Gunnlaugur G. Einarsson fæddist í Reykjavík 9. nóvember 1948. Hann lést á gjörgæsludeild Borgarspítalans laugardaginn 15. mars 2014.

Foreldrar Gunnlaugs voru Hafliði Einar Guðjónsson fisksali, f. 27. september 1909, d. 26. júní 1973, og Margrét Jónína Gunnlaugsdóttir, f. 3. ágúst 1912, d. 19. apríl 1995.

Systkini Gunnlaugs eru Þorbjörg Ragnhildur sjúkraliði, f. 11. október 1934, gift Gunnlaugi Gunnarssyni framkvæmdastjóra, f. 5. janúar 1936, d. 30. maí 2012. Árni Ágúst sjómaður, f. 29. janúar 1936, d. 18. júní 1988. Kristín, f. 20 júní 1941. Jón Hólm, f. 20. maí 1947, giftur Huldu Björnsdóttur, f. 26. júlí 1948. Hafdís Margrét, f. 2. apríl 1950, gift Gunnari Fjeldsted Hjartarsyni, f. 2. maí 1959. Ingvar skipasmíðameistari, f. 28. mars 1952, giftur Ingiríði Þórisdóttur, deildarstjóra sálfræðideildar HÍ, f. 19. júní 1952. Kjartan húsgagnabólstrarameistari, f. 22. nóv 1953, giftur Katrínu Valgerði Ingólfsdóttur ritara, f. 19. ágúst 1952.

Eftirlifandi eiginkona Gunnlaugs er Jóna Haraldsdóttir, f. 11. október 1950. Hún er dóttir Haraldar Jónassonar, f. 25. júlí 1918, d. 10. september 1984, og Dóru Ottesen, f. 29. júlí 1917. Systir hennar er Erla Haraldsdóttir, f. 2. júlí 1943, gift Sigurði Einarssyni, f. 7. apríl 1943. Gunnlaugur og Jóna giftust 28. janúar 1973. Þau eignuðust tvö börn. 1) Margrét viðskiptafræðingur, f. 15. júlí 1973, gift Sigurhans Vigni viðskiptafræðingi, f. 27 júlí 1969. Börn þeirra eru Jóna Rut, f. 21. mars 1998, Tómas og María, f. 25. desember 2004. 2) Halldór viðskiptafræðingur, f. 11. maí 1977, maki Hildur Sveinsdóttir viðskiptafræðingur, f. 22. apríl 1981. Börn þeirra eru Óttar, f. 23. ágúst 2010, og Rúrik f. 28. október 2012.

Gunnlaugur ólst upp í Reykjavík og útskrifaðist sem bifreiðasmiður frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1969. Hann starfaði við þá iðngrein ásamt því að sinna öðrum störfum, m.a. sem sviðsmaður og leikmyndasmiður hjá Leikfélagi Reykjavíkur. Árið 1994 var hann einn af stofnendum Bifreiðasmiðju G&Ó og vann þar til ársins 2005 þegar hann hóf störf sem forstöðumaður smíðaverkstæðis hjá Borgarleikhúsinu þar sem hann starfaði uns veikindi hans skertu starfsgetu hans. Gunnlaugur gekk í frímúrararegluna 1976 og tók virkan þátt í störfum reglunnar í gegnum árin. Gunnlaugur var tengdur Leikfélagi Reykjavíkur alla tíð.

Útför Gunnlaugs verður gerð frá Vídalínskirkju í dag, 26. mars 2014, og hefst athöfnin kl. 13.00.

Elsku pabbi,

Ég man þegar þú kenndir mér að sitja hest bara nokkurra ára, þegar þú fórst með mig í sund til að hjálpa mér að vinna bug á vatnshræðslunni, þegar ég var úti í bílskúr að aðstoða þig við að búa til hnappa í sætin sem þú varst að klæða. Ég man ferðalögin og „systemin“ sem þú útbjóst fyrir útilegugræjurnar sem þróuðust með fjölskyldunni eftir því sem ferðalögin urðu fleiri. Ég man laugardagskvöldin okkar á Langholtsveginum, þegar við dönsuðum saman á diskóteki á Rhodos þegar ég var 13 ára, spilakvöldin okkar við eldhúsborðið þar sem þú sast seinna og beiðst eftir að ég skilaði mér heim þegar unglingsárin færðust yfir. Ég minnist trausts pabba sem passaði upp á fjölskylduna sína, pabba sem ávallt var tilbúinn til skrafs og ráðagerða þegar eitthvað þurfti að útfæra og framkvæma. Ég minnist samhentra hjóna sem studdu hvort annað í gegnum súrt og sætt. Ég minnist afa barnanna minna sem var óþreytandi að spjalla við þau og lesa sömu bækurnar aftur og aftur. Þau sem voru svo náin þér og hafa misst svo mikið.

