Kári Gunnarsson
Kári Gunnarsson
Eftir Kára Gunnarsson: "Næsta sunnudagsmorgun skal ég ekki láta það henda mig að nenna ekki að taka útvarpið úr sambandi þegar klukkan slær 11."
Leti er ljótur löstur. Það rifjaðist upp fyrir mér þar sem ég var að dunda mér í bílskúrnum á sunnudagsmorguninn. Ég hafði ætlað mér að slökkva á útvarpinu áður en klukkan yrði 11, svo ég hefði fulla einbeitni við það sem ég var að gera, en nennti því ekki. Argaþras stjórnmálamanna lætur ekki vel í eyrum, a.m.k. ekki miðað við ýmsa aðra góða dagskrárliði á Rás 2 á sunnudögum. En skömmu síðar heyrði ég að þáttastjórnandinn var farinn að ræða við formann Samfylkingarinnar. Fyrst hélt ég að um væri að ræða koddahjal ungra elskenda, svo vel fór á þeim. GMB hóf mál sitt á þeirri hlutlausu alhæfingu að ríkisstjórn landsins „væri með allt niður um sig“ og um það gátu þeir Árni Páll verið sammála. Ég gerði mitt besta til að leiða samræður þeirra félaga hjá mér næstu mínútur en heyrði þó frasa á stangli: Kíkja í pakkann, tollamúrar, Mjólkursamsalan, þjóðarvilji, gul spjöld og rauð. Í mínum huga hafði eitt mál verið í fréttum vikunnar, sem vakti öðrum fremur spurningar. Það var hvernig seðlabankastjóri Samfylkingarinnar hafði fengið milljónir hjá bankaráðsmanni Samfylkingarinnar, að vísu ekki úr hennar vasa, heldur skattgreiðenda. Þessi fjárstuðningur við bankastjórann kom til vegna þess að hann hafði staðið í þeirri meiningu að sömu lög giltu ekki um hann og aðra. Hafði hann verið gerður afturreka fyrir tveimur dómsstigum með þessar ranghugmyndir sínar og hlotið af því nokkurn kostnað. Honum fannst rétt að skattgreiðendur bæru þennan kostnað og fróðlegt hefði verið að heyra skoðun Árna Páls á málefninu. Þegar ég heyrði að GMB kvaddi formann Samfylkingarinnar án þess að bera þetta mál undir hann varð ég dolfallinn. Ég aðgætti hvort ég hefði nokkuð gleymt að skrúfa fyrir gasið á suðuvélinni og hefði því getað hnigið í ómegin um stund, en svo var ekki. Þetta mál var það fyrsta sem óhlutdrægur þáttastjórnandi hefði borið undir formann Samfylkingarinnar, enda ein helsta frétt vikunnar. Hvers vegna GMB taldi mál seðlabankastjóra ekki fréttnæmt er í hæsta máta furðulegt. Næsta sunnudagsmorgun skal ég ekki láta það henda mig að nenna ekki að taka útvarpið úr sambandi þegar klukkan slær 11. Það vill svo til að ég og aðrir skattgreiðendur borgum GMB kaup fyrir starf hans sem þáttastjórnandi. Hann er ekki þarna á einkarekinni trúarstöð þar sem hann og viðmælandinn geta fabúlerað í innihaldslausum frösum um fyrirheitna landið.

Höfundur er kennari.