30 ár og þakka ég af alhug allar þær dýrmætu stundir er áttum við saman.

Sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til foreldra Eyrúnar.

Elsku Sigurður, Elfa og Andri,

megi góðar vættir styrkja ykkur og vernda á þessum erfiðu tímum. Trú mín er sú að afi Nonni hafi tekið vel á móti henni og vefji hana örmum sínum.

Far þú í friði, friður guðs þig blessi.

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Sigurlína Scheving Elíasdóttir (Kiddý).

Elskuleg vinkona okkar, Eyrún Ingvaldsdóttir, hefur kvatt okkur í hinsta sinn eftir snarpa en hetjulega baráttu við erfiðan sjúkdóm. Minningarnar streyma fram. Samverustundirnar hafa verið ófáar og ómetanlegar og ljóst er að fastir liðir í daglegu amstri eiga eftir að verða fylltir tómarúmi og minningin um yndislega konu mun ávallt fylgja okkur og börnunum okkar.

Söknuðurinn er afar sár en hjörtu okkar eru full þakklætis fyrir einstaka vináttu.

Elsku Siggi, Elfa, Ari, Andri og aðrir aðstandendur. Hugur okkar er hjá ykkur og við biðjum drottin guð um að veita ykkur styrk.

Hjartans vinkona, góða ferð.

Aðalheiður og Birgir.

Eyrún er dáin. Það er sárt að meðtaka þá frétt. Það er ótrúlegt hvað þessi illvígi sjúkdómur sem krabbamein er getur unnið hratt á heilsu fólks. Ekki eru nema örfáar vikur síðan Eyrún var útskrifuð úr meðferð við brjóstakrabba, hvað hún Eyrún mín var glöð þegar hún gat sagt okkur þessar fréttir. Það eru ekki nema þrjár vikur síðan ég sagði Eyrúnu hversu vel hún liti út og glampi lífsgleðinnar var kominn í augu hennar á ný. Svo koma þessar fréttir að sjúkdómurinn hafi tekið sig upp að nýju á öðrum stöðum í líkamanum og ætlaði Eyrún að vinna næstu orustu líka. Því miður varð það ekki raunin og var þessi orrusta mjög snörp. Eyrún bar sig vel þrátt fyrir að innst inni hafi hún vitað í hvað stefndi og var æðruleysi og ró í hennar fasi þessa síðustu daga eins og alla tíð. Vinskapur Eyrúnar var mér mjög kær og var hún trúnaðarvinur minn alla tíð og gat ég treyst á hana hvort sem um persónuleg eða vinnutengd mál var að ræða í hartnær 23 ár. Minningar eru margar frá þessum árum og of langt að fara yfir þær hér. Sú minning sem mér er kærust er minningin um staðfastan, trygglyndan og trúan vin sem hún Eyrún mín var. Ég bið góðan Guð að styrkja Sigga, Elfu, Andra, Ara og aðra ættingja og vini á þessu erfiðu tímum. Farðu í friði, elsku vinkona, þín er sárt saknað. Minning þín lifir.

Jóhann Sævar Kjartansson.

Kær vinkona mín og samstarfsfélagi yfirgaf þennan heim fljótt, alltof fljótt. Við sem eftir sitjum trúum ekki að þessi jákvæða, skemmtilega og duglega kona skuli vera farin. Eftir sitja minningar um frábæran einstakling. Við gengum í gegnum margt saman á okkar samstarfstíma í Ölgerðinni. Við unnum náið saman í mörgum stórum og erfiðum verkefnum. Mikið var unnið og margar helgar og kvöld fóru í pælingar og hugmyndavinnu. Eitt sem einkenndi Eyrúnu var ósérhlífni, orðið nei var tæplega til í hennar orðaforða. Ef upp kom eitthvert ástand og maður spurði Eyrúnu hvort hún gæti komið var svarið alltaf „Já, hvenær er mæting?“ Engin verkefni voru henni óviðkomandi og frasinn „Þetta er ekki mín deild“ heyrðist ekki frá henni. Hún var líka mjög bjartsýn og hafði mikla trú á verkefnunum sem deildin stóð fyrir. Hún hafði trú á dagsetningum sem aðrir sögðu að myndu ekki ganga, t.d. þegar við fórum í gangsetningu á nýju tölvukerfi. Ef Eyrún var búin að bíta eitthvað í sig þá lagði hún sig alla fram um að láta hlutina ganga upp og hvetja fólkið áfram í kringum sig. „Þetta verður ekkert mál“ heyrðist oft hjá henni.

