Menningarstofnun Ein af opinberum byggingum Shigeru Ban, Centre Pompidou í Metz í Frakklandi. Hann notast mikið við pappír í grindina.
Menningarstofnun Ein af opinberum byggingum Shigeru Ban, Centre Pompidou í Metz í Frakklandi. Hann notast mikið við pappír í grindina. — Ljósmynd/Didier Boy de la Tour
Japanski arkitektinn Shigeru Ban hreppir Pritzker-verðlaunin í ár, en það eru merkustu verðlaun sem arkitektar geta hreppt fyrir verk sín.

Japanski arkitektinn Shigeru Ban hreppir Pritzker-verðlaunin í ár, en það eru merkustu verðlaun sem arkitektar geta hreppt fyrir verk sín. Ban er þekktastur fyrir að hanna allrahanda byggingar, allt frá bráðabirgðahúsnæði fyrir flóttafólk, til gallería og kirkna, úr pappahólkum, en hann starfrækir stofur í Tókýó, París og New York.

Í tilkynningu segir að arkitektar séu vanir að nota pappír og karton til að teikna byggingar og setja saman módel, en Ban, sem er 56 ára gamall, hefur kosið að nota það sem efnivið í byggingarnar sjálfar.

„Þegar rúlla af teiknipappír eða faxpappír er búin þá sitja alltaf þessir stífu pappírshólkar eftir,“ segir hann. „Þeir eru svo sterkir og fallegir og ég geymdi þá alltaf. Síðan heimsótti ég verksmiðju sem gerði slíka hólka og komst að því að þá má gera í hvaða lengd og breidd sem er.“

Árið 1994 gerði Ban tillögu fyrir Sameinuðu þjóðirnar um bráðabirgðaskýli fyrir flóttafólk frá Rúanda, sem voru reist úr pappírshólkum, og ári síðar voru reistar byggingar eftir teikningum hans fyrir fólk sem missti heimili sín í jarðskjálftum í Japan; sökklarnir voru gerðir úr sandfylltum bjórkössum og veggirnir úr lóðréttum pappírshólkum. Síðan hafa neyðarskýli verið reist eftir teikningum hans víða, og til að mynda rómuð kirkja í Christchurch í Nýja-Sjálandi, eftir að jarðskjálftar ollu þar miklum skemmdum.

Ban er sjöundi japanski arkitektinn sem hreppir Pritzker-verðlaunin síðan stofnað var til þeirra árið 1979.