Dóra Ingvarsdóttir fæddist 30. október 1936. Hún lést 11. mars 2014. Útför Dóru fór fram 20. mars 2014.

Það er margt sem fer um hugann þegar ég hugsa til hennar Dóru frænku minnar, allar stundirnar sem við áttum og samræðurnar um allt milli himins og jarðar, hvort sem við sátum efst í Fljótshlíðinni og dáðumst að jöklinum hennar ömmu eða lásum Hávamálin í bleika sófanum í Stapaselinu. Við eyddum löngum stundum við ljóðalestur allt frá því er ég gat stautað mig í gegnum fáein orð og kenndi hún mér að meta og skilja ljóð og þá duldu meiningu sem oft liggur á milli lína.

Dóra var mikill listunnandi, en einnig sá hún ætíð fegurðina í öllu í kringum sig og talaði um allt og alla af virðingu og alúð. Jóhanna Kristjánsdóttir frá Kirkjubóli orti þetta ljóð og finnst mér það lýsa henni Dóru svo vel:

Góðum mönnum gefin var

sú glögga eftirtekt.

Að finna líka fegurð þar,

sem flest er hversdagslegt.

Dóra hvatti mig í sífellu áfram í allri listsköpun hvort sem var að teikna og mála eða semja ljóð og er hún sú eina sem hefur heyrt öll þau ljóð sem ég hef samið. Á menntaskólaárunum kom ég reglulega til þeirra Dóru og Óla, borðaði með þeim í hádeginu og gekk með Pílu. Þá gafst líka góður tími til skrafs og eru þau mér ómetanleg ráðin sem ég fékk frá þeim báðum. Alla tíð hef ég haft stuðning frá þeim og alltaf fann ég að þau fylgdust með mér og okkur fjölskyldunni. Andreu þótti sérstaklega vænt um hana Dóru bestu eins og hún segir og þegar var frjáls ritun í skólanum um daginn valdi hún að skrifa um hana Dóru frænku sína: „Dóra besta frænka í heimi. Dóra gaf mér mjög fallega hluti. Dóra prjónaði fallegt á mig. Dóra leyfði mér að fara með hundinn sinn út að ganga. Dóra leyfði mér að leika við Pílu.“

Kveð þig Dóra mín með þessu stutta ljóði, þótt söknuðurinn sé sár eru minningarnar ljúfar, takk fyrir allt.

Allar stundir okkar hér

er mér ljúft að muna.

Fyllstu þakkir flyt ég þér

fyrir samveruna.

(Har. S. Mag.)

Vil að lokum senda Þórunni, Matta, Berglindi og Óla samúðarkveðjur og hlýhug.

Sólrún Bragadóttir.

Þegar litið er aftur í tímann verður manni ósjálfrátt hugsað til fólks sem hefur haft meiri áhrif á mann en annað. Einn slíkur aðili var Dóra Ingvarsdóttir. Ég kynntist henni fyrir röð af tilviljunum, varð vinur hennar og er enn með bankahólf nr. 26 sem hún lét mig hafa, þessi elska. Blessuð sé minning hennar. Ég votta öllum aðstandendum hennar samúð mína.

Í skuggahúmi sálin döpur

syrgir harmi slegin.

Ofin gleðibliki gæskumynda

göngusporanna liðnu.

Í sorgarbirtu í stjörnuljóma

sólargeisla hryggðar.

Er hamingjutár í hjartatrega

í hvarfaflóru foxrtíðar.

Í englaveröld hnýpinn gengur

umvafinn elskuríkum yl.

Í föðurarmi finnur þrautalíkn

frjáls af æviviðjum

(Jóna Rúna Kvaran)

Jóna Rúna Kvaran.