Ég er maður sem hleypir ekki fólk svo glatt að sér en Eyrún náði inn fyrir skelina. Við unnum saman í átta ár og áttum frábærar stundir á þeim tíma. Í fyrra fórum við saman á ráðstefnu til New Orleans, lærðum og lékum okkur. Einnig hittumst við eina kvöldstund í Alicante síðastliðið vor ásamt mökum okkar og Elfu og Ara. Það var glatt á hjalla í okkar hópi, mikið hlegið að því hvað ferðin frá Barcelona til Torrevieja tók langan tíma, Eyrún hafði gleymt veskinu sínu á leiðinni og varð Siggi að snúa við eftir að hafa keyrt í einhverja klukkutíma. Veskið fannst og Siggi hélt áfram ótrauður á leiðarenda, klukkustundum seinna. Siggi og Eyrún voru órjúfanleg heild, flott, samhent hjón. Hugur okkar Tótu er hjá Sigga, Elfu, Andra og fjölskyldu, okkur skortir orð.

Hafsteinn Ingibjörnsson.

Ég kveð hér á alltof stuttum tíma annan vin og samstarfsmann til 25 ára. Ég kynntist Eyrúnu þegar Danól keypti Íslensk-Erlenda árið 1989 og fyrirtækin voru sameinuð. Eyrún var á skrifstofunni og gekk þar í öll störf eins og henni var lagið. Æskuástin hennar Siggi var aldrei langt undan þó ekki ynni hann með okkur. Það var fljótt ljóst að þarna voru ung hjón sem ætluðu sér að verja ævinni saman. Börnin þeirra, Elfa og Andri, komu á næstu árum og hafa þau bæði unnið með okkur í Ölgerðinni. Ari tengdasonur starfar hjá Ölgerðinni og í gegnum starf sitt hefur Siggi verið með annan fótinn hjá okkur og sinnt loftræstikerfunum. Þær eru því langar og sterkar ræturnar sem Eyrún og fjölskylda eiga með okkur í Ölgerðinni og áður Danól.

Líf Eyrúnar og Sigga hefur mikið snúist í kringum börnin. Ótal sinnum fóru þau um landið þvert og endilangt á íþróttamót þar sem þau voru að keppa og í einhverjum tilvikum þurftu þau að skipta liði því annað barnið var að keppa fyrir norðan en hitt fyrir austan. Alltaf var þetta gert með bros á vör og væntumþykju. Þau Elfa og Andri eiga örugglega margar góðar minningar um móður sína á þessum ferðalögum.

Tölvur og tölvumál lágu alltaf vel fyrir Eyrúnu. Hún varð fljótt lykilmanneskja í þeim efnum. Eftir að Danól stækkaði þurfti að horfa meira til innkaupa og flutninga og var Eyrún fyrsta manneskjan sem ég fékk með mér í það verkefni. Úr varð vörustjórnunar- og upplýsingatæknideild Danól enda var mikilvægi Eyrúnar í upplýsingatæknimálum orðið enn meira á þessum tíma. Eyrún ákvað að sækja sér menntun í rekstri og vörustjórnun og kláraði B.Sc. í vörustjórnun frá HR samhliða fullu starfi og uppeldi tveggja barna. Ég reyndi nokkrum sinnum að fá hana til að slaka annaðhvort á náminu eða vinnunni en það varð engu tauti við hana komið. Hún ætlaði sér að klára þetta á réttum tíma eins og aðrir samnemendur hennar sem þó voru flestir bara í námi án vinnu. Að sjálfsögðu kláraði hún svo námið með sóma og sinnti vinnunni af alúð.

Hógværð og traust einkenndu framkomu Eyrúnar. Hún var hress og skemmtileg en þegar kom að vinnunni þá var það fagmennskan og vinnusemin sem réð ríkjum. Það var hægt að leita til hennar með allt. Ef hún gat ekki svarað sjálf þá fann hún einhvern sem gat það. Orðin „Þetta er ekki mín deild“ voru ekki til í hennar orðaforða.