Störf þín í leikhúsinu gáfu þér mikið og okkur nýja sýn á leikhúsið. Þú varst óþreytandi við að skýra út fyrir okkur útfærslurnar sem þú varst að vinna að hverju sinni og maður stóð sig að því þegar maður sá sýningarnar að horfa eftir ýmsum smáatriðum í leikmynd eða tækniútfærslu sem þú varst búinn að útlista fyrir okkur. Ég veit að það gaf þér mikið að halda í tengslin við leikhúsið á meðan þú tókst á við veikindin og fyrir það er ég þakklát.

Það var mikið áfall fyrir okkur öll þegar mamma veiktist fyrir 8 árum. Að fylgjast með þér og umhyggjunni sem þú barst fyrir henni og hennar velferð hefur sýnt mér hvað felst í orðunum „í blíðu og stríðu“. Missir mömmu er mikill en þú tókst á við aðstæður ykkar af miklu æðruleysi og sagðir stundum að þér væri ætlað það hlutverk að hlúa að henni. Þú varst kletturinn í hennar lífi og hlúðir að henni og hennar velferð á einstakan og óeigingjarnan hátt sem ég er þér óendanlega þakklát fyrir.

Á sama hátt tókst þú á við þín veikindi. Af æðruleysi og dugnaði. Í þínum veikindum var velferð mömmu áfram númer eitt hjá þér og hugsun þín var ávallt að byggja þig upp eftir hvert bakslag svo þú gætir heimsótt hana. Stundin sem við systkinin og þú áttum hjá henni helgina áður en þú kvaddir mun ég ávallt muna og varðveita í hjarta mínu.

Æðruleysi þitt og dugnaður hafa kennt mér margt. Þú sagðir mér að þú værir sáttur og ég veit að aðstæður voru þannig að ekki var hægt að ráða við þær. Örlögin eru eitthvað sem við ráðum ekki við en ég á erfitt með að sætta mig við hvernig þau hafa leikið þig og mömmu.

Á erfiðri stundu fyrir nokkrum mánuðum síðan komu þessi orð upp í huga minn og hef ég síðan haft þau að leiðarljósi og ætla að gera það áfram. Í mínum huga tókst þú á við örlög ykkar mömmu á þann hátt er hér er lýst.

Guð gefi mér æðruleysi

til að sætta mig við það

sem ég fæ ekki breytt,

kjark til að breyta því

sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli.

(Reinhold Niebuhr.)

Hvíl í friði, elsku pabbi. Þín,

Margrét Gunnlaugsdóttir (Gréta).

Elsku pabbi minn er dáinn. Þrátt fyrir að við vissum í hvað stefndi í veikindum þínum þá er svo ótrúlegt að hafa þig ekki hjá mér og geta ekki talað við þig. Þú komst alltaf með svo góð ráð. En eins og þú sagðir þá stjórnum við þessu ekki. Minningar um góðan pabba eru margar og það hjálpar mér að komast af þessa dagana. Þú vannst alltaf mikið og eiginlega þoldir ekki að slaka á. Það var mér reyndar til happs að þegar ég var lítill þá vannstu í bílskúrnum á Langholtsveginum. Þá gat ég þvælst fyrir þér þangað til þú fékkst mér einhver verkefni eða smíðaðir eitthvað handa mér, eins og gítarinn sem fylgdi mér hvert sem ég fór. Allt það sem þú bjóst til fyrir mig var búið til af mikilli fagmennsku, allt var svo vandað enda varstu mjög handlaginn og fá verkefnin sem þú réðst ekki við. Þú einfaldlega fannst bara upp eitthvert system til að láta það ganga upp, system er orð sem fylgdi þér alla tíð. Okkur Grétu systir fannst alltaf fyndið þegar þú sagðir: „Það þarf bara að finna upp eitthvað system og þá virkar þetta.“

