Kjaradeilur eru óhjákvæmilegur liður tilverunnar, en mikilvægt er að óvissa og röskun haldist innan marka

Kjaradeilur eru fyrirferðarmiklar um þessar mundir. Gengið hefur verið frá flestum samningum á almenna markaðnum, sem svo er kallaður. Opinberir aðilar telja að samningar sem þeir gera við sína viðsemjendur verði að taka mið af þeim meginlínum sem þar voru dregnar. Stjórnvöld með aðkomu sinni að þeim samningum á lokastigi hafi staðfest að þeir geti samrýmst markmiðum efnahagsstjórnarinnar.

Þetta er ekkert nýtt. Og það er heldur ekkert nýtt að forystumenn launþega sem starfa „hjá hinu opinbera“ í víðtækri merkingu orðanna kunni lítt að meta að þeim sé gefin forskrift af þessu tagi. Þeir hljóti að hafa fullt forræði sinna mála, enda séu aðstæður ólíkar og samningar ASÍ og SA séu fjarri því að geta verið leiðbeinandi í öllum efnum fyrir aðra.

Þessi sjónarmið eru auðvitað réttmæt og eðlileg. En það eru gildar ástæður fyrir vilja til þess að samningar á almennum markaði leiði kjaraþróunina. Samningamenn fyrirtækjanna geta ekki leyft sér að skrifa undir samninga sem fyrirtækin rísa ekki almennt undir. Þessi nálægð við raunveruleikann er ekki bundin við vinnuveitendur eina því viðsemjendurnir og umbjóðendur þeirra eru langflestir mjög meðvitaðir um aðstæður. Þeir vita að launahækkanir, sem eiga ekki aðra stoð en þá, sem hatrömm verkfallsátök veita, leiða á skömmum tíma til samdráttar í vinnu með fækkun starfa og minni yfirtíð eða þá hratt vaxandi verðbólgu, nema hvort tveggja sé.

Opinberi markaðurinn hefur af eðlilegum ástæðum ekki jafn næma tilfinningu í slíkum efnum. Ekki er verið að segja að leiðtogar launþegasamtaka í opinbera geiranum séu óábyrgir í störfum sínum. Aðeins að hinn kaldi veruleiki er ekki jafn beintengdur og gerist á almenna markaðnum.

Rík nauðsyn stendur til að þoka megi efnahagslífinu til betri vegar á næstu árum og takist það verður að tryggja með öllum ráðum að launþegar njóti réttláts ávinnings af bata. Bærilegur friður á vinnumarkaði er ein forsendan fyrir því að vel takist til bæði í bráð og lengd. Forsenda slíks friðar er meðal annars sú að lausn núverandi kjaradeilna byggist á raunsæi og sanngirni, óháð því hvorum megin borðs setið er.