[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HANDBOLTI Þorkell Gunnar Sigurbjörnss. thorkell@mbl.is „Þetta er alveg gífurlega svekkjandi. Ég hélt fyrst að þetta væri ekki svona slæmt því þetta var töluvert sársaukaminna en þegar ég sleit síðast.

HANDBOLTI

Þorkell Gunnar Sigurbjörnss.

thorkell@mbl.is

„Þetta er alveg gífurlega svekkjandi. Ég hélt fyrst að þetta væri ekki svona slæmt því þetta var töluvert sársaukaminna en þegar ég sleit síðast. Það sást síðan ekkert í röntgenmyndatökunni sem ég fór í eftir æfinguna. En um kvöldið fann ég að hnéð var ekki með neinn stöðugleika og mig grunaði þá strax að þetta væri krossbandið. Þannig ég var eiginlega bara búinn að sætta mig við það þegar ég fékk staðfestinguna á því,“ sagði Rúnar Kárason, landsliðsmaður í handbolta, við Morgunblaðið í gær.

Rúnar sleit krossband í hægra hné á æfingu með Hannover-Burgdorf á mánudag og er reiknað með því að hann verði frá í um sjö mánuði. Árið 2012 lenti Rúnar í sama áfalli þegar hann sleit krossband í vinstra hné, þannig að hann þekkir þessi erfiðu meiðsli vel.

Fann hvernig hnéð gaf sig

„Ég reyndi að brjótast í gegn á æfingunni í annarri bylgju hraðaupphlaups og boltinn var ekki kominn alveg til baka. Ég reyndi að nýta mér það, sá frían mann við hliðina á mér og sendi á hann. Líkaminn snérist með því og ég var eiginlega hálfur í loftinu. Þegar ég lenti virtist ég vera alltof fastur í jörðinni og ég fann hvernig hnéð gaf sig,“ sagði Rúnar um hvernig meiðslin komu til.

Áfallið er vitanlega gríðarlegt fyrir Rúnar sem hefur fundið sig vel með Hannover-Burgdorf síðan hann gekk í raðir félagsins fyrir áramót. Forráðamenn félagsins hafa líka verið ánægðir með hann, því rétt fyrir Evrópumótið í Danmörku í janúar var samningur Rúnars við félagið framlengdur til ársins 2016.

Ekki hefur verið ákveðið endanlega hvenær hann fer í aðgerð vegna meiðslanna. Til boða stendur að undirgangast skurðaðgerð í Þýskalandi í dag, en líklega verður þó ofan á aðgerð á Íslandi á mánudag framkvæmd af Brynjólfi Jónssyni lækni. Umboðsmaður Rúnars þarf þó að ganga frá því með honum vegna tryggingamála.

Stefnir á HM í Katar

Meiðslin setja þátttöku Rúnars á heimsmeistaramótinu í Katar í janúar á næsta ári í hættu, komist íslenska landsliðið þangað, en Rúnar vonar nú samt að hann geti náð mótinu. „Ég fór nú að reikna og eftir átta mánuði er upphaf desember. Ef ég yrði orðinn klár þá hefði ég þann mánuð til að koma mér í stand fyrir HM. Það gefur mér vissulega aukakraft að hugsa svoleiðis, en svo kemur bara í ljós hvernig gengur. Það getur vel verið að þetta taki lengri tíma. Maður veit aldrei. Þó að ég vilji komast á HM er aðalmálið bara að komast sem fyrst aftur á völlinn – en hafa skynsemina samt í huga. En ég hef farið í gegnum þessi meiðsli áður, þannig að ég veit núna hvað ég get gert öðruvísi og hvar ég get bætt í. Ég þarf líka að passa upp á að koma ekki til baka eins þungur á mér og eftir síðustu krossbandsslit,“ sagði Rúnar sem ætlar sér að koma sterkur til baka eftir meiðslin.