Einar Sigurður Gíslason fæddist á Setbergi í Miðneshreppi þann 25. júní 1924. Hann lést 4. mars 2014.

Foreldrar hans voru hjónin Gísli Jónatan Einarsson, f. 5. sept. 1896, dáinn 27. febrúar 1997 og Ólafía Guðjónsdóttir, f. 12. ágúst 1896, dáin 1. apríl 1931. Systkini hans í aldursröð eru: Kristín Viktoría, látin, Þórhallur, sá eini alsystkina enn á lífi, Guðjón, látinn, Gísli Ólafur, látinn og Benoný, látinn. Hálfsystkin Einars, samfeðra með seinni konu föður hans, Guðmundu Jónasdóttur, eru: Þóra, Karitas, Páll og Svanhvít. Fóstursystir Einars, dóttir Guðmundu er Sigríður Berny og uppeldisbróðir hans er Kjartan Björnsson. Einar gekk í barnaskóla í Sandgerði. Hann tók 30 tonna skipstjórapróf sem ungur maður. Þann 8. maí 1950 kvæntist hann Ingibjörgu Gísladóttur frá Akurhúsum. Hún er fædd 13. janúar 1930. Þau hófu búskap í Hafnarfirði, fluttu þaðan í Garðinn árið 1952. Árið 1954 fluttu þau í Sandgerði í húsið Varmahlíð en á Þorláksmessu árið 1958 flutti fjölskyldan á Suðurgötu 42 í hús sem þau byggðu sér sjálf. Hafa þau búið þar síðan. Börn þeirra eru: Eldri, Ómar Castaldo Einarsson, fæddur 5. apríl 1948. Maki hans er Pálína Jóna Guðmundsdóttir. Ómar á fjögur börn og fimm barnabörn, Pálína á einn son og fjögur barnabörn og yngri er Henríetta Ingibjörg Haraldsdóttir, fædd 5. október 1952. Hún á fjórar dætur og sjö barnabörn.

Framan af starfsævinni starfaði hann sem sjómaður. Uppúr 1960 stofnaði hann útgerð með Guðjóni bróður sínum og Sævari Sæbjörnssyni. Þeir starfræktu hana í 17 ár. Eftir það fór hann að vinna hjá Íslenskum aðalverktökum á Keflavíkurflugvelli þar til hann fór á eftirlaun.

Elsku Einar afi í Sandgerði er búinn að kveðja þennan heim eftir að hafa barist hetjulega við mikil veikindi. Þrátt fyrir að við vissum að þessi dagur myndi renna upp er alltaf sárt að kveðja og hafa ófá tárin streymt síðustu daga.

Við fjölskyldan erum búin að eiga saman nána daga eftir að afi kvaddi, rifjaðar hafa verið upp gamlar og góðar minningar um elsku afa, skipst á sögum og skoðaðar myndir sem hafa fengið okkur til að brosa út í annað.

Það voru forréttindi að eiga afa í Sandgerði að. Hann var gull af manni, einstaklega vandaður í alla staði, fyrirmynd í einu og öllu, hlýr, góðhjartaður, hnyttinn og mikill karakter. Hann var mikið snyrtimenni, fjallmyndarlegur, hörkuduglegur og alltaf með puttann á púlsinum enda var einstaklega gaman að ræða heimsmálin við hann.

Móttökurnar í Sandgerði voru alltaf hlýjar og góðar. Afi og amma biðu í glugganum þegar við komum, amma búin að reiða fram kræsingar, afi búinn að hella upp á nýtt kaffi og leggja á borð. Afi hafði alltaf tíma fyrir okkur og það voru ófá skiptin sem við sátum með honum í eldhúskróknum í Sandgerði, lögðum kapal og spjölluðum um allt milli himins og jarðar. Sumarbústaðurinn átti sérstakan stað í hjörtum afa og ömmu og var það alltaf ævintýri líkast að koma í bústaðinn þar sem afi og amma höfðu nostrað við hvert smáatriði. Við barnabörnin gátum endalaust hlaupið um gróið landið, farið í göngutúra upp að ánni og klifrað í mömmueik.