Þú varst mikill sveitamaður og ég man þegar við fórum saman að Ausu í Borgarfirði, þar sem þú varst í sveit þegar þú varst lítill. Þangað fórum við að veiða og hitta fólkið á bænum. Þú sagðir mér margar skemmtilegar sögur um hvað þið hefðuð brallað sem litlir sveitastrákar. Við fórum að Ausu oftar en einu sinni. Ég man ekki hvort við veiddum einhvern fisk en minningin um góðan tíma með pabba mínum er sterk. Við ferðuðumst mikið á sumrin með mömmu og Grétu systur og um hverja helgi varstu búinn að hlaða bílinn mjög skipulega og haldið var af stað út úr bænum. Þórsmörk varð oft fyrir valinu og eigum við fjölskyldan margar góðar minningar þaðan, mamma að góla á þig í bílnum að fara varlega yfir Krossá og allar gönguferðirnar. Þú naust þín alltaf vel á ferðalögum og þú notaðir alltaf sömu setninguna þegar við stoppuðum einhversstaðar „Jæja, eigum við ekki að fara að dóla okkur af stað.“

Ég vann hjá þér í Bifreiðasmiðju G&Ó sem þú stofnaðir með Skara. Áður en ég hafði aldur til að fara í unglingavinnuna þá var ég farinn að sópa og þvælast fyrir á verkstæðinu. Þú lést mig svo hafa verkefni sem ég annað hvort leysti eða þú kenndir mér að leysa. Þegar ég og Hildur keyptum okkar fyrstu íbúð þá mættir þú og vannst með okkur frá morgni til kvölds, alltaf hægt að treysta á þig. Svo þegar við keyptum okkar næstu íbúð þá höfðu veikindi þín bankað á dyrnar en það stoppaði þig samt ekki í að koma og veita okkur góð ráð í framkvæmdunum. Það reyndist okkur ómetanlegt. Þú varst samt ekki bara pabbi minn, þú varst líka afi Laugi. Þú naust þín vel í afahlutverkinu og strákunum mínum þótti svo vænt um þig. Alltaf var Óttar til í spjall og Rúrik bablaði með. Ég er svo ánægður að þeir hafi fengið að kynnast þér og ég mun segja þeim margar sögur um afa Lauga.

Takk fyrir allt elsku pabbi minn.

Halldór.

Það er sárara en orð fá lýst að kveðja Lauga bróður. Sannur vinur, traustur og góður maður er fallinn frá eftir erfiða baráttu við illvígan sjúkdóm, sem hann ætlaði svo sannarlega að sigra. Baráttan var ströng, sigrar unnust og vonbrigði vörðuðu leiðina, en Laugi gafst aldrei upp, kvartaði ekki og hélt áfram baráttunni til hinstu stundar.

Það var mikið áfall fyrir hann fyrir átta árum þegar Jóna, kona hans, fékk heilablóðfall og allt var breytt. Þá var ekki gefist upp og af ást og umhyggju annaðist hann hana af einstakri natni eða eins og hann sagði gjarnan við mig: Var það ekki í blíðu og stríðu sem við lofuðumst hvort öðru? Ég veit að það voru margar erfiðar stundir á þeirri vegferð, en hans góðu börn, Gréta og Halldór, stóðu þétt með pabba sínum þá og í öllu hans veikindastríði.

Mikill vinskapur hefur alla tíð verið með okkur hjónum og Lauga og Jónu. Margar góðar minningar frá matarboðum, ferðalögum og kaffispjalli í önnum hversdagsins ylja okkur á þessari sorgarstundu. Við bræður höfum alla tíð verið mjög nánir, átt saman gleði- og sorgarstundir, treyst hvor öðrum, tekist á um menn og málefni, verið sammála og ósammála, en alltaf sáttir.

Hugur okkar er hjá fjölskyldu hans, sem á nú um sárt að binda.

Við Inga vottum Jónu, Grétu, Halldóri og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúð og biðjum góðan Guð að gefa þeim styrk til að takast á við sorgina.

