Kópavogur Tekist á í bæjarstjórn.
Kópavogur Tekist á í bæjarstjórn. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti í gærkvöldi að vísa tillögu Ómars Stefánssonar, bæjarfulltrúa Framsóknarflokks, um hærra starfshlutfall bæjarfulltrúa til forsætisnefndar.

Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti í gærkvöldi að vísa tillögu Ómars Stefánssonar, bæjarfulltrúa Framsóknarflokks, um hærra starfshlutfall bæjarfulltrúa til forsætisnefndar. Þar verður farið yfir tillöguna og gerð könnun á núverandi og raunverulegu starfshlutfalli kjörinna fulltrúa í bænum.

Starfshlutfall hækkað um 73%

Ómar lagði fram tillögu til bæjarstjórnar að starfshlutfall bæjarfulltrúa yrði hækkað úr 27% af þingfarakaupi í 100% sem myndi þýða um 630 þúsund krónur í mánaðartekjur fyrir bæjarfulltrúa í Kópavogi. Í rökstuðningi sínum með tillögunni sagði Ómar að starfshlutfall bæjarfulltrúa hefði haldist nær óbreytt á meðan umfang starfsins hefði aukist mikið. Það væru því mun ríkari kröfur gerðar til kjörinna fulltrúa um eftirlit með starfsemi bæjarins nú en áður.

Hávaðarifrildi á fundi

Aðalsteinn Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, var andvígur tillögunni og bað hann um að málinu yrði frestað svo unnt væri að vinna kostnaðarmat. Töluvert var um frammíköll á meðan Aðalsteinn flutti ræðu sína og var það Ómar sem kallaði fram í. Aðalsteinn var ósáttur við þetta og upp hófst rifrildi sem endaði með því að Aðalsteinn krafðist þess að Ómari yrði vísað úr salnum svo hann gæti flutt ræðu sína. Fundinum var frestað um stund en hélt svo áfram að báðum bæjarfulltrúum viðstöddum.