Vigdís Ósk Sveinsdóttir
Vigdís Ósk Sveinsdóttir
Eftir Vigdísi Ósk Häsler Sveinsdóttur: "Rússland er nógu öflugt til að fylgja eftir hagsmunum sínum og þarf ekki endilega að færa sannfærandi lagaleg rök fyrir gjörðum sínum."

Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um aðskilnað Krímskaga frá Úkraínu og innganga svæðisins eða innlimun í Rússland voru hvort tveggja fyrirsjáanlegir atburðir. Yfirgnæfandi meirihluti íbúanna greiddi atkvæði gegn því að svæðið héldist sem hluti af Úkraínu. Stjórnvöld á Krímskaga lýstu yfir sjálfstæði og óskuðu eftir viðurkenningu annarra ríkja á sjálfstæði svæðisins sem fullvalda ríkis. Á meðan stjórnvöld á Vesturlöndum og víðar skeggræða ástandið, leitast yfirvöld á Krímskaga og í Rússlandi við að réttlæta gjörðir sínar með vísun í þjóðarétt og alþjóðalög. Í þeim efnum hefur m.a. verið vísað til ráðgefandi álits Alþjóðadómstólsins, frá 22. júlí 2010, um stöðuna sem þá var uppi í Kosovo, þar sem fram kemur í hinu ráðgefandi áliti, að „einhliða yfirlýsing um sjálfstæði hluta landsins, brjóti ekki í bága við alþjóðalög“.

En gengur þessi rökstuðningur Rússa og héraðsþingsins á Krímskaga upp?

Ráðgefandi álit Alþjóðadómstólsins til rökstuðnings

Ráðgefandi álit Alþjóðadómstólsins um stöðu Kosovo á sínum tíma, hvílir á stuttri umfjöllun um viðmið þjóðaréttar, sem að mati dómstólsins bannar ekki einhliða yfirlýsingar um sjálfstæði. Meginreglan um friðhelgi landsvæðis (e. territorial integrity), gildir aðeins í samskiptum ríkja, en ekki um þær kringumstæður sem nú eru um stöðuna á Krímskaganum, þegar hluti sjálfstæðs ríkis klýfur sig frá því ríki sem það tilheyrir. En í sínu ráðgefandi áliti, kemur dómstóllinn einnig inn á aðstæður þar sem einhliða yfirlýsingar ríkja um sjálfstæði geta farið í bága við alþjóðalög, þar sem þær voru gerðar í tengslum við ólögmæta valdbeitingu eða önnur alvarleg brot á reglum alþjóðaréttar.

Sjálfstæðisyfirlýsing stjórnvalda á Krímskaga hefði verið með öllu ómöguleg án stuðnings og aðkomu rússneska hersins sem átti beinan þátt í því að landsvæðið gat skilið sig frá Úkraínu. Rússneski herinn kom í veg fyrir að úkraínskar hersveitir á Krímskaga kæmust frá starfsstöðvum sínum. Þá voru innviðir samfélagsins á Krímskaga teknir yfir af rússneskum (her)sveitum til þess að búa í haginn fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, sem yfirlýsing um sjálfstæði var síðan látin hvíla á. Sjálfstæðisyfirlýsing hvílir því á valdbeitingu. Samkvæmt ráðgefandi áliti Alþjóðadómstólsins um Kosovo kemur einmitt fram að ef valdbeitingin er ólögmæt er yfirlýsing um sjálfstæði það einnig.

Meginreglan um sjálfsákvörðunarrétt þjóða

En rökstuðningur yfirvalda á Krímskaga styðst einnig við sáttmála Sameinuðu þjóðanna, nánar tiltekið meginregluna um sjálfsákvörðunarrétt þjóða sem finna má í 2. tl. 1. gr. sáttmálans. Alþjóðasamfélagið er tregt til þess að viðurkenna þennan rétt af þeirri einföldu og augljósu ástæðu að flest ríki óttast að þeirra eigin friðhelgi og réttur til yfirráðasvæðis, gæti þá verið í hættu.

Í ályktun Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, nr. 2625 frá 1970, má finna nokkurs konar leiðbeinandi fyrirmæli um viðurkenningu á sjálfsákvörðunarrétti þjóða. Ályktunin leggur áherslu á að slíka viðurkenningu „megi ekki túlka sem eitthvert verkfæri sem heimili eða hvetji til aðgerða sem gætu sundurlimað eða skaðað, í heild eða að hluta, friðhelgi landssvæðis eða pólitíska einingu fullvalda og sjálfstæðra ríkja“. Sjálfsákvörðunarrétturinn gerir aftur á móti þá kröfu að ríki virði réttindi minnihlutahópa, en veitir ekki ákveðnum svæðum þar sem slíkir hópar búa og starfa, rétt til þess að fara frjálslega með vald á því svæði. Hvað sem öðru líður, verður ekki framhjá því litið að Krímskagi hafði stöðu sjálfstæðs héraðs samkvæmt stjórnarskrá Úkraínu. Í meginatriðum má því segja að réttur héraðsins til þess að beita meginreglunni um sjálfsákvörðunarrétt þjóða, hafi verið til staðar.

Þessi lagalega staða Krímskagans í tengslum við sjálfsákvörðunarrétt ríkja er því nokkuð ljós. Framkvæmdin var hins vegar í skjóli rússneska hersins. Óneitanlega hafa ríki á Vesturlöndum stofnað til þrýstings um að meginreglan um sjálfsákvörðunarréttinn njóti viðurkenningar. Má í því sambandi enn og aftur nefna stöðu Kosovo sem varð sjálfstætt ríki á örskotsstundu eftir að hafa lýst yfir sjálfstæði sínu árið 2008. Þau ríki sem þá studdu ákvörðun Kosovo skýldu sér á bakvið þann rökstuðning að saga svæðisins um innri átök, mannréttindabrot og fall Júgóslavíu, væru undanfari yfirlýsingar Kosovo um sjálfstæði og því efnislega réttmæt að alþjóðalögum. Sambærilega sögu átaka er ekki að finna á Krímskaga. Rússland er nógu öflugt til að fylgja eftir hagsmunum sínum og þarf ekki endilega að færa sannfærandi lagaleg rök fyrir gjörðum sínum. Einhvers konar rökstuðningur sem er ekki algerlega út í hött, eins og meginreglan um sjálfsákvörðunarrétt þjóða, eru þau rök sem rússnesk stjórnvöld styðjast við, þó ekki væri nemasem yfirvarp. Því má reyndar halda fram að stjórnvöld á Vesturlöndum beri að hluta til ábyrgð á þessari rúmu túlkun á meginreglunni um sjálfsákvörðunarrétt þjóða í tengslum við stöðuna í Kosovo á sínum tíma. En hvað sem því líður er Krímskagi nú orðinn órjúfanlegur hluti af Rússlandi – með dyggri aðstoð rússneska hersins.

Höfundur er héraðsdómslögmaður, LL.M. í alþjóðlegum refsirétti.