[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Stykkishólmi Símon B. Hjaltalín sport@mbl.is Snæfell kom sér í úrslit gegn Haukum eftir sigur í oddaleik undanúrslita kvenna á Íslandsmótinu í körfubolta gegn Val 72:66 eftir hádramatískan leik í Stykkishólmi.

Í Stykkishólmi

Símon B. Hjaltalín

sport@mbl.is

Snæfell kom sér í úrslit gegn Haukum eftir sigur í oddaleik undanúrslita kvenna á Íslandsmótinu í körfubolta gegn Val 72:66 eftir hádramatískan leik í Stykkishólmi. Snæfellingar eru þar með komnir í úrslit Íslandsmóts kvenna í fyrsta sinn.

Valur skoraði ekki stig í eina og hálfa mínútu seint í leiknum á meðan Snæfell komst yfir 67:66 eftir að hafa verið undir 62:66. Snæfell sallaði svo niður stigum af vítalínunni og tók svakalega sterkan sigur.

Snæfell lék án Chynnu Brown en Hugrún Eva var komin aftur á fjalirnar. Mikið kapphlaup við tímann var að ná Guðrúnu Gróu leikfærri en útlitið var ekki gott með hana degi fyrir leik. Það munaði miklu fyrir Snæfell að hafa hana með í gærkvöld, þar sem hún var burðarás liðsins með 21 stig, 12 fráköst, 6 stoðsendingar, 4 stolna bolta og ekki má gleyma þeirri ótrúlegri varnarvinnu sem hún skilaði.

Dómarinn meiddist

„Með taugarnar þandar, titrandi andar...“ söng Bubbi. Það var sannmæli í þessum dramatíska og spennumikla leik. Á augnablikum í leiknum stöðvaðist bæði tíminn og hjörtu fólks. Valur leiddi leikinn að mestu og var yfirleitt skrefi framar eða frá 2-9 stigum. Snæfell náði þó að jafna endrum og sinnum og héldu sér fast í þessa hraðskreiðu eimreið sem leikurinn var. Valur komst strax í forystu 2:8 þó að Snæfell hafi náð 4 sóknarfráköstum í einni sókn en kláraði ekki skotin.

Um miðjan fyrsta fjórðung varð seinkun á leiknum þar sem Sigmundur Már Herbertsson, annar dómara leiksins, þurfti á aðhlynnigu að halda og haltraði út af. Eftirlitsmaðurinn og formaður dómaranefndar Rúnar Birgir Gíslason skipti um sæti við Sigmund Má og kláraði leikinn sem dómari með Davíð Hreiðarssyni.

Valskonur leiddu eftir fyrsta leikhluta og Unnur Lára Ásgeirsdóttir kláraði magnaðan þrist á lokaflauti, 21:25 fyrir Val.

Óöruggar á boltann

Valur pressaði allan völlinn strax í öðrum hluta og setti leikinn í sínar hendur með 15:0 kafla, forystuna 21:30 og refsaði Snæfellskonum illa fyrir að vera óöruggar á boltann og missa hann trekk í trekk. Snæfellingar bættu þá verulega í vörn og baráttu um fráköstin og náðu að krafsa sig nær 29:33 og funheitt orðið í húsinu. Guðrún Gróa jafnaði 43:43 og staðan eftir þriðja hluta var 52:53 fyrir gestina.

Liðin skiptust á að skora og missa boltann og Snæfell komst yfir 58:55 í fjórða leikhluta. Valskonur réru sig með dugnaði frá Snæfelli, 62:66 þegar tvær mínútur voru eftir og Snæfell tapaði boltanum á afar mikilvægum augnablikum. Svo kom að því að Snæfell sýndi mátt sinn og Alda Leif Jónsdóttir setti þrjú stig og Hildur Björg Kjartansdóttir fór á vítalínuna og skoraði úr báðum skotum og kom Snæfelli yfir 67:66. Hildur Sigurðardóttir skoraði svo síðasta stig leiksins fyrir Snæfell af vítalínunni og eins og áður sagði sigraði Snæfell 72:66 og fer í úrslitaeinvígið gegn Haukum.

Veit ekki hvort húsið er laust

„Þetta er bara með sætari sigrum sem ég hef unnið á mínum ferli og ég er hreinlega klökkur,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, eftir leikinn, og sá ástæðu til að vippa sér út á miðju vallarins eftir leik og taka breikdansspor.

„Ég er með liðið í henglum og neita að trúa því ennþá að Guðrún Gróa hafi spilað þennan leik í dag, því í gær gat hún ekki gengið. En almáttugur minn sjáðu hvað hún var flott í dag. Þetta eru bara ótrúlegir töffarar í liðinu og ég er fáránlega stoltur af því. Við gerðum mikið rétt í dag og tókum réttar ákvarðanir. Við erum án Chynna Brown sem snéri sig í leik fjögur og við hefðum getað sprautað og teipað og gert allar hundakúnstir við hana en ákváðum að hvíla og vitum að við erum með nógu gott lið til að vinna Val – og hvaða lið sem er á þeim mannskap sem við eigum eftir. Nú hefst undirbúningur fyrir næsta einvígi og við höfum ekki einu sinni hugsað svo langt hvort húsið er einu sinni laust á laugardaginn. Þetta er sögulegt fyrir Snæfell og í fyrsta skipti sem þær spila í úrslitarimmunni,“ sagði Ingi Þór sem skrifar körfuboltasöguna í Hólminum með hverjum leik.

Snæfell – Valur 72:66

Stykkishólmur, undanúrslit kvenna, oddaleikur, þriðjudag 25. mars 2014.

Gangur leiksins : 2:6, 11:11, 21:15 , 21:25, 22:30, 31:36, 33:40, 39:42 , 43:43, 45:47, 49:52, 52:53 , 58:58, 58:62, 62:65, 72:66 .

Snæfell : Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 21/12 fráköst/6 stoðsendingar, Hildur Sigurðardóttir 19/11 fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir 15/13 fráköst, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 14/11 fráköst, Alda Leif Jónsdóttir 3/7 fráköst.

Fráköst : 33 í vörn, 21 í sókn.

Valur : Anna Alys Martin 24/7 fráköst, Guðbjörg Sverrisdóttir 14/6 fráköst, Unnur Lára Ásgeirsdóttir 13/8 fráköst, Ragna Margrét Brynjarsdóttir 5/7 fráköst, Þórunn Bjarnadóttir 4/5 fráköst, Kristrún Sigurjónsdóttir 3, Ragnheiður Benónísdóttir 2/4 fráköst/4 varin skot, María Björnsdóttir 1.

Fráköst : 27 í vörn, 15 í sókn.

Dómarar : Sigmundur Már Herbertsson (Rúnar B. Gíslason) og Davíð Kristján Hreiðarsson.

*Snæfell vann einvígið, 3:2.