Ég hitti afa síðasta haust í Sandgerði, þá átti ég með honum góðar stundir sem ég mun geyma. Þrátt fyrir að vera orðinn mjög máttfarinn þá beið hann í eldhúsglugganum eins og venjulega, kom og tók á móti okkur með brosi og knúsi, að sjálfsögðu búinn að hella upp á kaffið sitt. Þar sem afi heyrði mjög illa var ekki hægt að tala við hann í síma en í staðinn sendum við honum póstkort með fréttum af okkur Lundar fjölskyldunni. Mamma og amma voru líka duglegar að færa okkur fréttir af afa og spyrja frétta af okkur fyrir hann. Svo sáumst við á Skype öðru hverju. Ég er óendanlega þakklát fyrir að eldri dóttir mín fékk tækifæri til að kynnast afa og búa til sínar eigin minningar en hún átti með honum nokkra daga í Sandgerði viku áður en hann dó, þar sem hún sat með honum í rólegheitum uppi á háalofti og horfði á sjónvarpið með langafa.

Ég minnist afa alltaf með blik í augunum, í góðu skapi, hann var rólegur, yfirvegaður og stutt í húmorinn og hláturinn sem smitaði út frá sér við minnsta tilefni. Hann var klettur í lífi okkar allra og lifði fyrir fjölskylduna sína. Ég er ótrúlega þakklát fyrir að hafa átt afa að í öll þessi ár. Hann mun án efa halda áfram að fylgjast grannt með okkur fjölskyldunni um ókomna tíð þar sem við erum dreifð um Ísland, Svíþjóð og Danmörku.

Ég bið góðan Guð um að styrkja og styðja ömmu Ingu.

Ég kveð þig með miklum söknuði, elsku afi minn, en þú munt alltaf lifa áfram í hjarta mínu.

Þín,

Charlotta.

Elsku afi minn var ein af bestu manneskjum sem ég þekki. Ég sá afa aldrei í vondu skapi, hann var alltaf með bros á vör og hafði alltaf eitthvað skemmtilegt að segja og hló óspart. Ég man best eftir afa uppi á háalofti að horfa á fréttirnar en um leið og maður kom í heimsókn dreif hann sig niður til að koma að knúsa mann og heyra hvað maður hafði að segja, þrátt fyrir mjög lélega heyrn.

Það var alltaf svo gaman að koma í heimsókn til ömmu og afa í Sandgerði þar sem þau tóku vel á móti manni og voru alltaf búin að undirbúa dýrindis mat. Ég á milljón minningar frá því að ég var lítil stelpa að leika uppi í sumarbústað hjá ömmu og afa. Ég, Sölvi og Alex vorum alltaf að prakkarast eitthvað, klifra uppi í trjám, drullumalla, róla eða leika okkur í ánni. Afi var alltaf að leika við okkur og hjálpa okkur með ýmis verkefni sem okkur datt í hug, hann var alltaf til staðar.

Þegar ég kom í heimsókn á þessu ári og afi var orðinn mjög veikburða lét hann aldrei eins og hann væri það. Um leið og hann heyrði okkur labba inn um dyrnar kom hann niður til að knúsa mig með bros á vör eins og í gamla daga. Einni og hálfri viku áður en hann dó kom ég í heimsókn. Hann sat uppi á háalofti að horfa á fréttirnar og þótt hann heyrði eiginlega ekki neitt lækkaði hann í sjónvarpinu og byrjaði að tala við mig. Ég sagði við hann að hann þyrfti ekkert að vera að lækka af því mig langaði bara að geta verið með honum að horfa á sjónvarpið en þá sagði hann: „Já, en mig langar að heyra hvað þú hefur að segja á meðan ég er ennþá á lífi.“ Eftir þessa heimsókn þá knúsaði ég ömmu og afa bless, en rétt áður en ég labbaði út um dyrnar var eins og ég fyndi eitthvað á mér og ég ákvað að knúsa afa aftur og segja honum hvað mér þætti vænt um hann, sem ég er mjög þakklát fyrir að hafa gert í dag.

Hann var gull af manni og þvílík hetja og mun ég ávallt taka hann til fyrirmyndar í lífinu. Ég veit að afi vakir yfir okkur öllum og sérstaklega ömmu Ingu. Elsku afi minn, ég elska þig og mun sakna þín á hverjum degi.

Þín,

Josefine.