Fjölhæf Borghildur Indriðadóttir í sýningu SIGNA, Club Inferno, í leikhúsinu Volksbühne. Auk þess að leika og koma að verkefnum SIGNA stundar Borghildur meistaranám í arkítektúr í Berlín.
Fjölhæf Borghildur Indriðadóttir í sýningu SIGNA, Club Inferno, í leikhúsinu Volksbühne. Auk þess að leika og koma að verkefnum SIGNA stundar Borghildur meistaranám í arkítektúr í Berlín. — Ljósmynd/Erich Goldmann
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Kanadamaðurinn Eric Clinton Newman, sem tók sér klámmyndaleikaranafnið Luka Rocco Magnotta, var handtekinn í Berlín í júní árið 2012, grunaður um að hafa myrt kínverskan námsmann í Kanada, limað hann í sundur og sent líkamshlutana í pósti á skrifstofur kanadískra stjórnmálaflokka og grunnskóla. Newman mun auk þess hafa tekið morðið upp á myndband, líkt í því eftir þekktum Hollywood-myndum, m.a. American Psycho og Basic Instinct , og birt myndbandið á netinu. Hafa fjölmiðlar vestan hafs kallað Newman „kanadíska brjálæðinginn“ og skal engan undra. Newman er fyrrverandi klámmyndaleikari og fyrirsæta og bíður þess nú að réttað verði yfir honum í Kanada á þessu ári þar sem hann hefur verið ákærður. Grunur leikur á því að Newman hafi framið annað morð, myrt 66 ára gamlan bankamann í Hollywood þar sem það þykir afar keimlíkt morðinu á kínverska námsmanninum, Lin Jun.

Þetta hroðalega morðmál er efniviður leikverks, MEAT , sem frumsýnt verður í Schaubühne Studio í Berlín 3. apríl nk. en Schaubühne leikhúsið hefur lengi verið meðal þeirra virtustu í Evrópu. MEAT er óhefðbundið leikhúsverk, tíu sólarhringa langur gjörningur og innsetning sem lýkur 13. apríl, 240 klst. eftir að það hófst. Höfundur verksins er Svíinn Thomas Bo Nilsson og tvær íslenskar konur komu að gerð þess, Borghildur Indriðadóttir sem er einn framleiðenda og leikara verksins og leikkonan Olga Sonja Thorarensen sem leikur einnig í því. Nilsson er konseptlistamaður, arkitekt og leikmyndahönnuður og var fyrir tveimur árum útnefndur einn athyglisverðasti leikmyndahönnuður Þýskalands. Borghildur er í meistaranámi í arkitektúr í listaháskóla í Berlín, Universität der Künste Berlin. Blaðamaður ræddi við hana í vikunni um MEAT .

Fara aldrei úr húsi

– Hvernig komuð þið Olga að þessu verkefni og hvers vegna?

„Olga Sonja kom til Berlínar til að leika í sýningunni Club Inferno sem leikhópurinn SIGNA setti upp í Volksbühne, en Thomas Bo hefur verið einn listrænna stjórnenda SIGNA sl. átta ár. Ég var þá að vinna á vinnustofu Ólafs Elíassonar í Berlín og fór að aðstoða Olgu Sonju og Thomas við uppsetningu þessarar sýningar, þessi samvinna leiddi til þess að ég fór að leika í sýningunni. Eftir að sýningum lauk ákvað Thomas að slíta samstarfi við SIGNA og þróa nýtt verk með okkur Olgu Sonju ásamt Julian Wolf Eicke, þýskum sviðsmyndahönnuði,“ segir Borghildur.

– Þetta er 240 klst. langur leikhúsgjörningur, er ekkert hlé allan þennan tíma eða hvernig fer þetta fram?

