Mér áskotnaðist nokkurt fé í gær, sannkallað fundið fé, enda þurfti ég ekkert til að vinna nema gefa þeim sem vildi gefa mér pening aðgang að netfangi mínu, fæðingardegi mínum og upplýsingum um Facebook-vini mína (fæðingardag þeirra, heimabæ og...

Mér áskotnaðist nokkurt fé í gær, sannkallað fundið fé, enda þurfti ég ekkert til að vinna nema gefa þeim sem vildi gefa mér pening aðgang að netfangi mínu, fæðingardegi mínum og upplýsingum um Facebook-vini mína (fæðingardag þeirra, heimabæ og staðsetningu).

Þetta var svo sem ekkert geypifé, 31,8 aurar af Auroracoin, sem er víst sýndarfé, en ekki raunverulegt, eða svo kjósa menn að nefna peninga sem ekki er hægt að handfjatla (sælir eru þeir, sem ekki sáu, og trúðu þó – en svo er því reyndar háttað með obbann af því fé sem hver maður eyðir í dag).

Auroracoin er unnið í stafrænum námum, ef svo má segja, verður til fyrir þrotlausar reikniaðgerðir og á vefsetri Auroracoin, http://auroracoin.org/, má lesa hvers vegna menn leggja út í svo umfangsmikla námavinnslu: Það er til að steypa núverandi fjármálakerfi og skapa „nýja tíma frjálsra gjaldmiðla sem eru lausir við afskiptasemi stjórnmálamanna og hyskis þeirra“.

Í stefnuyfirlýsingu Auroracoin, sem er öllu lengri á ensku en íslensku (kannski ekki til heimabrúks) birtist samskonar hugmyndafræði og býr að baki þeirrar sýndarmyntar sem mest hefur verið fjallað um í fjölmiðlum undanfarið, Bitcoin, og flestir myndu kalla heittrúarfrjálshyggju, enda byggist hún á andúð á ríkisvaldi og yfirvöldum yfirleitt – einskonar bræðingur af anarkisma og kapítalisma (frjálshyggjumenn = fjáðir anarkistar).

Víst er frelsið falleg hugsjón, en sérkennileg sú leið sem sýndarmyntin Auroracoin á að varða – í stað ríkisvalds, sem almenningur getur haft nokkur áhrif á í kosningum, verða til nýir myntsláttumenn sem enginn veit deili á og enginn getur fylgst með. Frelsið sem felst í gjaldmiðlinum er fyrst og fremst frelsi þess sem býr hann til og kemur í umferð – þeir sem taka við honum og taka að nota hann búa til verðmætin sem upphafsmaðurinn nýtur (enda líklegt að hann, eða þeir, eigi sitthvað af sýndarfé sjálfir sem þeir geta svo komið í verð þegar verðmætið verður til.

Að ýmsu leyti minnir sýndarfé eins og Auroracoin á keðjubréfin sem tíðkuðust á árum áður, þar sem sá sem hrinti keðjunni af stað græddi vel og eins þeir sem honum stóðu næst, en gróðinn minnkaði eftir því sem lengdist í keðjunni, enda kom hann úr vasa þeirra sem komu inni í hana á eftir upphafsmönnunum.

Fræg voru þau orð breska stjórnmálamannsins Winstons Churchills í breska þinginu í nóvember 1947 að lýðræði væri versta gerð stjórnarfars, fyrir utan allt annað stjórnarfar sem menn hefðu reynt. Sama má eiginlega segja um peningakerfið sem við búum við, það er að mörgu leyti gallað, jafnvel meingallað, en ekki sýnist mér það mikil bót að fræra framleiðslu peninga í hendur huldumanna. arnim@mbl.is

Árni Matthíasson