Árangurslítið Fulltrúar framhaldsskólakennara á fundi í gær.
Árangurslítið Fulltrúar framhaldsskólakennara á fundi í gær. — Morgunblaðið/Þórður
Annasamt var í húsnæði ríkissáttasemjara í gær en alls funduðu samninganefndir fjölmargra kennarasambanda með fulltrúum ríkis og sveitarfélaga.

Annasamt var í húsnæði ríkissáttasemjara í gær en alls funduðu samninganefndir fjölmargra kennarasambanda með fulltrúum ríkis og sveitarfélaga. Tveir dagar eru nú liðnir af annarri viku verkfalls kennara og stjórnenda í framhaldsskólum sem funduðu með samninganefnd ríkisins í gær.

Útlitið eftir fundinn ekki gott

Ólafur Hjörtur Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum, segir útlitið eftir fundinn ekki nægilega gott. „Það gerðist lítið á fundinum sjálfum. Okkur finnst ríkisvaldið sýna þessu máli ákveðinn tómleika í ljósi þess að nú er að líða önnur vika af verkfalli í framhaldsskólum.“

Félag háskólakennara átti sinn fyrsta fund hjá ríkissáttasemjara í gær. Jörundur Guðmundsson, formaður Félags háskólakennara, segir fundinn aðallega hafa verið til þess að ræða viðræðuáætlun. „Þetta fór bara vel af stað og það var lögð fram ákveðin vinnuáætlun. Menn voru almennt ánægðir með daginn í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem þó er uppi,“ sagði Jörundur. Í síðustu viku samþykktu háskólakennarar verkfallsboðun ef ekki næðust viðunandi kjarasamningar.

Grunnskólakennarar vilja svör

Kjaradeilu grunnskólakennara var vísað til ríkissáttasemjara hinn 18. mars síðastliðinn en ekki er þó farið að ræða boðun verkfallsaðgerða.

Einn fundur hefur þegar verið haldinn og er annar á dagskrá í vikunni. bmo@mbl.is