Uppákoman í Kielce í Póllandi þar sem þjálfari pólska liðsins, Talant Dujshebaev, sleppti sér algjörlega er einhver sú ótrúlegasta sinnar tegundar í heimi íþróttanna.
Uppákoman í Kielce í Póllandi þar sem þjálfari pólska liðsins, Talant Dujshebaev, sleppti sér algjörlega er einhver sú ótrúlegasta sinnar tegundar í heimi íþróttanna. Að þjálfari gangi að kollega sínum og slái hann eftir leik og hagi sér síðan eins og alþjóð varð vitni að á blaðamannafundinum hlýtur að vera einsdæmi. Guðmundur Þ. Guðmundsson náði furðanlega vel að halda ró sinni en auðséð var að honum var brugðið. Guðmundur lýsti atburðarásinni vel í viðtali hér í Morgunblaðinu í gær.

Aganefnd evrópska handknattleikssambandsins gaf í gær Kielce og Dujshebaev frest til dagsins í dag til að skila greinargerð og í framhaldi af því kemur í ljós hvaða refsingu rússneski Spánverjinn fær. Ómögulegt er að átta sig á hvernig hún verður, ekki síst eftir furðulegan úrskurð EHF á dögunum þar sem hin svartfellska Milena Knezevic slapp með tveggja leikja bann eftir að hafa skallað andstæðing í höfuðið.

Að slá annan þjálfara „á versta stað“ eins og Guðmundur lýsti því, sýna af sér framkomu eins og á fundinum og bjóða svo kolleganum í slagsmál úti á bílaplani. Þeir hjá EHF klóra sér eflaust í hausnum yfir því hvernig eigi að bregðast við svona löguðu. Setja þeir hann í eins leiks eða jafnvel tíu leikja bann?

Talant Dujshebaev var einn albesti handknattleiksmaður heims af sinni kynslóð. Geysilega hæfileikaríkur og útsjónarsamur leikmaður. Hann þykir líka afar fær sem þjálfari og Ólafur Stefánsson hefur borið honum sérstaklega vel söguna eftir að hafa leikið með honum og síðan undir hans stjórn hjá Ciudad Real á Spáni. En skapið er hans akkilesarhæll og hefur áður hlaupið með hann í gönur. Hressilega.