Minningin um góðan dreng lifir.

Ingvar.

Elsku Laugi bróðir minn. Nú ert þú farinn frá okkur allt of fljótt, úr erfiðum sjúkdómi sem þú barðist á móti af æruleysi. Þú varst algjör hetja.

Fyrir 8 árum veiktist Jóna og var það mikið áfall fyrir ykkur öll. Þú hugsaðir svo vel um hana, hennar hagsmunir ávallt hafðir í fyrirrúmi. Dáðumst við að þér og ég held að fáir hefðu getað farið í þín spor. Við ólumst upp í stórum systkinahóp og var oft glatt á hjalla þegar að við hittumst í gegnum árin við alls kyns tilefni, til dæmis afmælum okkar í seinni tíð.

Ég kveð þig með þessum orðum:

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Elsku Jóna mín, Gréta, Halldór og fjölskyldur, ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur,

Þín systir.

Þorbjörg Einarsdóttir (Dodda)

Elsku Laugi okkar. Mikið söknum við þín og erum í raun ekki enn búin að átta okkur á því að þú sért farinn. Okkur finnst þú vera á leið í mat til okkar eða að hringja fyrir svefninn. Við vorum heppin, heppin að eiga þig að og ég heppin að fá að kynnast þér. Kraftmikill, góðhjartaður og einstaklega handlaginn maður sem lét verkin tala. Þú varst með mikið jafnaðargeð og lést ekki margt slá þig út af laginu. Þú vannst verkin og svo sannarlega hlúðir þú að þínu fólki. Varst kletturinn hennar Jónu og okkar allra.

Ég gleymi því aldrei þegar þú mættir hingað í Rauðalækinn, lasinn varstu en hjálpaðir okkur samt við að smella teppum á herbergin hjá strákunum. Það var lítið verk fannst þér. Við þumalputtarnir áttum ekki til orð yfir fagmennskuna, ég vissi ekki að það væri hægt að setja teppi á gólf á svona stuttum tíma. Alveg fullkomlega lagt teppi. Þú naust þín líka vel í vinnunni, Borgarleikhúsið var alltaf ofarlega í umræðunni þegar við sátum saman og spjölluðum. Það þótti ekki mikið mál að færa sviðið út í salinn, þetta var bara verkefni sem til var lausn á og þú varst fljótur að finna lausnina.

Elsku Laugi, ég vona að þú fylgist með okkur og sért hjá okkur. Veit það eiginlega fyrir víst að svo er. Við munum aldrei hætta að segja strákunum sögurnar af afa Lauga.

Hvíldu í friði, elsku tengdapabbi.

Hildur.

Í dag kveðjum við tengdaföður minn Gunnlaug Einarsson (Lauga) sem lést 15. mars síðastliðinn. Ég kynntist Lauga fyrir 22 árum þegar við Gréta byrjuðum saman. Hann tók mér strax opnum örmum og það féll aldrei skuggi á samskipti okkar.

Laugi var ekki maður margra orða en hann var gríðarlega traustur, duglegur og vandvirkur maður. Honum féll aldrei verk úr hendi og hann var mjög úrræðagóður. Við tveir áttum margar góðar stundir saman við ýmsar framkvæmdir svo sem við að lagfæra húsnæði okkar Grétu í Fossvoginum og síðar Bæjargilinu. Við unnum vel og rösklega saman og vorum ekkert að eyða tímanum í óþarfa mas. Við vorum líkir að því leyti.

Laugi var bifreiðasmiður að mennt og rak um tíma bifreiðaverkstæði en frá árinu 2005 vann hann sem forstöðumaður á Smíðaverkstæði Borgarleikhússins. Laugi hafði mikla ánægju af því að starfa í leikhúsinu og að leysa flókin verkefni sem tengdust uppsetningum á leiksýningum. Honum leið vel í Borgarleikhúsinu og naut þess að vinna í góðum hópi starfsfólks þar.