Þegar við hófum innleiðingu á nýju vöruhúsakerfi Ölgerðarinnar flutti Eyrún sig alfarið í tölvumálin og hún var lykilmanneskja í vel heppnaðri innleiðingu á nýju viðskiptakerfi sem er eitt umfangsmesta innleiðingarverkefni á Íslandi. Sú innleiðing ber Eyrúnu og samstarfsfólki hennar vitni um fagleg vinnubrögð og manneskjulega samvinnu sem endurspeglaði sig í frábæru samstarfi við lykilbirgja og veit ég að okkar helstu samstarfsaðilar sakna hennar persónu og samstarfs mikið.

Við Inga sendum Sigga, Elfu, Andra, Ara og öðrum fjölskyldumeðlimum okkar dýpstu samúðarkveðjur og megi þau finna styrk til að takast á við þetta ótímabæra fráfall Eyrúnar vinkonu okkar.

Pétur Kristján Þorgrímsson.

Kær samstarfsfélagi og vinur er látin en bjartar minningar um hógværa og trygglynda konu mun lifa áfram í hugum starfsmanna Ölgerðarinnar.

Eyrún Ingvaldsdóttir réðst til starfa hjá Danól árið 1989 og hefði því átt 25 ára starfsafmæli síðar á árinu. Fljótlega tók hún að annast hin ýmsu tölvu- og tæknimál fyrirtækisins og varð hún ein af máttarstólpum þeirra framfara sem fyrirtækið stóð fyrir allt til dagsins í dag. Einnig var hún drifkraftur starfsmannafélagsins á upphafsárum þess.

Þrátt fyrir hógværðina hafði Eyrún mikinn metnað fyrir hönd fjölskyldu sinnar og fyrirtækisins. Um tíma sótti hún háskólanám í iðnrekstrarfræði, samhliða náminu stundaði hún fulla vinnu og sinnti fjölskyldu og áhugamálum barna sinna af alúð. Enginn nema hún sjálf fékk að finna fyrir álaginu sem hvíldi á herðum hennar á þessum tíma. Árið 2007 útskrifaðist hún stolt með B.sc. gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

Í einkalífi sínu var Eyrún gæfukona. Hún og Siggi voru samstiga í öllu því sem þau tóku sér fyrir hendur. Börnin tvö, Elfa og Andri, hafa bæði starfað hjá Ölgerðinni samhliða námi og þykir mér vænt um að sjá að þau hafa erft hógværðina og marga aðra góða kosti móður sinnar. Einnig er Ari, sambýlismaður Elfu, einn af okkar lykilstarfsmönnum.

Eyrún var ekki mikið fyrir að láta á sér bera innan Ölgerðarinnar, en hins vegar þekktu hana nánast allir í fyrirtækinu því þræðir þekkingar hennar lágu víða. Hún tók ávallt vel í óskir fólks, jafnan hjálpleg og var manna áreiðanlegust. Orðin „Þetta er ekki mín deild“ voru ekki til í hennar orðaforða. Þegar hún vildi það viðhafa þá gat hún verið örlítið kaldhæðin og verið með hnyttinn tilsvör á réttum augnablikum, en ávallt var hún glöð og hress í vinahópi.

Eyrún veiktist alvarlega síðastliðið vor, hún háði hetjulega baráttu við krabbameinið. Í janúar síðastliðnum var hún útskrifuð og lífið brosti við henni. Hún var farin að koma aftur af krafti til vinnu, en fljótt skipast veður í lofti og fyrir u.þ.b. 4 vikum síðan kenndi hún sér aftur meins sem á endanum náði yfirhöndinni.

Að leiðarlokum er okkur efst í huga söknuður og þakklæti fyrir áralanga vináttu og samskipti sem aldrei bar skugga á. Það var mér mikill heiður að fá að kynnast Eyrúnu. Öll voru okkar samskipti á einn veg, hún traustur samstarfsmaður, hrein og bein.

Fjölskyldur, samstarfsmenn og vinir kveðja nú yndislega manneskju með söknuði og þakklæti fyrir að hafa fengið að njóta samvistanna með henni. Við biðjum þeim Guðs blessunar og vottum þeim okkar dýpstu samúð.

Frá vinargröf er gangan fáum létt

og guð einn veit og telur sorgarsporin,

en vonin á í hverju hjarta blett,

í hennar skjóli er gleðin endurborin.

(Sig. Júl. Jóhannesson)

Fyrir hönd Ölgerðarinnar,

Októ Einarsson.