„Við erum með yfir 60 leikara í sýningunni, fjöldi þeirra er menntaðir atvinnuleikarar en við vinnum líka með fólki úr mismunandi störfum, t.d. fatafellum, barþjónum og íþróttamönnum. Við sem leikum í verkinu verðum þarna í 240 klukkustundir án þess að fara úr húsi og án þess að fara úr karakter. Áhorfandinn getur komið inn allan sólarhringinn og maður er í þeim aðstæðum sem leikari að vakna og sjá áhorfanda horfa á sig.“

Myndbrot úr borgarlífinu

Borghildur segir sýninguna eins konar myndbrot úr borgarlífinu. „Við höfum byggt upp heimili, verslanir, netkaffi, klúbb, skyndibitastað og gamla Berlínar-knæpu. Undanfarnar vikur höfum við safnað húsgögnum, byggingarefnum og leikmunum. Við höfum meðal annars fengið að tæma nokkur dánarbú þar sem erfingjar annaðhvort fundust ekki eða höfðu ekki áhuga á innanstokksmunum. Út frá þessum munum hefur Thomas skapað persónur og fjölskyldur sem tengjast allar á einhvern hátt. Æfingarferlið er fólgið í því að kynnast borgarumhverfinu og að fara í karakter inn á alls kyns staði inn í borginni og í úthverfum, knæpur, strippbúllur, íbúðir til leigu og fleira. Það verður leikið af fingrum fram en allir leikararnir eru búnir að móta mjög skýra karaktera, þeir vita nákvæmlega hvaða bakgrunn þeir hafa, hvar þeir hafa alist upp og við hvaða aðstæður,“ segir Borghildur.

Sýningin mun fara fram á netinu á sama tíma og í Schaubühne, m.a. á Facebook- og Twitter-síðum leikara. „Meðan á sýningunni stendur verða allir leikarar tengdir í gegnum heimasíðu sem verður kynnt á schaubuhne.de í næstu viku. Í gegnum þessa heimasíðu er hægt að vera með „live stream“ og spjalla við leikarana hvaðan sem er úr heiminum.“ segir Borghildur.

Nákvæm eftirlíking af íbúð Newman

– Verkið er byggt á þessu hryllilega morðmáli. Veistu hvað varð til þess að Thomas Bo Nilsson ákvað að gera úr þessu leikhúsverk og hvaða leið fer hann í frásögn sinni?

„Eric Clinton Newman var handtekinn á netkaffihúsi í hverfinu Neuköln í Berlín ekki langt frá íbúð Thomasar. Ég held að þessi nálægð við þetta skelfilega ofbeldi hafi kveikti forvitni Thomasar. Julian Eicke benti okkur á mynd af íbúð Newman í Montreal, þar sem morðið á að hafa átt sér stað. Myndirnar sýna einmanalega stúdíóíbúð, nákvæm eftirlíking af henni er meðal þeirra rýma sem við setjum upp í Studio í Schaubühne. Við setjum upp einskonar völundarhús. Áhorfendurnir ganga inn í ákveðinn heim, þeir fara inn í íbúðir, koma við á netkaffi, geta keypt sér að borða á skyndibitastað og fara inn á strippbúllu. Þeir tala við fólkið sem þeir hitta án þess að vita nákvæmlega hverjir eru leikarar og hverjir ekki,“ segir Borghildur.

– Nú kallast verkið MEAT , er þar verið að vísa til þessarar slátrunar og einnig fyrra starfs Newmans sem klámmyndaleikari?

„Að vissu leyti má segja að MEAT vísi til þess. Eric Clinton Newman skapaði sér fjölmörg hliðarsjálf á netinu, eitt þeirra var klámmyndaleikarinn Luka Magnotta. Titill verksins MEAT vísar auðvitað í margar áttir en við látum áhorfendum eftir að túlka það.“

120 manna sýning

Borghildur segir 120 manns koma að sýningunni, yfir 60 leikarar séu í henni og 60 manna framkvæmdateymi. „Við fengum um þúsund umsóknir fyrir þátttöku í verkinu allstaðar að úr heiminum. Við fjögur, Thomas Bo, Olga Sonja, Julian og ég erum meðal leikara.“

– Sýning verksins er hluti af leikhúshátíðinni FIND. Hvers konar leiklistarhátíð er það?

„Leikhúshátíðin F.I.N.D. stendur fyrir Festival of International New Drama sem byrjaði í Schaubühne árið 2000. Hátíðin sýnir nýjar uppsetningar á verkum sem koma allstaðar að úr heiminum. Í ár er fókus hátíðarinnar tengslin milli einkalífs, listsköpunar, félagslegrar og pólitískrar ábyrgðar,“ segir Borghildur.

Vefsíða Schaubühne: www.shaubuehne.de