Laugi kynntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Jónu, árið 1971, þau giftu sig árið 1973 og eignuðust börnin Grétu og Halldór. Laugi og Jóna voru mjög samrýmd hjón og fylgdust vel að alla tíð. Þau nutu þess að ferðast saman, bæði innanlands sem erlendis. Það var gaman að fara með þeim útilegur og sjá hversu allt var skipulagt og úthugsað í tengslum við ferðalögin. Laugi var yfirleitt búinn að breyta og bæta jeppana og útilegugræjurnar sérstaklega fyrir þau, enda á heimavelli þar. Það var einnig ógleymanlegt þegar við fjölskyldan ásamt Lauga, Jónu og Halldóri fórum saman til Spánar árið 2001. Við skemmtum okkur vel í þeirri ferð. Laugi byrjaði að stunda golf árið 2002 og fljótlega fór Jóna líka í golfið með honum. Þau voru dugleg að spila saman og nutu þess að fara í golf með góðum vinum.

Jóna veikist alvarlega árið 2006, frá þeim tíma stóð Laugi alltaf eins og klettur við hlið hennar og sýndi einstaka umhyggju gagnvart henni. Velferð Jónu var algjört forgangsmál hjá honum og óhætt er að segja að stór hluti af lífi hans, hafi snúist um að tryggja það að hún hefði það sem best í veikindum sínum. Í þessum samskipum upplifði ég það sterkt að Laugi stóð alltaf með ástvinum sýnum í blíðu og stríðu.

Laugi greindist með krabbamein árið 2011 en hann tók því af miklu æðruleysi og barðist eins og hetja allt til síðasta dags. Hann kvartaði ekki yfir örlögum sínum og ég held að hann hafi alltaf haft meiri áhyggjur af velferð Jónu sinnar heldur en af sínum veikindum

Við fjölskyldan áttum ómetanlega stund saman með Lauga viku fyrir andlát hans. Þá elduðum við uppáhaldsmatinn hans og fengum okkur góðan eftirrétt. Laugi tók vel til matar síns, eins og alltaf, og var hress þrátt fyrir að vera orðinn mjög veikur. Þessa stund munum við öll geyma og varðveita í hjörtum okkar.

Elsku Laugi, ég kveð þig með söknuði, blessuð sé minning þín. Þinn tengdasonur.

Sigurhans.

Góður frændi og föðurbróðir er fallinn frá alltof snemma. Mikið getur lífið verið skrítið og óskiljanlegt á svona stundu.

Ég minnist frænda sem var hlýr, mikill húmoristi og sem gaf sér alltaf tíma til að spjalla við mann, hvort sem maður var smákrakki eða fullorðinn. Mér þótti alltaf gaman að hitta Lauga og okkar samskipti voru iðulega á léttu nótunum. Minningarnar geyma margar hverjar augnablik sem erfitt er að setja á blað en í þeim flestum spila góðlátlegt grín, skemmtileg tilsvör, stríðnisglampi og hlátur stór hlutverk.

Ég mun alltaf hugsa til frænda míns þegar fjölskyldan kemur saman í framtíðinni, sérstaklega þegar sagt verður gjörið svo vel. Þá sást glampinn í augum Lauga iðulega langar leiðir, og hann lét ekki segja sér það tvisvar heldur stóð upp og gekk að veisluborðinu, gjarnan með pabba sér við hlið. Það þurfti einhver að byrja.

Elsku Jóna, Gréta, Halldór og fjölskyldur. Það er mikið á ykkur lagt. Guð veri með ykkur og styrki í þessari miklu sorg og megi tómarúmið smátt og smátt fyllast með góðum minningum.

Herborg Harpa Ingvarsdóttir.

Ég kynntist Gunnlaugi ungur að árum, hann var faðir besta vinar míns.

Góðar bernskuminningar hrannast upp, af nægu er að taka. Ótalmargar heimsóknir á Langholtsveginn og í Holtsbúðina og ferðalög með fjölskyldunni. Gunnlaugur var mikið náttúrubarn og vissi ekkert betra en að ferðast um landið með fjölskyldunni, með Ray-Ban gleraugun uppi og talstöðina á standby í bílnum. Jeppaáhuginn var mikill og ástríða hans á jeppum var óumdeilanleg og græni Hiluxinn var stoltið, enda fallegur bíll sem hann nostraði við af alúð.

