Torfi Ólafsson, fyrrverandi deildarstjóri í Seðlabanka Íslands, lést á Fossvogsspítala föstudaginn 21. mars. Torfi var kunnur fyrir félagsstörf, þýðingar, útgáfumál og áhuga á trúmálum og stjórnmálum. Torfi fæddist að Stakkadal á Rauðasandi 26.

Torfi Ólafsson, fyrrverandi deildarstjóri í Seðlabanka Íslands, lést á Fossvogsspítala föstudaginn 21. mars. Torfi var kunnur fyrir félagsstörf, þýðingar, útgáfumál og áhuga á trúmálum og stjórnmálum.

Torfi fæddist að Stakkadal á Rauðasandi 26. maí 1919 og var tæplega 95 ára þegar hann lést. Foreldrar hans voru Ólafur Einarsson bóndi og Anna Guðrún Torfadóttir. Torfi útskrifaðist frá Verslunarskóla Íslands og vann síðan í Landsbanka Íslands og síðar sem deildarstjóri í Seðlabanka Íslands eftir að hann var stofnaður.

Torfi var formaður Félags kaþólskra leikmanna, þýddi bækur og greinar um trúmál og stjórnmál og vann mikið að félagsmálum. Hann var ritstjóri Merkis krossins og Kaþólska kirkjublaðsins og kom að útgáfu fjölda rita og bóka, bæði trúarlegra og veraldlegra. Hann samdi einnig fjölda sálma sem sungnir eru við trúarathafnir auk ljóða fyrir hin ýmsu tækifæri. Jóhannes Páll páfi II sló Torfa til riddara í reglu heilags Silvesters árið 1990 fyrir störf hans í þágu kirkjunnar á Íslandi.

Fyrrum var Torfi formaður Menningartengsla Íslands og Ráðstjórnarríkjanna (MÍR), fulltrúi í Heimsfriðarráðinu í Austur-Berlín, var félagi í Sósíalistaflokknum og síðar í Alþýðubandalaginu en eftir að einkenni slíkra flokka komu betur í ljós gekk hann í Sjálfstæðisflokkinn.

Sálumessa verður sungin í Dómkirkju Krists konungs í Landakoti föstudaginn 4. apríl næstkomandi kl. 13 og verður útför hans gerð þaðan.