Helga Þóra Th. Kjartansdóttir fæddist 26. mars 1945. Hún lést 10. mars 2014. Útför Helgu Þóru fór fram 18. mars 2014.

Við fráfall Helgu Þóru hvarflar hugurinn til áranna 1960 til 1962 þegar einlæg vinátta og væntumþykja okkar á milli þróaðist þannig að aldrei féll skuggi á þótt samgangur væri nánast enginn síðustu áratugina.

En þegar við hittumst af tilviljun á förnum vegi trúi ég að hún hafi fundið eins og ég að allt var eins og áður. Við áttum þessa gagnkvæmu væntumþykju og vináttu enn og hétum því jafnan að hittast aftur sem fyrst og rækta betur en verið hafði.

Nú hefur hún kvatt og tíminn til þess farinn frá okkur. Við unnum saman þessi fyrrnefndu ár á símanum á Patró, samveran var dagleg. Ekki bara í vinnunni, frístundirnar voru líka sameiginlegar í glöðum hópi vinkvenna á líkum aldri. Sveitaböllin voru stíft stunduð á þessum árum, við vorum skotnar í strákum og kannski einhverjir í okkur.

Við deildum leyndarmálunum, hún var prakkari í jákvæðri merkingu þess orðs og við skemmtum okkur alltaf konunglega. Kæti hennar var einlæg og dillandi hláturinn get ég enn heyrt hljóma innra með mér eins og það hefði gerst í gær.

Við stofnuðum saumaklúbbinn okkar Patrónur, sem enn lifir, en stofnfélagarnir eru of margir horfnir, og þar á meðal þrjár þær yngstu úr hópnum, Hildigunnur, Sólrún og nú Helga Þóra. Síðast Sísí og líka Ella Jóhanns, sem var sjálfkjörin í hópinn þegar starfsemin flutti með okkur til Reykjavíkur. Í dag eru tíu virkar, þar af aðeins þrjár af stofnendum. Allar munum við Helgu Þóru og minnumst hennar með þakklæti fyrir allar góðu og græskulausu samverustundirnar.

Vinátta okkar Helgu Þóru byggðist líka á traustri vináttu foreldra minna og Hrefnu og Kjartans foreldra hennar og Tótu móðursystur hennar, sem hún bjó hjá á þessum árum.

Þegar við fluttum suður flestar 1962 og 1963 héldum við áfram að hittast. Ég minnist sérstaklega eins klúbbsins þegar hist var á heimili foreldra hennar og Hrefna spáði ýmsu skemmtilegu fyrir hverri og einni okkar við mikla kæti og hlátrasköll hópsins, og örugglega bjartri framtíð fyrir okkur allar. Ef örlað hefur á einhverju öðru var það allavega látið ósagt. Við vorum kannski ekki alveg viljugar að trúa öllu, sérstaklega ef einhver ljóshærður var kominn í bollann hjá einhverri sem var nú óvart skotin í einum dökkhærðum.

Á þessum árum lá leið Helgu Þóru í hjúkrunarfræðinám og hún heltist úr hópnum okkar.

Við fundum flestar okkar ævifélaga, eignuðumst börn og buru og vorum uppteknar af mismunandi viðfangsefnum.

Í lífi okkar allra hafa skipst á skin og skúrir eins og gerist, en vissulega eru stóru gjafirnar og þakkarefnin mörg.

Með innilegri samúð er hugur minn í dag hjá börnum hennar, Hrefnu, systkinum og öðrum aðstandendum.

Guð blessi minningu hennar.

Guðrún Gísladóttir.