Gunnlaugur var harðduglegur, bifreiðasmiður að mennt. Eftir að hafa starfað hjá Leikfélagi Reykjavíkur um áralangt skeið, stofnaði hann sitt eigið fyrirtæki, Bifreiðasmiðju G&Ó, uppi á Höfða þar sem breytingar á sjúkrabifreiðum Rauða krossins voru meðal annars framkvæmdar lengi vel. Það var ævintýri líkast að fá að kíkja í heimsókn upp á verkstæði og fá sér kakóbolla á kaffistofunni á efri hæðinni og hlusta á fréttatímann, þarna ríkti stóísk ró. Árið 2005 söðlaði hann um og seldi hlut sinn í bifreiðaverkstæðinu og hóf störf á smíðaverkstæði Borgarleikhússins. Þetta átti vel við hann, handlagna heimilisföðurinn sem í raun sleit sig aldrei frá leikhúsinu.

Gunnlaugur var mikill hófsemdarmaður með prinsippin á hreinu og þá skein hógværðin af honum. Aldrei heyrði ég hann hækka róminn, upphefja sjálfan sig eða baktala náungann. Það er svo margt í fari hans sem margir mættu taka sér til fyrirmyndar í dag. Hann hafði ákaflega góða nærveru.

Eftirminnilegt er þegar ég sá Gunnlaug fyrst klæddan í kjólföt, á leiðinni á frímúrarafund. Ég var orðlaus og hafði aldrei séð neinn mann eins flottan til fara á ævinni. Mér fannst eins og forsetinn væri mættur og ekki skemmdi vasaúrið, með keðjunni, fyrir heldur.

Ég er ákaflega þakklátur fyrir að hafi kynnst Gunnlaugi, manni sem skilur eftir sig svo margar góðar minningar.

Ég votta allri fjölskyldunni mína innilegustu samúð.

Þórhallur Eggert Þorsteinsson.

Þegar vel fer saman hugur og hönd er að vænta góðrar útkomu. Gunnlaugur G. Einarsson starfaði hér fyrr á árum hjá Leikfélagi Reykjavíkur í Iðnó en á árinu 2005 var honum falið það vandasama hlutverk að veita leikmyndadeild Borgarleikhússins forstöðu. Því starfi gegndi hann þar til hann lét nýverið af störfum sökum heilsubrests.

Leikmyndadeild tekur við teikningum frá leikmyndahönnuðum og skilar leikmyndinni fullbúinni til sviðsetningar. Leikmyndaframleiðsla er frábrugðin hefðbundinni smíðavinnu, hvort sem um er að ræða tré, járn eða önnur efni, þar sem niðurstaðan þarf oftlega að líta út sem gamalt, snjáð, skakkt, nýtískulegt, fágað eða stílhreint. Það eru miklir snillingar sem geta unnið slík verk svo útkoman verði trúverðug.

Fyrir þeim hópi manna sem unnu að leikmyndaframleiðslu í Borgarleikhúsinu fór Gunnlaugur. Einstök útsjónarsemi, elja og samskiptahæfileikar voru hans aðalsmerki. Frá margslungnum og flóknum teikningum leikmyndahönnuða til lokafrágangs leikmynda er leiðin löng. Þar blómstruðu eiginleikar Gunnlaugs í samræðum við hönnuði, stjórnendur og samstarfsmenn við að framkalla og skapa listaverkið ásamt því að halda framkvæmdinni innan fjárhagsáætlunar.

Starfsmenn Borgarleikhússins sjá á eftir afar mætum samstarfsmanni sem allt of fljótt hefur verið kallaður á æðra svið. Gunnlaugur var okkur afar kær félagi, ljúfur og vinsæll. Vildi hvers manns vanda leysa. Ávalt boðinn og búinn, drengur góður. Hans er sárt saknað og hvíli hugur okkar hjá eiginkonu Gunnlaugs, börnum og fjölskyldunni allri. Megi almættið styrkja þau í sorg og söknuði.

Þorsteinn S. Ásmundsson

Hinsta kveðja.
Afi minn er dáinn
langt út í himinbláinn.
Vonandi líður honum vel.
Hann var blíður og góður
en alls ekki óður.
Nú yrki ég mitt sorgarljóð
í gröfina þína fögru.
Þín,
María.
Afi Laugi
Þú varst svo skemmtilegur og sterkur. Það er svo sárt að missa þig.
Knús og kossar.
Þinn,
Tómas.